Húsaleigubætur, breyting á reglum
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 9 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3401
26. febrúar, 2015
Annað
Fyrirspurn
Tekin fyrir að nýju ofangreind fyrirspurn og lögð fram svör.
Svar

Lagt fram.

Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og áheyrnarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Það er alrangt sem kemur fram í minnisblaði sviðsstjóra fjölskylduþjónustunnar að fjölskylduráð hafi á fundi sínum þann 22. október 2014 samþykkt ríflega 10 þúsund króna mánaðarlega skerðingu á sérstökum húsaleigubótum þess hóps sem viðmið í 16. grein reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur nær til. Enginn tillaga um slíka breytingu á fyrrnefndum reglum var lögð fram á fundinum og því aldrei samþykkt af fjölskylduráði. Á umræddum fundi fjölskylduráðs bóka fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna sérstaklega við dagksrárliðinn Fjárhagsáætlun Fjölskylduþjónustu 2015 eftirfarandi:

"Þau drög að fjárhagsáætlun sem hér eru lögð fram hafa verið unnin að öllu leyti án aðkomu minnihluta fjölskylduráðs. Hér erum við að sjá fjárhagstölur fyrir næsta ár í fyrsta sinn og því með engu móti hægt að leggja mat á gæði fjárhagsáætlunar. Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna sjá sér því ekki fært að taka efnislega afstöðu til þeirra draga að fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 og sitja hjá við afgreiðslu málsins og lýsa yfir vonbrigðum með þau vinnubörgð sem eru viðhöfð við undirbúning og vinnu við gerð fjárhagsáætlunar."

Það er því rangt að tillaga þess efnis að breyta viðmiðum vegna sérstakra húsaleigubóta hafi verið samþykkt í fjölskylduráði og því ekki heldur rétt að slík samþykkt hafi verið staðfest við samþykkt fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015. Engin tillaga þessa efnis var heldur lögð fram um hækkun viðmiða vegna sérstakra húsaleigubóta við samþykkt fjárhagsáætlunar í bæjarstjórn.

Það vekur furðu bæjarráðsfulltrúa að þrátt fyrir skýra samþykkt bæjarráðs þann 12. Febrúar sl. um að leita álits innanríkisráðuneytis á því hvort framkvæmd breytinganna hafi verið í samræmi við lög, samþykktir eða reglur sem kunna að eiga við um slíkar ákvarðanir, hefur ekkert slíkt erindi verið undirbúið eða sent ráðuneytinu."

Gert var stutt fundarhlé.

Bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar lögðu fram eftirfarandi bókun:
"Bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sjá ekki ástæðu til að svara þessari bókun efnislega, en vísa til ítarlegrar umræðu um málið á sl. bæjarstjórnarfundi þar sem málið var útkljáð af okkar hálfu. Okkur þykir í hæsta máta óviðeigandi að bæjarráðsfulltrúar séu á fundi bæjarráðs að bóka um vinnubrögð einstakra starfsmanna og stjórnenda á ólíkum sviðum bæjarins, jafnvel að þeim fjarstöddum."

Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:
"Vegna mikilla anna hjá stjórnsýslunni hefur ekki unnist tími til að senda umrætt erindi. Sem dæmi um annir hjá stjórnsýslunni þá lagði minnihlutinn fram fyrirspurnir í átta liðum á síðasta bæjarráðsfundi. Svör við þessum fyrirspurnum hafa verið lögð fram á þessum fundi. Hafa umræður um svörin nú staðið á yfir á þriðju klukkustund og umræðunni enn ekki lokið á yfirstandandi fundi bæjarráðs."