Tillaga um uppbyggingu og samstarf grunnskóla í Hafnarfirði
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 10 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1711
2. október, 2013
Annað
Fyrirspurn
Sett á dagskrá að beiðni bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks.
Svar

Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls og lagði fram svohljóðandi tillögu:

"Tillaga að uppbyggingu og samvinnu skóla í Hafnarfirði.

Undirbúin verði frekari samvinna efsta stigs grunnskóla á nýbyggingarsvæðum hvort sem er sín á milli og við eldri skóla bæjarins. Markmið með aukinni samvinnu verði tvíþætt: Annars vegar að auka val sérgreina og hins vegar að nýta húsnæði og aðbúnað í skólum betur.

Greinargerð:
Við blasir húsnæðisvandi skóla í nýjustu hverfum bæjarins og afar takmarkað fjármagn er til framkvæmda og nýfjárfestinga. Því er lagt til að skólastjórnendur í samráði við fræðsluráð auki samstarf í elstu bekkjum grunnskólanna í því skyni að nýta betur húsnæði og aðbúnað skólanna og auka valmöguleika nemenda. Í þessu skyni kæmi einnig til greina að taka tímabundið í notkun annað laust húsnæði í eigu bæjarins. Myndaður verði sérstakur fjárhagspottur og úthlutað úr honum til skóla sem taka upp samstarf sín á milli. Mikilvægt er að uppbygging í skólakerfinu taki mið af þörfum íbúa og sé í samræmi við getu sveitarfélagsins til fjárfestinga. Ennfremur að fagfólk og foreldrar fái aðkomu að tillögum á frumstigi til að samvinna sé best tryggð."
Valdimar Svavarsson (sign), Rósa Guðbjartsdóttir (sign), Kristinn Andersen (sign),
Geir Jónsson (sign), Helga Ingólfsdóttir (sign).


Sigríður Björk Jónsdóttir tók til máls og lagði fram svohljóðandi tilvísunartillögu:
,,Bæjarstjórn samþykkir að vísa málinu án frekari umræðu til Fræðsluráðs, til umfjöllunar."

(Sigriður Björk Jónsdóttir)

Gert stutt fundarhlé.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri, vék af fundi kl. 15:30. Gestur Svavarsson tók sæti á fundinum.


Kristinn Andersen tók til máls. Þá Geir Jónsson.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með 11 samhljóða atkvæðum framlagða tillögu með áorðnum breytingum forseta um að vísa málinu til frekar umfjöllunar í fræðsluráði.