Miðbær, deiliskipulag, starfshópur
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og byggingarráð nr. 727
9. febrúar, 2021
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram skýrsla starfshóps.
Svar

Skipulags- og byggingarráð tekur undir afgreiðslu bæjarráðs um áframhaldandi vinnu við deiliskipulag miðbæjarins. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að vinna áfram að gerð forsagnar deiliskipulags. Skipulags- og byggingarráð leggur áherslu á mikilvægi þess að sú hugmyndarfræði og sú sýn sem fram kemur í skýrslu starfshópsins verði rauði þráðurinn í áframhaldandi vinnu.
Skipulags- og byggingarráð leggur auk þess til, í samræmi við það sem fram kemur í skýrslu starfshópsins og í ljósi hugmynda, fyrirspurna og tillagna er varða reit 1 í gildandi deiliskipulagi miðbæjarins, að reitur 1 verði skoðaður og unninn heildstætt og með tilliti til þess sem komið hefur fram varðandi reitinn. Umhverfis- og skipulagssviði falið að koma með tillögu þar að lútandi inn á næsta fund ráðsins 23. febrúar.

Fulltrúi Samfylkingarinnar tekur undir með skýrsluhöfundum að miðbær Hafnarfjarðar er annar af sögulegum miðbæjarkjörnum á stór-höfuðborgarsvæðinu og að hann þurfi að styrkja og efla enn frekar.
Þetta er önnur skýrslan sem starfshópur skilar inn, en við fyrri skýrslu starfshópsins bárust fjölmargar athugasemdir frá íbúum og hörð mótmæli. Fulltrúi Samfylkingarinnar fagnar því að í skýrslunni kemur fram að hlustað hafi verið á raddir íbúa og þeim boðið taka þátt í þessari vinnu með opnum íbúafundum. Það var gert eftir ábendingar þess efnis frá fulltrúa Samfylkingarinnar.
Í erindisbréfi starfshópsins segir að hlutverk hans sé að koma með tillögur að aðferðarfræði við áframhaldandi vinnu við skipulag miðbæjarins, þ.e. um hvort unnið verði að opinni samkeppni um deiliskipulag miðbæjarins eða hvort unnið verði áfram að deiliskipulagi miðbæjarins á grundvelli þeirrar vinnu sem fyrir liggur. Eftir 21 fund og tvö ár er óljóst hver næstu skref eru í þessari vinnu eða hvernig má efla miðbæinn til framtíðar. Hér þarf að móta stefnu. Þar má engan tíma missa og mikilvægt að hraða vinnu við deiliskipulag miðbæjarins í samvinnu við íbúa bæjarins. Miðbærinn er hjarta Hafnarfjarðar og nauðsynlegt að þar megi byggja upp öflugan miðbæ iðandi af mannlíf með fjölbreyttri þjónustu, atvinnu- og menningarlífi.

Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks bóka eftirfarandi:

Tillaga starfshópsins um áframhaldandi vinnu kemur til eftir samtöl við íbúa. Ljóst er að ekki var vilji til að vinna áfram með neina þeirra þriggja hugmynda sem óskað var eftir á síðasta kjörtímabili. Tillögur starfshópsins eru skýrar og um þær er sátt og samstaða innan hópsins. Innihald skýrslunnar verður rauði þráðurinn í áframhaldandi vinnu við gerð deiliskipulags fyrir miðbæinn og verður nú strax hafist handa við reit 1 ? líkt og kemur fram í bókun ráðsins, svokallað ráðhústorg og nágrenni. Það var ákvörðun starfshópsins að setja skýrsluna í opið kynningarferli árið 2019 - og nýta til þess Betri Hafnarfjörð, samráðsvef bæjarfélagsins - og gefa íbúum þannig kost á því að senda inn athugasemdir og hafa áhrif á vinnuna. Í ljósi þeirra góðu viðbragða sem komu frá íbúum bæjarfélagins við þeim drögum var ákveðið að halda íbúafundi og fylgja vinnunni eftir með íbúafundi (1) þar drögin voru kynnt og svo sérstökum vinnufundi (2) þar sem íbúum gafst kostur á að taka beinan þátt í vinnunni, líkt og til stóð. Um þetta fyrirkomulag var samstaða í starfshópnum frá upphafi. Miðbærinn er hjarta Hafnarfjarðar og áfram þarf að vanda til verka líkt og gert hefur verið í ferlinu hingað til.