Sjómannaskólareitur, breyting á deiliskipulagi
Síðast Samþykkt á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 86
21. október, 2020
Samþykkt
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að breyting á deiliskipulagi Sjómannaskólareits til minnkunar á samþykktu byggingarmagni úr 5.635m2 í 4.500m2 á lóð (reit E) ) sem úthlutað hefur verið til Leigufélags aldraðra til byggingar almennra íbúða á grundvelli laga nr. 52/2016, samkvæmt uppdr. Umhverfis- og skipulagssviðs dags. 16. október 2020. Ástæða breytingarinnar er m.a. sú að við lok deiliskipulagsferlisins var þrengt töluvert að fyrirhugaðri uppbyggingu án þess að byggingarmagn væri uppfært í samræmi við það. Mest íþyngjandi atriði voru rýmri afmörkun á verndarsvæði Vatnshólsins, afmörkun sleðabrekku við Vatnshólinn austanmegin og umfangsmiklar kröfur Veitna um framkvæmd ofanvatnslausna á reitnum. 
Svar

Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Deiliskipulagstillagan felur í sér að byggingamagn á lóð sem úthlutað hefur verið til Leigufélags aldraða hefur verið minnkað og er það gert í samræmi við breytingar á deiliskipulagi Sjómannaskólareitsins í heild. Við styðjum uppbyggingu á reitnum.
  • Miðflokkur
    Lýst er yfir mikilli ánægju að Félag eldri borgara sé að byggja fleiri íbúðir, en áheyrnarfulltrúi Miðflokksins mótmælir uppbyggingu á þessum stað. Fjölmargar athugasemdir bárust þegar Sjómannaskólareitur var til umræðu í ráðum borgarinnar og mikillar óánægju gætti hjá umsagnaraðilum. Voru flest allar umsagnirnar á einn veg að skorað var á borgaryfirvöld að falla frá fyrirhuguðum byggingaráformum á Sjómannaskólareit. Talið er að fyrirliggjandi skipulagstillögur veiti Sjómannaskólanum ekki það umhverfislega andrými sem skólanum ber sem friðlýstri byggingu. Gríðarlegt byggingarmagn með tilheyrandi skuggavarpi mun ekki aðeins rýra verðgildi þeirra eigna sem fyrir eru heldur einnig rýra gildi stakkstæðisins í Saltfiskmóanum og Vatnshólsins sem útivistarsvæðis. Samkvæmt úttekt Reykjavíkur er gróðurþekja Háteigshverfis of lítil og með þessum framkvæmdum ef af verða er gengið enn frekar á hana. Fórna á mikilvægu grænu útivistarsvæði, byggja fyrir sjónlínur friðlýstrar byggingar og tefla einstökum menningarminjum í hættu. Nú hefur Reykjavíkurborg viðurkennt mistök og ætlar að minnka byggingamagnið um 1.100 fermetra eða úr 5.600 fermetrum í 4.500.
  • Flokkur fólksins
    Fulltrúi Flokks fólksins áttar sig ekki alveg á hvar þetta mál er statt í hugum íbúa og þeirra sem vilja standa vörð um þetta fallega svæði í borgarlandinu. Sú breyting sem hér er gerð hljómar kannski vel en eru íbúar í nágrenninu sáttir? Fulltrúi Flokks fólksins vill fá álit íbúa/borgarbúa á henni. Margar kærur bárust og bakkað var með ákveðna þætti en aðra ekki. Talað erum um ívilnandi ákvarðanir að minnka byggingarmagnið og er það vissulega gott. Málið er enn óljóst í huga fulltrúa Flokks fólksins. Eitt er vitað fyrir víst að þessi reitur hefur tilfinningagildi fyrir fjölmarga enda einn fallegasti reitur borgarinnar. Er búið að leysa úr öðrum málum, mögulegs skuggavarps sem deiliskipulagið mun leiða af sér og útsýnisskerðingar yfir Háteigsveg, Hallgrímskirkju? Það er ósk Flokks fólksins að málinu verði frestað þar til að búið er að kynna þessar breytingar fyrir íbúum í nágrenninu og öðrum sem vilja láta sig málið varða.