Landspítalinn, stöðubönn
Síðast Samþykkt á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 69
29. apríl, 2020
Samþykkt
Fyrirspurn
Lagt fram erindi Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 20. apríl 2020 sem varðar bann við því að stöðva og leggja næst sjúkrahóteli og barna- og kvennadeild ásamt merkingu stæðis fyrir sjúkrabifreiðar.
Svar

Samþykkt.

Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Hér er lagt til að bannað verði að stöðva og leggja næst sjúkrahóteli og barna- og kvennadeildar. Sjálfsagt er að banna það. Þessi tillaga hins vegar minnir fulltrúa Flokks fólksins á eldri tillögu flokksins frá 5.3 2019 er varðar bílastæði í kringum Landspítala fyrir þá sem heimsækja spítalann. Kannski er í lagi að rifja þá tillögu upp hér. Það eru ófá dæmin þar sem fólk lendir í stökustu vandræðum með að finna stæði þar í kring. Verst er þegar fólk er kallað til í neyðartilvikum og getur hvergi fundið bílnum sínum stæði. Lagt var til í þessari tillögu Flokks fólksins að innleiða bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi bráðamóttöku og fæðingardeildar. Hugmyndin var að borgin myndi leita eftir samstarfi við Landspítalann um innleiðingu bifreiðastæðaklukku í ákveðin stæði næst inngangi fyrir þá sem þurfa að leggja bíl sínum í skyndi vegna neyðartilfellis. Finni fólk stæði eru minni líkur á að lagt sé þar sem það er bannað.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma frekari hömlur á aðkomu að Landspítalans við Hringbraut. Aðkoman að aðalinngangi, kvennadeildar og fæðingardeildar hafa verðið þrengdar verulega, m.a. með byggingu sjúkrahótels þar sem aðalbílastæði norðan spítalans voru áður. Nú er verið að banna að stöðva og leggja ökutækjum á þessu svæði, sem gerir mjög erfitt fyrir fólk sem á erfitt með gang að koma inn í spítalann á þessu svæði. Algjör skortur er á skammtímastæðum til að koma fólki að og frá aðalinngangi spítalans á sama hátt og áður var. Fullur skilningur er á þörf greiðra leiða fyrir sjúkrabíla að og frá spítalanum, en það verður líka að gera ráð fyrir skammtíma stæðum til að veita fólki sem á erfitt með gang jafnan aðgang og öðrum að öllum deildum Landsspítalans.
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Tillagan er unnin að ósk Landspítalans og í samvinnu við Lögreglu Höfuðborgarsvæðisins. Henni er ætlað að greiða fyrir aðkomu sjúkrabíla.