Skíðasvæðin, framtíðarsýn, samstarfssamningur
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1814
31. október, 2018
Annað
Fyrirspurn
11.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 25.okt.sl. Lagt fram undirritað samkomulag um endurnýjun og uppbyggingu á mannvirkjum skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
Bæjarráð vísar framlögðum samningi til bæjarstjórnar til afgreiðslu.
Svar

Til máls tekur Jón Ingi Hákonarson. Til andsvars kemur Helga Ingólfsdóttir.

Einnig tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir og leggur fram svohljóðandi bókun:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar er í fyrsta skipti að ræða þessa stefnumótun skíðasvæðanna með formlegum hætti í dag, en hún kom fyrst til kynningar sl. vor og var undirrituð af þáverandi bæjarstjóra með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar, örstuttu fyrir kosningar.
Stuttu fyrir samþykkt stefnunnar var athygli mín vakin á hlut gönguskíðaíþróttarinnar, ef hlut skyldi kalla, í þessum áætlunum. Af rúmlega 6 milljarða króna áætlun eru um 20-30 milljónir ætlaðar til skíðagöngusvæða, eða innan við hálft prósent.
Jafnframt var mér bent á að samráð við hagsmunaaðila hefði verið afar lítið, eða einn fundur þar sem verkefnið var kynnt og svo annar til að kynna lokaafurðina.
Efnislega hefur verið bent á að fyrirhugaðar framkvæmdir í Kerlingadal gefi tilefni til endurskoðunar, en sá þáttur losar 200 milljónir.
Vissulega er rík þörf fyrir endurbætur á skíðasvæðinu almennt, en aðstaða til skíðagöngu hlýtur samt að teljast bjóða upp á mjög mikil tækifæri til úrbóta. Þar er ekki rennandi vatn í skála, ekki salerni og ekki eiginlegur þjónustuskáli, svo eitthvað sé nefnt.
Undirrituð reyndi að koma þessum ábendingum áfram á sínum tíma, en ekki verður séð að þær hafi verið teknar til mikillar skoðunar.
Stefnumótun og áform um stór fjárútlát rétt fyrir kosningar ætti alltaf að rýna vel, enda oft um talsverðar mannabreytingar að ræða við slík tímamót og ekki víst að allir þekki vel til mála þegar til kastanna kemur.
Því kem ég þessu hér með á framfæri í umræðum Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um þetta mál.

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.

Einnig tekur til máls Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir. Adda María svarar andsvari. Einnig til andsvars kemur Jón Ingi Hákonarson og leggur til að málinu verði vísað aftur til bæjarráðs til að fá faglega umfjöllun vegna umhverfisþátta verksins.

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir. Einnig tekur til máls Sigurður Þ. Ragnarsson og því næst Helga Ingólfsdóttir.

Forseti ber upp til atkvæða framkomna tillögu um að vísa málinu til bæjarráðs og er tillagan felld með fjórum atkvæðum gegn sex atkvæðum og einn situr hjá.

Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi samkomulag um endurnýjun og uppbyggingu á mannvirkjum skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins með 6 greidduma atkvæðum gegn þremur og tveir fulltrúar sitja hjá.

Friðþjófur Helgi Karlsson og Adda María Jóhannsdóttir gera grein fyrir atkvæðum sínu.