Íbúðir fyrir eldra fólk
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 ári síðan.
Skipulags- og byggingarráð nr. 760
14. júní, 2022
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga 4. Íbúðir fyrir eldra fólk frá bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem vísað var til úrvinnslu skipulags- og byggingarráðs frá bæjarstjórn þann 8.6.sl.
Svar

Lagt fram og vísað til úrvinnslu umhverfis- og skipulagssviðs.

Fulltrúar Samfylkingarinnar fagna því að það eigi að hraða vinnu við uppbyggingu íbúða fyrir eldra fólk og hjúkrunarheimili í ólíkum hverfum bæjarins.

Fulltrúar Samfylkingarinnar harma að það er ekki forgangsmál hjá meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að ráðast í átak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir ungt fólk eða að vinna á löngum biðlistum eftir félagslegu húsnæði. Árið 2021 fækkaði íbúum í Hafnarfirði í fyrsta skiptið í meira en 80 ár og undanfarin ár hefur fólksfjölgun verið langt undir áætlunum, en á sama tíma hefur verið mikil fólksfjölgun í nágrannasveitarfélögunum. Mest fækkunin var meðal ungs fólks í Hafnarfirði, sem er ekki að finna húsnæði við hæfi og flytur úr bænum. Mikilvægt er að ráðast í átak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir ungt fólk m.a. annars í samstarfi við óhagnaðardrifin íbúðafélög.

Samfylkingin hefur barist fyrir byggingu hjúkrunarheimilis og heilsugæslu m.a. á Völlunum um langt árabil og greinilegt að sú barátta er núna að skila árangri. Það sama á ekki við um Sjálfstæðisflokkinn en árið 2013 var samþykkt af öllum flokkum sem þá voru í bæjarstjórn að hefja undirbúning á byggingu hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð. Að baki þeirri ákvörðun lá mikil vinna sem náði aftur til ársins 2006, en svo komst Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta árið 2014 og tók u-beygju og hætti við uppbyggingaráformin. Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki hjúkrunarheimili í þessum hverfum, en nú hefur hann tekið sinnaskiptum og því ber að þakka.

Einnig er vert að minna á tillögur Samfylkingarinnar að hefjast handa um þjónustuíbúðir fyrir aldraðra á Sólvangssvæðinu í framhaldi af Hafnarhúsunum, sem er í samræmi við áherslur Öldrunarráðs. Það er eitt forgangsmála í þessum efnum.