Ráðning bæjarstjóra
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 9 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3384
24. júlí, 2014
Annað
Fyrirspurn
Kynnt niðurstaða meirihluta valnefndar og lögð fram tillaga að ráðningu í starf bæjarstjóra, svohljóðandi:
"Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir að Haraldur L. Haraldsson verði ráðinn í starf bæjarstjóra Hafnarfjarðar".
Svar

Tillagan var samþykkt með þremur atkvæðum, fulltrúar Samfylkingar sátu hjá.

Formanni bæjarráðs og sviðsstjóra stjórnsýslusviðs er falið að ganga frá ráðningarsamningi í samræmi við minnisblað um ráðningarkjör bæjarstjóra sem lagt er fram á fundinum. Ráðningarsamningur verður lagður fyrir næsta fund bæjarráðs.

Gunnar Axel Axelsson óskar bókað:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti samhljóða á fundi sínum þann 18. júní sl. að auglýsa stöðu bæjarstjóra og fela bæjarráði ábyrgð á faglegu ráðningarferli. Gerði ég ráð fyrir því að með þeirri samþykkt hefði verið ákveðið að vinna að ráðningu í embættið á faglegum forsendum, notast við viðurkenndar hlutlægar aðferðir til að ráða þann hæfasta í starfið og tryggja jafnræði milli umsækjenda. Staða bæjarstjóra var auglýst laus til umsóknar þann 27. júní sl. og sóttu 30 einstaklingar um starfið. Skipaði bæjarráð þriggja manna valnefnd til að greina starfið, skilreina hæfniskröfur, stýra matsferlinu og meta hæfi umsækjenda. Samþykkti bæjarráð sömuleiðis að semja við ráðningarstofuna Hagvang um ráðningarferlið.

Ég tel að þrátt fyrir skýr fyrirheit hafi ekki verið staðið í að framkvæmdinni í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar um að viðhaft yrði faglegt ráðningarferli. Þegar mér var tilkynnt um sameiginlega niðurstöðu fulltrúa meirihlutans í valnefndinni áður en formlegt mat á umsækjendum hafði farið fram eða tilraun hafði verið gerð til að leiða rök að þeirri niðurstöðu, sagði ég mig frá störfum nefndarinnar.

Í þeirri ákvörðun minni felst engin efnisleg afstaða til einstakra umsækjenda, hvorki þess aðila sem meirihlutaflokkarnir komu sér saman um að yrði ráðinn, né heldur annarra sem sóttu um starfið.

Gunnar Axel Axelsson
bæjarfulltrúi


Bókun Samfylkingar og Vinstri grænna:
Vegna vinnubragða fulltrúa meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sagði fulltrúi minnihlutans í valnefndinni sig frá störfum nefndarinnar, enda ljóst að ekki er um faglega ráðningu að ræða heldur pólitíska ákvörðun meirihlutans. Fulltrúar minnihluta sitja því hjá við afgreiðslu tillögu meirihluta bæjarráðs en óska engu að síður nýráðnum bæjarstjóra farsældar í sínum störfum og vonast til þess að eiga við hann gott samstarf.

Ekki liggja fyrir drög að ráðningarsamningi en samkvæmt minnisblaði sem lagt er fram á fundinum er gert ráð fyrir að laun bæjarstjóra hækki um 31,5% miðað við núgildandi starfskjör. Þessar upplýsingar sem fram koma í minnisblaðinu eru lagðar fram án allrar umræðu og aðkomu bæjarstjórnar. Fulltrúar minnihlutans eru mjög hugsi yfir því hvaða skilaboð felast í slíkri hækkun á launum æðsta embættismanns sveitarfélagsins.

Adda María Jóhannsdóttir
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir
Gunnar Axel Axelsson