Hverfisgata 19 (Þjóðleikhúsið), óleyfisframkvæmd
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 86
21. október, 2020
Annað
Fyrirspurn
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa til Ríkiseigna ehf., dags. 24. september 2020, ásamt yfirliti breytinga. Einnig er lögð fram umsögn Minjastofnunar, dags. 30. september 2020.
Bókanir og gagnbókanir
  • Sjálfstæðisflokkur
    Mikilvægt er að afla leyfa fyrir framkvæmdum. Hér er um að ræða breytingar á friðuðu Þjóðleikhúsinu sem nýtur auk þess sérstakar verndar í lögum. Þá er þetta öryggismál þar sem fjöldi fólks kemur saman og verið er að breyta húsnæði og eldvarnarhólfum án leyfa fyrirfram. 
  • Miðflokkur
    Þann 23. september framkvæmdi eftirlitsnefnd byggingafulltrúans í Reykjavík húsaskoðun á Þjóðleikhúsinu eftir harðort álit eldvarnareftirlitsins því búið var að gera gat á milli eldvarnarhólfa sem skapaði mikla hættu. Byggingafulltrúi sendi bréf til Ríkiseigna ehf. þess efnis að í ljós hafi komið að unnið væri að breytingum í húsinu og að ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir þessum breytingum. Villur voru jafnframt í teikningum og voru aðilar að hanna breytingarnar sem ekki höfðu til þess leyfi. Að auki kom í ljós að ekki hafði farið fram öryggis- og lokaúttekt á byggingarleyfum og á þeim grunni væri óheimilt að hafa starfsemi í húsinu. Var eiganda gert að leggja inn nýjar og uppfærðar teikningar og sækja um lokaúttekt strax eftir umsókn hafi verið samþykkt. Að öðrum kosti yrði dagsektum beitt og Þjóðleikhússins lokað yrði ekki orðið við þessum fyrirmælum innan gefins tímafrests. Byggingafulltrúinn í Reykjavík samþykkti óleyfisframkvæmdirnar eftir á með þessum orðum: „Það athugist að um er að ræða samþykkt á áður gerði framkvæmd sem gerð var án byggingaleyfis. Óvissa kann því að vera um uppbygginu og útfærslu framkvæmdar. Hvorki er skráð verktrygging á verkið né ábyrgðaraðilar.“ Öll leyfi voru fengin eftir á og líka álit Minjastofnunar, öllum var stillt upp við vegg.
  • Flokkur fólksins
    Ekki er betur séð en að vel virðist hafa verið staðið að breytingum á Þjóðleikhúsinu. Verkið var unnið í samráði við Minjastofnun og reynt er að fylgja þeim tíðaranda sem var þegar húsið var byggt. Tími sem gafst þegar hlé var á sýningarhald vegna COVID var nýtt til þessara endurbóta. Breytingar eru afturkræfar. En það láðist að fá leyfi hjá byggingarfulltrúa. Miðað við aðstæður er hægt að fyrirgefa það. Það geta vissulega allir gert mistök sem slík og þar sem allar breytingar eru afturkræfar og Minjastofnun er sátt sér fulltrúi Flokks fólksins ekki ástæðu til að dvelja við þetta mál. Vissulega þurfa öll öryggismál s.s. brunamál að vera í lagi.