Útsvarsprósenta við álagningu 2022
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1880
24. nóvember, 2021
Annað
Fyrirspurn
5.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 18.nóvember sl. Lögð fram eftirfarandi tillaga: Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að útsvarsprósenta við álagningu 2022 verði 14,48%.
Fulltrúar Samfylkingar og Bæjarlista leggja fram breytingartillögu í samræmi við tillögu sem lögð var fram við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun og er einnig undir þeim lið í dagskrá þessa fundar. Tillaga Samfylkingar og Bæjarlista er að útsvarsprósenta við álagningu 2022 verði 14,52%
Greinargerð: Vinna við gerð fjárhagsáætlunar sýnir að grunnrekstur sveitarfélagsins á árinu 2022 verður þungur. Lögbundin verkefni sveitarfélaga eru fjölmörg og sífellt bætist við þau verkefni sem þeim ber að sinna. Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga og mikilvægt að það sé nýtt til að styrkja stöðu bæjarsjóðs. Hámarksnýting hefur ekki mikil áhrif á hvern bæjarbúa á mánaðargrundvelli (um 200-400 kr. á meðallaun) en bæjarsjóð munar sannarlega um þá fjármuni sem um ræðir (áætlað um 55-60 m.kr.).
Fulltrúi Samfylkingar greiðir atkvæði með tillögunni. Fulltrúar meirihluta ásamt fulltrúa Viðreisnar greiða atkvæði gegn tilögunni. Tillögunni er hafnað.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að útsvarsprósenta við álagningu 2022 verði áfram 14,48%.
Fulltrúar meirihluta og Viðreisnar greiða atkvæði með tillögunni. Fulltrúi Samfylkingar greiðir atkvæði gegn tillögunni með vísan í framlagaða greinargerð með breytingartillögu. Tillagan er samþykkt.
Fulltrúar meirihluta bóka eftirfarandi: Það hefur verið ein af áherslum núverandi meirihluta að halda álögum og gjöldum á íbúa bæjarfélagsins í lágmarki. Síðustu mánuðir í alheimsfaraldri hafa reynt á allar stoðir samfélagsins, rekstur ríkis, sveitarfélaga og heimila. Heimilin munu njóta góðs af óbreyttri útsvarsprósentu líkt og hér er lagt til.
Svar

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.

Einnig tekur Adda María Jóhannsdóttir til máls og leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Bæjarlista endurflytja breytingartillögu sem lögð var fram í bæjarráði þann 18. nóvember sl. í framhaldi af tillögu sem lögð var fram við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun þann 10. nóvember sl.

Rétt er að endurflytja tillöguna í bæjarstjórn þar sem allir flokkar sem sæti eiga í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafa atkvæðisrétt.

Tillaga Samfylkingar og Bæjarlista er að útsvarsprósenta við álagningu 2022 verði 14,52%.

Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson
Guðlaug Svala Kristjánsdóttir

Þá ber forseti næst upp framkomna breytingartillögu og er hún felld með þremur atkvæðum Samfylkingar og Bæjarlistans gegn sjö atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Viðreisnar. Fulltrúi Miðflokksins situr hjá.

Sigurður Þ. Ragnarsson gerir grein fyrir atkvæði sínu.

Þá ber forseti upp þá tillögu bæjarráðs sem lá fyrir fundinum um að útsvarsprósentan verði 14,48. Er tillagan samþykkt með sjö atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum Samfylkingar og Bæjarlistans Fulltrúi Miðflokksins situr hjá.

Þá kemur Adda María Jóhannsdóttir að svohljóðandi bókun:

"Vinna við gerð fjárhagsáætlunar sýnir að grunnrekstur sveitarfélagsins á árinu 2022 verður þungur. Lögbundin verkefni sveitarfélaga eru fjölmörg og sífellt bætist við þau verkefni sem þeim ber að sinna. Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga og mikilvægt að það sé nýtt til að styrkja stöðu bæjarsjóðs. Hámarksnýting hefur ekki mikil áhrif á hvern bæjarbúa á mánaðargrundvelli (um 200-400 kr. á meðallaun) en bæjarsjóð munar sannarlega um þá fjármuni sem um ræðir (áætlað um 55-60 m.kr.)."

Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson
Guðlaug Svala Kristjánsdóttir

Rósa Guðbjartsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

"Það hefur verið ein af áherslum núverandi meirihluta að halda álögum og gjöldum á íbúa bæjarfélagsins í lágmarki. Síðustu mánuðir í alheimsfaraldri hafa reynt á allar stoðir samfélagsins, rekstur ríkis, sveitarfélaga og heimila. Heimilin munu njóta góðs af óbreyttri útsvarsprósentu líkt og hér hefur verið samþykkt."