Íbúafundur um samgöngumál, Reykjanesbraut og fleira
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 6 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1790
13. september, 2017
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga að íbúafundi um samgöngumál.
Svar

Til máls tekur Ólafur Ingi Tómasson og leggur til að bæjarstjórn samþykki eftirfarandi tillögu að bókun:

"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að haldinn verði íbúafundur þar sem samgöngumál með áherslu á Reykjanesbraut verða rædd. Fundurinn verði haldinn í október og er bæjarstjóra falinn undirbúningur.

Til fundarins verða boðaðir m.a. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vegamálastjóri eða fulltrúar hans, þingmenn kjördæmisins, skipulagsfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar og aðrir sem málið varðar."

Til máls tekur Gunnar Axel Axelsson. Til andsvars kemur Ólafur Ingi Tómasson.

Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir.

Ofangreind tillaga er borin upp til atkvæða og samþykkt samhljóða með 11 greiddum atkvæðum.

Bæjarstjórn samþykkir einnig samhljóða eftirfarandi ályktun:

"Mjög brýnt er að auka umferðaröryggi vegfarenda og finna leiðir til lausnar á þeim umferðarvanda sem er á Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsir vonbrigðum með að ekki sé gert ráð fyrir fjármögnun brýnna framkvæmda eins og við gatnamót Reykjanesbrautar og Lækjargötu í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram á Alþingi í gær, né annarra stærri verkefna sem tengjast legu Reykjanesbrautar í gegnum sveitarfélagið, s.s. vegna gatnamóta brautarinnar og Fjarðarhrauns.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar kallar eftir breyttum áherslum hjá núverandi ríkisstjórn og hvetur ráðherra samgöngumála og Alþingi til að taka fyrirliggjandi forgangsröðun til endurskoðunar og tryggja nauðsynlegt fjármagn til þessara verkefna í fjárlögum 2018 og næstu ára".

Er ályktunin samþykkt samhljóða með 11 greiddum atkvæðum.