Umdæmisráð barnaverndar á landsbyggðinni
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 ári síðan.
Bæjarstjórn nr. 5
21. september, 2022
Annað
Fyrirspurn
Tillaga frá 10. fundi bæjarráð, liður 4. Lögð fram drög að samningi um rekstur umdæmisráðs barnaverndar á landsvísu, erindibréf valnefndar (viðauki I) og viðauki II við samninginn. Samkvæmt áætlun um breytingu á barnaverndarlögum skulu öll sveitarfélög hafa skipað umdæmisráð fyrir 1. október nk.
Bæjarráð taldi að þjónusta sveitarfélagsins í málaflokki barnaverndar yrði best veitt með því að Sveitarfélagið Árborg gerðist aðili að umdæmisráði barnaverndar á landsvísu. Fól bæjarráð bæjarstjóra að vinna að samþykki samnings þar að lútandi kynna hann fyrir félagsmálanefnd og leggja fyrir bæjarstjórn til endanlegrar samþykktar. Jafnframt var bæjarritara falið að kanna hvort gera þyrfti breytingar á bæjarmálsamþykkt vegna hins sameiginlega umdæmissráðs. Bæjarráð taldi brýnt að þóknun ráðsmanna í umdæmisráðunum þremur sé samræmd og tæki mið af þeim kostnaði sem verið hafði hjá sveitarfélögum.
Málið var á dagskrá félagsmálanefndar 19. september og var eftirfarandi bókað: Félagsmálanefnd fagnar þeim áfanga að stofnað sé umdæmisráð og telur það til hagsbóta við þróun barnaverndarþjónustu. Félagsmálanefnd hefur áhyggjur af miklum kostnaði við stofnun og rekstur mála fyrir umdæmisráði. Félagsmálanefnd hefur áhyggjur af landfræðilegum áskorunum sem fylgir umdæmisráði þvert á landsbyggðina.
Þann 21. september, barst minnisblað frá deildarstjóra félagsþjónustu.
Svar

Helga Lind Pálsdóttir, D-lista, Arnar Freyr Ólafsson, B-lista, Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista taka til máls.

Hlé var gert á fundi kl. 17.42

Fundi fram haldið kl. 17.48

Lagt er til að málinu verði frestað til næsta bæjarstjórnarfundar, 5. okt. tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Eftirfarandi bókun er lögð fram af hálfu bæjarstjórnar:

Fyrir liggur minnisblað deildarstjóra félagsþjónustu, dags. 21. september 2022 þar sem fram koma sjónarmið er leiða líkur að því að hagsmunum sveitarfélagsins sé betur borgið með þátttöku í umdæmisráði í Kraganum og Reykjanessskaga. Í ljósi framangreinds frestar bæjarstjórn að taka afstöðu til tillögunnar um að gerast aðili að umdæmisráði barnaverndar á landsvísu og deildarstjóra félagsþjónustu og sviðsstjóra fjölskyldusviðs veitt umboð til þess að fara í formlegar viðræður um aðild við stofnendur umdæmisráðs Kragans.