Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,um fund varðandi Arnarnesveg
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 110
7. júlí, 2021
Annað
Fyrirspurn
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir að haldinn verði sameiginlegur fundur með Vinum Vatnsendahvarfs,  Betri samgöngum og Vegagerðinni þar sem rætt verður um fyrirhugaða lagningu 3ja. áfanga Arnarnesvegar og þeirra áhrifa sem lagning hraðbrautarinnar hefur á Vatnsendahvarfið, nærliggjandi umhverfi  og umferð. Að baki Vinum Vatnsendahvarfs standa mörg hundruð manns. Byggja á framkvæmdina á 18 ára gömlu umhverfismati. Marg ítrekað hefur verið óskað eftir að nýtt umhverfismat verði gert. Vatnsendahvarfið er náttúruperla og dýrmætt grænt svæði sem liggur á mótum Reykjavíkur og Kópavogs. Svæðið er mikið nýtt útivistarsvæði og útsýnissvæði íbúa nágrennisins. Einnig er Vatnsendahvarfið varpland fjölmargra fuglategunda, þar á meðal lóu, hrossagauka og spóa. Fyrirhugaður 3. kafli Arnarnesvegar mun koma til með að skera Vatnsendahvarfið í tvennt og breyta ásýnd þess og notagildi. Umhverfismat sem framkvæmdin á að byggja á er frá 2003. Á þessum tæpum tveimur áratugum hefur mikið breyst á svæðinu auk þess sem ekki liggur fullljóst fyrir hvaða áhrif þessi framkvæmd hefur á umhverfi, útivist, umferð og hljóðvist. 
Tillögunni fylgir greinargerð.
Svar

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni.

Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld haldi fund með Vinum Vatnsendahvarfs, Vegagerðinni og Betri Samgöngum hefur verið felld með þeim rökum að ekki er hefð fyrir því að haldnir séu sameiginlegir fundi með hagaðilum. Fram til þessa hefur ekki virðst vera mikill vilji til samtals um þetta mál hvað þá samráðs. Ekki er verið að biðja um annað en að fagleg vinnubrögð séu viðhöfð, að fengið verði nýtt umhverfsimat í stað þess að notast við mat frá 2003. Þess utan er um að ræða lýðheilsumál því við hlið hraðbrautarinnar verður leiksvæði barna, vetrargarður. Ekki hefur verið tekið mark á umsögnum Vina Vatnsendahvarfs, Íbúaráðs Breiðholts, og Umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur sem öll mæltu með því að nýtt umhverfismat yrði gert fyrir framkvæmdina. Með því að bjóða fólki að senda umsagnir var aðeins  sýndarlýðræði.  Sextíu metra breið gjá verður sprengd inn í Vatnsendahvarfið í byrjun næsta árs til að leggja þessa stofnbraut sem mun eyðileggja þetta dýrmæta útivistarsvæði til frambúðar. Þessi stofnbraut, sem tengist við Beiðholtsbrautina sem er nú þegar er sprungin, mun skapa mun fleiri vandamál en hún er hönnuð til að leysa. Þegar framkvæmd af þessari stærðargráðu er fyrirhuguð er betra að fara hægt en að æða áfram í vanhugsun.
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Ekki er hefð því að haldnir séu sameiginlegir fundi með hagaðilum á þann hátt sem tillagan nefnir. Hins vegar fer sannarlega vel á því að framkvæmd sem þessi sé kynnt á opnum íbúafundi. Eðlilegt að slíkur fundur verði skipulagður í tengslum við deiliskipulagsauglýsingu og að hann sé haldinn samstarfi við Kópavogsbæ og Vegagerðina.