Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um samráðsferli hverfisskipulags
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 vikum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 120
10. nóvember, 2021
Annað
Fyrirspurn
Tillaga fulltrúa Flokks fólksins að haft verði sérstakt samráð við börn og unglinga í samráðsferli hverfisskipulags. Börn fara um hverfið sitt, þekkja það og stunda ýmsa afþreyingu þar utan skóla. Umhverfið og skipulag hverfis skiptir börn miklu máli og á því skilyrðislaust að hafa sérstakt samráð við þau eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir og gefur tilefni til.  Hvað þau hafa að segja um samgöngur, græn svæði, umferðina og göngu- og hjólastíga er dæmi um samráð sem hafa skal við börn og unglinga. Þeirra skoðanir og álit um þessi mál skiptir miklu máli. Að hafa börn með í ráðum við skipulag á umhverfi þeirra hefur jákvæð áhrif á hvernig þeim líður í hverfinu sínu, hvernig þau skynja og upplifa hverfið sitt og hefur einnig áhrif á hvort þau skynja hverfi sitt sem öruggt og gott hverfi.
Svar

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu.

Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Í samráðsferli vegna hverfisskipulags hefur verið notast við hugmyndafræði "Skapandi samráðs" (e. Planning for Real). Hluti af því er vinna þar sem börn smíða módel af hverfinu sínu. Í Háaleiti og Bústöðum tóku meðal annars yfir 150 börn þátt á sínum tíma. Sama aðferðarfræði hefur verið notuð í öðrum hverfum og verður notuð í vinnunni framundan til dæmis í Laugardal. Samráð við börn er því þegar óaðskiljanlegu hluti af ferlinu og er tillögunni vísað frá.
  • Flokkur fólksins
    Tillaga Flokks fólksins um sérstakt samráðsferli við börn og unglinga þegar verið er að skipuleggja hverfi hefur verið vísað frá með þeim rökum að það sé nú þegar gert. Fulltrúi Flokks fólksins hefur reyndar ekki orðið var við að þetta sé gert kerfisbundið og ítrekað. Tillögu sem þessari á ekki að vísa frá heldur samþykkja og taka alvarlega. Það má alltaf gera betur þegar kemur að samtali við börn og unglinga. Bestu hugmyndirnar gætu einmitt komið frá börnum sem náð hafa þeim aldri að hugsa sjálfstætt, móta hugmyndir og ályktanir og koma þeim frá sér í orðum eða teikningum  Börnin þekkja hverfið sitt vel og kannski best af öllum. Umhverfi á þess utan að vera barnvænt eins og framast er unnt. Börn gætu haft mikið að segja um samgöngur,  umferðina og göngu- og hjólastíga sem þau sjálf fara hvað mest um. Þeirra skoðanir og álit um þessi mál skiptir miklu máli og ekki dugir að segja bara “þetta er nú þegar gert”.  Að hafa börn með í ráðum við skipulag á umhverfi þeirra hefur jákvæð áhrif á hvernig þeim líður í hverfinu sínu, hvernig þau skynja og upplifa hverfið sitt og hefur einnig áhrif á hvort þau skynja hverfi sitt sem öruggt og gott hverfi.