Eftirlitsnefnd með fjármálum íþrótta- og æskulýðsfélaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1812
3. október, 2018
Annað
Fyrirspurn
16.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 19.sept.sl. 7.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 5.sept.sl. Lagt fram svar við fyrirspurnum. 4.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 15.ágúst sl. Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur bæjarstjóri Rósa Guðbjartsdóttir. Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari.
Jón Ingi Hákonarson tekur til máls og leggur fram eftirfarandi fyrirspurnir:
Eftir því sem næst verður komist var í þeim forsendum sem lágu til grundvallar útreikningi á leiguverði sem bærinn hefur greitt til FH vegna leigu á tímum í Risanum, knatthúsi, á sínum tíma gert ráð fyrir að leigan myndi duga til að greiða rekstrarkostnað vegna knatthússins og afborganir og vexti af lánum sem tekin voru vegna byggingar húsnæðisins, á umsömdum leigutíma.
Með vísan til þessa er óskað eftir því að endurskoðandi bæjarins verði fenginn til að sannreyna þessar upplýsingar. Reynist þær réttar óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar svara meirihlutans á því hvort hann telji réttlætanlegt og hvort það sé í samræmi við gr. 65 í sveitarstjórnarlögum um ábyrga meðferð fjármuna að greiða nú FH fullt verð fyrir Risann og þá í reynd fjármagna húsið í annað skipti. Óskað er eftir að svar við fyrirspurninni verði lagt fram eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.
Með vísan til 65. gr. sveitarstjórnarlaga óska undirritaðir bæjarfulltrúa minnihluta bæjarstjórnar eftir því að endurskoðandi bæjarins verði fenginn til að greina hvernig leigugreiðslum frá bænum vegna Risans hefur verið ráðstafað frá upphafi leigutímans. Í því sambandi verði gerð ítarleg greining á rekstrarreikningum FH-knatthúsa ehf. frá upphafi.
Óskað er eftir að greiningin liggi fyrir eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.
Adda María Jóhannsdóttir Bjarney Grendal Jóhannesdóttir Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir Jón Ingi Hákonarson Sigrún Sverrisdóttir
Til máls öðru sinni tekur Guðlaug Kristjánsdóttir og leggur fram eftirfarandi fyrirspurnir:
Í þeim viðræðum sem fram fóru við forsvarsmenn FH á síðasta kjörtímabili varðandi knatthús kom fram að umtalsverðar skuldir hvíla á knatthúsunum sem nú er gert ráð fyrir að kaupa og greiða fyrir að fullu. Með vísan til þess óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar eftir nákvæmum upplýsingum um hversu háar þessar skuldir eru samtals og hvernig FH hyggst standa undir greiðslu afborgana og vaxta vegna þeirra. Jafnframt er óskað svara við því hvort gert sé ráð fyrir að bærinn leigi tíma af FH í nýja húsinu. Ef svo er, hvað er gert ráð fyrir að greitt verði mikið fyrir þá tíma?
Óskað er eftir að upplýsingarnar verði lagðar fram eigi síðar en fyrir næsta fund bæjarstjórnar.
Á undanförnum árum hefur FH tekið að sér ýmsar framkvæmdir á athafnarsvæði FH fyrir hönd bæjarins. Um er að ræða m.a. flýtiframkvæmdasamning, greiðslu á sl. ári vegna efnistöku af stæði væntanlegs knatthúss ofl. Fyrir þetta hefur bærinn greitt að fullu til FH. Mikilvægt er að áður en gengið verður til frekari samninga við FH liggi fyrir hvort félagið hafi gert upp að fullu við þá verktaka sem unnið hafa vegna framangreinda verka.
Með vísan til þessa óska undirritaðir bæjarfulltrúar minnihluta bæjarstjórnar eftir því að endurskoðandi bæjarins verði fenginn til að sannreyna að engar skuldir séu vegna þessara framkvæmda.
Adda María Jóhannsdóttir Bjarney Grendal Jóhannesdóttir Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir Jón Ingi Hákonarson Sigrún Sverrisdóttir
Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson. Guðlaug svarar andsvari. Ingi Tómason kemur næst í andsvar við ræðu Guðlaugar sem svarar svo andsvari.
Adda María tekur næst til máls. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson. Adda María svarar andsvari. Ágúst Bjarni kemur til andsvars öðru sinni. Adda María svarar andsvari öðru sinni. Ingi Tómason kemur einnig til andsvars við ræðu Öddu Maríu og Adda María svarar andsvari. Ingi Tómason kemur til andsvars öðru sinni. Adda María svarar andsvari öðru sinni. Ingi kemur að stuttri athugasemd einnig stutt athugasemd frá Öddu Maríu.
Til máls öðru sinni tekur Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson. Guðlaug svarar andsvari. Ágúst Bjarni kemur til andsvars öðru sinni.
Adda María kemur að svohljóðandi bókun fyrir hönd Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlistans:
Í svar við fyrsta lið fyrirspurnarinnar, um rekstrartölur FH knatthúsa, vantar síðustu tvö ár, 2016 og 2017. Hér með er fyrirspurnin ítrekuð, hvað varðar þessi tvö ár og farið fram á að sambærileg úttekt verði gerð af endurskoðanda fyrir þessi tvö ár eins og árin 2008-15. Varðandi annan lið fyrirspurnarinnar er því ekki svarað hvernig FH hyggist standa skil á fyrirliggjandi skuldum, sem nema alls um 330 milljónum. Ýjað er að því að greiðslur muni byggja á leigugreiðslum frá bænum vegna nýs húss. Óskað er eftir staðfestingu á því, hvort svo sé og hver verði þá nauðsynleg leiguupphæð árlega, þ.e. hver kostnaður bæjarins verði til framtíðar litið vegna þessara skulda. Í þriðja lið var óskað eftir að endurskoðandi bæjarins yrði fenginn til að sannreyna að engar skuldir séu vegna þessara framkvæmda. Átt er við dagsetningu framlagningar fyrirspurnarinnar hvað varðar þessa greiðslustöðu, þ.e. hver staðan var þann 15. ágúst 2018. Ítrekað að þeirri beiðni verði svarað.
Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdottir og kemur að svohljóðandi bókun:
Bæjarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlista lýsa furðu á því að vinnsla svara við fyrirspurnum sem legið hafa fyrir vikum saman í málakerfi bæjarins sé ekki lengra komin en raun ber vitni. Að hluta til er um ítrekun þegar framlagðra spurninga að ræða, að hluta til eftirfylgni við fyrri svör. Hér með er þessi fyrirspurn ítrekuð í þriðja sinn og svara vænst án tafa á næsta fundi bæjarstjórnar.
Svar

Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdóttir. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri kemur til andsvars.

Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. Adda María svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur Rósa Guðbjartsdóttir. Adda María svarar andsvari öðru sinni. Rósa Guðbjartsdóttir kemur næst að stuttri athugasemd.

Til máls öðru sinni kemur Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari.

Adda María Jóhannsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Bæjarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlista gagnrýna harðlega þá vanvirðingu sem störfum þeirra er sýnd með því að opinberum fyrirspurnum sé ekki svarað formlega. Hér með ítrekum við fyrirspurnir okkar undir þessum lið í fjórða sinn.

Við teljum brýnt að fá upplýsingar um áætlaðar þjónustugreiðslur sem bærinn mun þurfa að inna af hendi vegna aðstöðu í umræddu knatthúsi til næstu ára. Allar líkur eru á að þegar upp er staðið muni bæjarfélagið greiða mun meira en umræddar 790 milljónir vegna viðskipta við FH vegna fjármögnunar á byggingu knatthúss, og jafnvel meira en upphafleg tilboð í framkvæmd bæjarins vegna hússins hljóðuðu upp á. Sú fullyrðing fulltrúa meirihlutans að hagkvæmnissjónarmið hafi ráðið för við þessa stefnubreytingu stendur því mjög veikum fótum.

Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
Jón Ingi Hákonarson