Reykjanesbraut, Lækjargata, hringtorg
Reykjanesbraut
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 6 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1779
1. febrúar, 2017
Annað
Fyrirspurn
l.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 26.jan.sl. Hrafnhildur Halldórsdóttir og Hrafnhildur Ýr íbúar í Setbergi koma á fundinn.
Sigurður Haraldsson sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsþjónustu kemur á fundinn.
Bæjarráð tekur undir áhyggjur íbúa í Setbergshverfi sem komu fram á fundinum um að umferðarþungi á þeim hluta Reykjanesbrautar sem liggur í gegnum Hafnarfjörð sé orðinn óásættanlegur og ógni öryggi vegfarenda. Bæjaryfirvöld munu óska eftir viðræðum við ríkið að um úrbætur verði gerðar þarna á hið fyrsta.
Svar

Til máls tekur bæjarfulltrúi Helga Ingólfsdóttir.

Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum eftirfarandi ályktun:

Bæjarstjórn fagnar útboði og fyrirhuguðum framkvæmdum vegna nýrra mislægra gatnamóta Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar. Um er að ræða fyrsta skrefið af fleiri brýnum verkefnum í uppbyggingu og endurnýjun stofnvegakerfisins í gegnum Hafnarfjörð. Bæjarstjórn skorar á sama tíma á Alþingi og ráðuneyti að marka tímasetta heildarstefnu á vegabótum á Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar og tryggja að fjármagni verði veitt í áframhaldandi framkvæmdir á svæði sem setið hefur eftir. Tryggt verði fjármagn á fjárlögum 2018 og næstu ára þar á eftir gerist þess þörf. Á þessum kafla, sem um ræðir í Hafnarfirði, eru átta gatnamót; tvö mislæg, þrjú T-gatnamót og tvö hringtorg sem eru orðin mikil slysagildra. Þessi tvö hringtorg eru, samkvæmt samantekt Umferðardeildar Vegagerðarinnar frá því í júní 2016, slysahæstu hringtorgin á höfuðborgarsvæðinu sem segir mjög mikið til um mikilvægi framkvæmdarinnar. Það er lífsnauðsynlegt að tryggja umferðaröryggi á þessu svæði og stuðla að því að m.a. íbúar á svæðinu komist öruggir til og frá heimilum sínum. Öngþveiti á annatímum hefur orðið til þess að umferðin hefur í auknum mæli færst inn í íbúðahverfin sjálf sem leitt hefur af sér aukinn hraða og aukna slysahættu. Mælingar sýna að umferð um Reykjanesbraut - Hafnarfjarðarveg ( Kaplakriki) að brú yfir Fjarðarbraut ( Strandgötu)(ÁDU) hefur aukist úr 15.373 bílum á dag árið 2000 í 28.851 árið 2015 og fer fjölgandi. Á þessari leið eru gatnamót á milli hverfa í Hafnarfirði en sívaxandi umferðarþungi, sem ekki síst má rekja til aukins ferðamannastraums til landsins, er að leggjast mjög þungt á samgöngur innan bæjarins. Hafnarfjörður býr við mun verra ástand hvað þetta varðar en nokkur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þar sem allir ferðamenn sem koma til landsins fara umræddan veg á leið sinni til langflestra annarra staða á landinu. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar óskar eftir viðræðum hið fyrsta milli fulltrúa bæjarins og ríkisvaldsins vegna þessara mála.

220 Hafnarfjörður
Landnúmer: 197313 → skrá.is
Hnitnúmer: 10121182