Tillaga frá UNGSÁ um lífsleiknitíma á unglingastigi í grunnskólum
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 15
18. september, 2019
Annað
Fyrirspurn
Ungmennaráð Árborgar leggur til að lífsleiknitímar á unglingastigi í grunnskólum verði lengri, markvissari og betur nýttir.
Svar

Ásrún Aldís Hreinsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:

Ungmennaráð Árborgar leggur til að lífsleiknitímar á unglingastigi í grunnskólum verði lengri, markvissari og betur nýttir.
- Hingað til hafa lífsleiknitímar á unglingastigi ekki verið nýttir nógu vel. Okkur í Ungmennaráðinu finnst það synd, því þessir tímar eiga að vera undirbúningur fyrir lífið. Þessi tillaga er nú flutt í fjórða sinn því að það er ekki upplifun fulltrúanna í ungmennaráðinu að grunnskólarnir hér í sveitarfélaginu séu að leggja áherslu á þessa námsgrein.
- Við leggjum til að gerð verði kennsluáætlun fyrir lífsleiknitímana þar sem sérstakt efni væri tekið fyrir í hverjum mánuði, með fræðslu í upphafi og verkefnavinnu og umræðum í kjölfarið.
- Einnig leggjum við til að lífsleiknitímar verði tvöfaldaðir því það munar um leið svo miklu þegar hægt er að ná fram lengri umræðum eftir kynningar eða fræðslu.
- Dæmi um fræðslu: Réttindi ungs fólks á vinnumarkaði, fræðsla um umhverfismál, fjármálalæsi, skyndihjálp, kynfræðsla og fl.
- Sífellt er verið að brjóta á ungu fólki sem þekkir hvorki réttindi sín né vinnumarkaðinn nógu vel. Þetta mætti auðveldlega bæta með markvissri fræðslu og verkefnum með. Stéttarfélögin hafa síðustu ár verið með kynningu og við teljum það mjög gott. Þó má bæta smá við þetta með verkefnum.
- Í fjármálalæsi má kenna gerð skattaskýrslna, læsi launaseðla, skilning á sköttum, lífeyrirssjóðum, tekjum, gjöldum o.s.frv. Strax við fermingu eignast meirihluti barna mjög mikið af peningum en kunna ekki einu sinni að leggja hann inn í banka.
- Það er fullt af ungu fólki sem kunna ekki skyndihjálp því það er svo lítið um fræðslu. Það er að sjálfsögðu ekki gott þegar á reynir. Hægt væri að fara í samstarf við björgunarsveitina, rauðakrossinn.
- Það er nokkuð augljóst hvers vegna kynfræðsla er mikilvæg. Ungt fólk hefur oft margar spurningar en veit ekki hvert á að snúa sér með þær. Það er mjög gott að eiga stundum tíma sem gerður er fyrir slíkar spurningar. Einnig má reyna að fá allavega einu sinni á grunnskólagöngunni karlkyns kennara til þess að kenna strákum kynfræðslu.
- Fræðsla um umhverfismál, loftlagsmál, flokkun sorps og tilheyrandi. Vantar tilfinnanlega öflugri fræðslu um þessi mál í grunnskóla en ungmennaráðið fagnar fjölbreyttum verkefnum sem hafa verið keyrð í leikskólum.

Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til fræðslunefndar.