Ályktun, fjármál sveitarfélaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 8 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1753
14. október, 2015
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram áskorun um fjármál sveitarfélaga: Áskorun Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögunum eru falin. Greinargerð: Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa átt fundi að undanförnu þar sem þau hafa farið yfir alvarlega stöðu í fjármálum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og um land allt. Bæjarstjórn Garðabæjar og borgarráð Reykjavíkur samþykktu samsvarandi ályktun og hér er borin fram í síðustu viku og búast má við því að fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fylgi í kjölfarið. Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014-2018 segir: "Sveitarfélögum skulu tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin í stjórnarskrá og lögum. Þeir skulu vera nægjanlega fjölþættir og sveigjanlegir í eðli sínu svo þeir geti staðið undir þeirri fjölbreyttu þjónustu sem íbúar þeirra kalla eftir." Við núverandi aðstæður er ekki hægt að halda því fram að tekjustofnar sveitarfélaga standi undir þessum markmiðum. Enn fremur er ljóst að verði ekkert að gert mun rekstrarkostnaður sveitarfélaga hækka langt umfram tekjur þeirra á næstu mánuðum. Verði ekkert að gert munu sveitarfélög illa geta staðið undir hlutverki sínu og skyldum á næstu misserum. Hafnarfjarðarbær lét nýverið greina allan rekstur bæjarins ítarlega með það að markmiði að tryggja hagkvæmni. Jafnvel þótt allar tillögur til hagræðingar sem greiningunni fylgja gengju eftir að fullu myndu slíkar aðgerðir duga skammt ef ekki koma til breytingar varðandi tekjustofna sveitarfélaga. Bent er á að bæjarráð Hafnarfjarðar skoraði nýlega á Alþingi að lækka tryggingargjald mun meira en nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og ítrekar bæjarstjórn þá áskorun. Einnig hefur bæjarráð beint því til Sambands íslenskra sveitarfélaga að taka upp viðræður við ríkið um lækkun á innheimtuprósentu ríkisins vegna innheimtu útsvars.
Svar

Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls.Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri tók til máls.Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir 1.varaforseti tók við stjórn fundarins. Guðlaug Kristjánsdóttir tók til máls.
Guðlaug Kristjánsdóttir tók við stjórn fundarins á ný. Gunnar Axel Axelsson tók til máls.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir áskorunina með 11 samhljóða atkvæðum.