Námsflokkar Hafnarfjarðar
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 ári síðan.
Bæjarstjórn nr. 1896
12. október, 2022
Annað
Fyrirspurn
Námsflokkar Hafnarfjarðar. Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela fræðsluráði að leggja fram tillögur um eflingu sí- og endurmenntunar í bænum og um leið styrkingu á starfi Námsflokka Hafnarfjarðar. Tillögurnar skulu liggja fyrir innan sex vikna, þannig að unnt verði að taka mið af þeim við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2023. Greinargerð: Starfsemi innan Námsflokka Hafnarfjarðar hefur verið lítil sem engin upp á síðkastið og virðist vera að lognast út af. Því er mikilvægt að fræðsluráði verði falið að finna Námsflokkum Hafnarfjarðar, þá sérstaklega íslenskukennslu fyrir nýja íslendinga, nýtt heimili.
Svar

Til máls tekur Sigrún Sverrisdóttir. Einnig Jón Ingi Hákonarson og Sigrún kemur til andsvars. Þá tekur Margrét Vala Marteinsdóttir til máls.

Þá tekur Árni Rúnar Þorvaldsson til máls. Einnig Stefán Már Gunnlaugsson.

Forseti ber upp fyrirliggjandi tillögu og er hún felld með sex atkvæðum meirihluta gegn fimm atkvæðum frá fulltrúum minnihluta.

Fundarhlé kl. 15:19.

Fundi framhaldið kl. 15:29.

Sigrún Sverrisdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar harma áhugaleysi meirihluta Framsóknar - og Sjálfstæðisflokks á sí- og endurmenntun í bænum. Tillaga Samfylkingarinnar snýr einungis að því að þessi málaflokkur yrði tekinn til skoðunar í fræðsluráði og í kjölfarið leggði fræðsluráð fram tillögur til eflingar fullorðinsfræðslu í Hafnarfirði. Stefnuleysi meirihlutans og skortur á framtíðarsýn birtist í þessari afgreiðslu hér í dag.

Margrét Vala Marteinsdóttir kemur einnig að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins geta ekki fallist á tillögu Samfylkingarinnar um að vísa tillögu sinni til fræðsluráðs. Námsflokkar Hafnarfjarðar voru mikilvægir þegar framboð á námskeiðum var af skornum skammti og sveitarfélög sáu almennt um fræðslu fyrir fullorðna.
Í ljósi þessa og þeirrar vitundar að Hafnfirðingar geta sótt í námskeið sem haldin eru víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, án aðkomu bæjarins teljum við ekki ástæðu til að endurvekja Námsflokka Hafnarfjarðar og samþykkir því meirihluti bæjarstjórnar ekki tillögu Samfylkingarinnar. Þá leggur meirihluti bæjarstjórnar áherslu á að unnið sé áfram að því að endurvekja kennslu til þeirra sem eru með annað móðurmál en íslensku í bókasafni Hafnarfjarðar líkt og verið hefur undanfarin ár.

Árni Rúnar Þorvaldsson gerir grein fyrir atkvæði sínu sem og Jón Ingi Hákonarson.