Slökkvilið höfuðborgarsvæðis, aðkoma viðbragðsaðila í Vallahverfi, úrbætur
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 8 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1747
10. júní, 2015
Annað
Fyrirspurn
Forseti kynnti eftirfarandi áskorun vegna mislægra gatnamóta Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar:
"Með vísan til erindis bæjarstjóra til innanríkisráðherra, dags. 3. júní 2015, og erindis slökkviliðsstjóra SHS, dags. 18. maí 2015, skorar bæjarstjórn Hafnarfjarðar á innanríkisráðherra, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og vegamálastjóra að sjá til þess að ekki verði frekari töf á framkvæmdum við mislæg gatnamót Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar og framkvæmdir hefjist nú þegar. Samkvæmt samgönguáætlun 2007-2010 voru framkvæmdir við mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg áætlaðar á árunum 2008-2009. Þrátt fyrir mikla uppbyggingu á svæðinu og fjölgun íbúa síðustu ár gerir núverandi vegaáætlun hins vegar ekki ráð fyrir að ráðist verði í framkvæmdirnar fyrr en á árunum 2018-2020. Í Vallahverfinu í Hafnarfirði eru um 4.800 íbúar og mun fjölga á næstu misserum. Í hverfinu er stærsti grunnskóli landsins, auk leikskóla, íþróttamannvirkja og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi. Núverandi vegtenging þjónar ekki lengur hverfinu og leið inn og úr innsta hluta hverfisins er bæði löng og þröng. Dæmi eru um að hverfið hafi lokast tímabundið vegna fannfergis og bílar festst í þröngum götum á milli hringtorga og í hringtorgum. Núverandi T laga gatnamót Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar eru helsta samgönguæð inn í iðnaðarhverfið sunnan Reykjanesbrautar. Mikil uppbygging er á iðnaðarsvæðinu, umferð til og frá iðnaðarhverfinu fer í gegnum þessi T laga gatnamót þar sem umferð á Reykjanesbraut er mjög hröð og því mikil slysahætta til staðar. Óbreytt ástand getur því við ákveðnar aðstæður leitt til þess að hættuástand skapast. Því er mikilvægt að ekki verði frekari tafir á framkvæmdum við mislæg gatnamót Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar, enda munu þau bæta mjög samgöngur á svæðinu og auka öryggi í hverfinu."
Svar

Bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson tók til máls, síðan Ólafur Ingi Tómasson og Ófeigur Friðriksson.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti fyrirliggjandi áskorun með 11 samhljóða atkvæðum.