Leikskólamál í Suðurbæ
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1814
31. október, 2018
Annað
Fyrirspurn
Tillaga áður flutt á fundi bæjarstjórnar 20. júní sl. og endurflutt þann 17. október sl. Óskað er eftir afgreiðslu bæjarstjórnar:
"Eftir lokun á starfsstöð Brekkuhvamms við Hlíðarbraut (Kató) hefur verið skortur á leikskólaplássum í Suðurbæ. Fulltrúar Samfylkingar leggja til að nú þegar verði hafist handa við undirbúning á byggingu leikskóla við Öldugötu eins og gert er ráð fyrir í deiliskipulagi. Þá leggjum við einnig til að tekið verði til skoðunar að opna ungbarnaleikskóla í Kató. Byggingin hefur staðið auð frá því að leikskólanum var lokað og lítið ætti að vera því til fyrirstöðu að hefja starfsemi þar á ný."
Á fundi bæjarstjórnar þann 17. október sl. var samþykkt að vísa tillögunni til afgreiðslu og umfjöllunar í fjárhagsáætlunnarvinnu fræðsluráðs. Þar sem ljóst virðist af fundi ráðsins þann 29. október að enginn vilji sé til þess af hálfu fulltrúa meirihlutans í fræðsluráði að ráðast í uppbyggingu á leikskóla í skólahverfi Öldutúnsskóla, leggjum við tillögu okkar fram í þriðja sinn til afgreiðslu og óskum eftir því að bæjarstjórn taki afstöðu til hennar.
Svar

Til máls tekur Kristín María Thoroddsen. Einnig tekur til máls Friðþjófur Helgi Karlsson og því næst Adda María Jóhannsdóttir.

Einnig tekur til máls Helga Ingólfsdóttir. Til andsvars kemur Adda María Jóhannsdóttir.

Til máls öðru sinni tekur Adda María Jóhannsdóttir.

Forseti ber upp þá tillögu sem liggur fyrir fundinum. Er óskað eftir nafnakalli við atkvæðagreiðsluna:

Adda María Jóhannsdóttir Já
Ágúst Bjarni Garðarsson Nei
Friðþjófur Helgi Karlsson Já
Guðlaug Kristjánsdóttir Situr hjá
Helga Ingólfsdóttir Nei
Jón Ingi Hákonarson Situr hjá
Kristín María Thoroddsen Nei
Ólafur Ingi Tómsson Nei
Rósa Guðbjartsdóttir Nei
Sigurður Þ. Ragnarsson Situr hjá
Kristinn Andersen Nei

Er tillagan felld með 6 atkvæðum sem segja nei gegn tveimur sem segja já, þrír bæjarfulltrúar sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fundarhlé kl. 19:28.

Fundi framhaldið kl. 19:36.

Rósa Guðbjartsdóttir víkur af fundi og í hennar stað mætir til fundarins Guðbjörg Oddný Jónsdóttir.

Adda María Jóhannsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt tölum um íbúaþróun og skólahverfi sem fram koma í minnisblaði rekstrarstjóra fræðsluþjónustu dags. 11. september 2018 fæst enn og aftur staðfest að viðvarandi skortur er á leikskólaplássum í Öldutúnsskólahverfinu. Fyrirsjáanlegt er að sá skortur muni haldast til framtíðar ef ekkert verður að gert.
Með bókun fræðsluráðs frá 29. október sl. fæst staðfest að ekki er vilji til þess af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra að bregðast við þeim skorti með því að hefja uppbyggingu á leikskóla í umræddu hverfi, þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir honum á deiliskipulagi við Öldugötu. Fulltrúar Samfylkingarinnar mótmæla þessari ákvörðun harðlega og telja mikilvægt að skorti á plássum í hverfinu sé svarað með uppbyggingu leikskóla innan þessa skólahverfis. Það er að okkar mati óásættanlegt að foreldrar yfir 100 barna á leikskólaaldri í Öldutúnsskólahverfinu þurfi á hverju ári að sækja slíka þjónustu í önnur hverfi bæjarins. Með því að bæta tveimur deildum við Smáralund, sem tilheyrir öðru skólahverfi, eins og nú er fyrirhugað, næst ekki að leysa þann skort sem er viðvarandi í hverfinu. Það eru kaldar kveðjur sem foreldrum barna á leikskólaaldri í þessu hverfi bæjarins eru sendar með þessari ákvörðun.
Varðandi viðbótarpláss í öðrum hverfum ítrekum við fyrri bókanir okkar um að það sé vandamál sem rétt sé að leysa úr með öðrum hætti. Það á ekki að bitna á íbúum þessa hverfis.
Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson

Kristín Thoroddsen kemur jafnframt að svohljóðandi bókun:

Á næsta ári, 2019 mun opna leikskóli við Skarðshlíðarskóla með 90 rýmum . Ásamt þeim rýmum sem þar verða og miðað við fyrirliggjandi tölur um íbúaþróun í Hafnarfirði hefur meirihluti fræðsluráðs samþkkt að byggðar verði við Smáralund tvær leikskóladeildir, leikskóla sem staðsettur er í suðurbæ.
Lögð verður höfuðáhersla á að bæta þjónustu með nýrri rýmisáætlun, bættri starfsaðstöðu fyrir starfsfólk og lægri innritunaraldur.
undir þetta rita bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og óháðra.



Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylking
    Samkvæmt tölum um íbúaþróun og skólahverfi sem fram koma í minnisblaði rekstrarstjóra fræðsluþjónustu dags. 11. september 2018 fæst enn og aftur staðfest að viðvarandi skortur er á leikskólaplássum í Öldutúnsskólahverfinu. Fyrirsjáanlegt er að sá skortur muni haldast til framtíðar ef ekkert verður að gert.