Hverfisskipulag, Breiðholt 6.3 Efra Breiðholt, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 106
2. júní, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.3 Efra Breiðholt, dags. 30. apríl 2021, ásamt almennri greinargerð og stefnu, dags. 30. apríl 2021, og skipulagsskilmálum, dags. 30. apríl 2021. Einnig er lögð fram verklýsing fyrir hverfisskipulag dags. 25. mars 2015, lagf. 4. maí 2015, skýrsla um íbúaþátttöku og samráð dags. 7. desember 2020, athugasemdir, ábendingar og spurningar sem bárust á kynningartíma vinnslutillagna hverfisskipulags fyrir Breiðholt á tímabilinu 16. júlí til 18. september 2020, samantekt á úrvinnslu athugasemda og ábendinga frá íbúum og hagsmunaaðilum dags. 26. maí 2021 og byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur fyrir borgarhluta 6, Breiðholt, skýrsla 216 frá árinu 2021.
Svar

Samþykkt að auglýsa nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt, HVSK í BH6, skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Ævar Harðarson deildarstjóri hverfisskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Hverfisskipulag Breiðholts er afrakstur faglegrar vinnu og umfangsmikils samráðs við íbúa. Það er deiliskipulag fyrir gróin hverfi sem á að gera þau vistvænni og sjálfbærari. Hverfisskipulagið mun einnig einfalda íbúum að sækja um breytingar á fasteignum eða lóðum. Við fögnum hugmyndum um danshús og vetrargarð. Hugmyndir um borgargötur og hverfiskjarna eru trúverðugar og bæta hverfið. Við teljum að stórbílastæði eigi að vera víkjandi í skipulagi hverfis en jafnframt að eðlilegt sé að taka gjald fyrir þau meðan þau eru.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Það er jákvætt að brugðist hafi verið við ýmsum athugasemdum íbúa og að kynning sé ítarleg. Mikilvægt er að unnið verði heildarskipulag fyrir Mjódd sem lykilsvæði til framtíðar.
  • Sósíalistaflokkur, Ísland
    Á sama tíma og áheyrnarfulltrúi Sósíalista fagnar hverfisskipulagi fyrir allt Breiðholtið og uppbyggingu þar verður hann að setja sig upp á móti áformum um uppbyggingu íbúða á þróunarsvæðum við Suðurhóla og Suðurfell. Fulltrúinn hefur talað við marga íbúa Breiðholts sem eru alfarið á móti uppbyggingu á annarsvegar mikilvægu leiksvæði í miðju hverfis og hins vegar efst í Elliðaárdalnum.
  • Flokkur fólksins
    Fulltrúa Flokks fólksins finnst að víða megi gera breytingar og lagfæringar í Efra Breiðholti en hér er á að auka byggingarmagn gríðarlega og þá sem blokkir.  Ekki verður mikið um blandaða byggð. Fækka á bílastæðum til muna í óþökk margra. Athugasemdir bárust torgið við Gerðuberg verði eflt. Gæta þarf að því að heimildir um aukið byggingarmagn valdi því ekki að afrennslisstuðull lóðar hækki heldur sé unnið á móti auknu byggingamagni með blágrænum ofanvatnslausnum  innan lóðar sem því nemur. Víða í Breiðholti á að byggja hús með flötum þökum. Það á ekki að leyfa flöt þök þar sem ekki eru fyrir í skipulaginu. Með þessu er verið að ná einni viðbótarhæð, en nú einkennist byggðin af húsum með hallandi þaki. Ef horft er til stíga sem samgönguæðar þá eru margir núverandi stígar í Breiðholti að virka sem göngustígar en ekki sem hjólastígar og núverandi kerfi á ekki að festa í sessi. Það verður að fara að miða við að hjól- hlaupahjól verði kostur í samgöngum í Efra Breiðholti. Þær fáu breytingar sem hafa verið gerðar á stígum eru ekki til bóta fyrir hjólreiðar. Kallað hefur eftir viðgerðum á gangstéttum í hverfinu og er það langalgengasta athugasemdin í þessum málaflokki sem skráð var á íbúafundi í hverfinu.