Reglur um launakjör og starfsaðstöðu bæjarfulltrúa og nefndarmanna
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 ári síðan.
Bæjarstjórn nr. 1
8. júní, 2022
Annað
Fyrirspurn
Lagðar fram endurskoðaðar reglur um launakjör og starfsaðstöðu bæjarfulltrúa og nefndarmanna, ásamt greinargerð.
Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja reglurnar.
Svar

Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista, Arnar Freyr Ólafsson, B-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Björgvin G. Sigurðsson, S-lista, Fjóla Kristinsdóttir D-lista og Sveinn Ægir Birgisson, D-lista, taka til máls.

Arnar Freyr Ólafsson, B-lista leggur til að málinu verði frestað.
Frestunartillagan er borin undir atkvæði og hún felld með 6 atkvæðum fulltrúa D-lista, gegn 5 atkvæðum fulltrúa S-,B og Á lista.

Kjartan Björnsson, D-lista víkur af fundi. Anna Linda Sigurðardóttir, D-lista tekur sæti. Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, varaforseti bæjarstjórnar, tekur við sem forseti fundarins.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista leggur fram eftirfarandi breytingatillögu:
Tillaga vegna breytinga á reglum um launakjör og starfaðstöðu bæjarfulltrúa og nefndarmanna:

Undirrituð leggur til að skoðað verði að hlutfall forseta bæjarstjórnar af þingfarakaupi verði lækkað til mótvægis við gríðarlega hækkun á hlutfalli formanns bæjarráðs. Með mikilli aukningu á verkefnum formanns bæjarráðs hlýtur verkefnum forseta að fækka og það hlutverk að verða veigaminna.

Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi, S-lista.

Breytingatillagan er borin undir atkvæði og hún felld með 6 atkvæðum fulltrúa D-lista, 3 fulltrúar B- og Á-lista sitja hjá. 2 fulltrúar S-lista greiða atkvæði með tillögunni.

Anna Linda Sigurðardóttir víkur af fundi Brynhildur Jónsdóttir, víkur sem forseti og Kjartan Björnsson kemur inn á fundinn og tekur við stjórn fundarins.

Upphafleg tillaga er borin undir atkvæði og samþykkt með atkvæðum 6 fulltrúa D-lista, 3 fulltrúar S- og Á- lista greiða atkvæði gegn tillögunni. 2 fulltrúar B-lista sitja hjá.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista óskar eftir fundahléi kl. 19.06. Fundahlé veitt og fundi fram haldið kl. 19.42.

Arnar Freyar Ólafsson, B-lista tekur til máls og leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa S-, B- og Á-lista: Undirrituð vilja byrja á að benda á villandi og rangar staðhæfingar í greinargerð sem fylgir tillögunni. Þar kemur fram að aukning á hlutfalli formanns bæjarráðs sé 44%, að það fari úr 21% af þingfararkaupi í 65% af þingfararkaupi.

Hið rétta er að tillagan er um 44 prósentustiga hækkun en raunin er að tillagan felur í sér 209,5% aukningu á þóknun formanns bæjarráðs eða úr kr. 269.936 í kr. 835.517.

Réttur útreikningurinn er eftirfarandi:

Þingfararkaup er kr. 1.285.411

Hlutfall formanns áður 21% = 0,21*1.285.411 = 269.936 Hlutfall formanns eftir breytingu 65% = 0,65* 1.285.411 = 835.517 Mismunur kr. 565.517

Hlutfallsreikningur: 565.517 / 269.936 = 209,5% aukning

Þá bendum við á að ekki er tilgreint hverjar eru auknar skyldur formanns bæjarráðs. Við teljum mikilvægt að við allar staðreyndir liggi fyrir og að óyggjandi sé af tillögutexta hverjar breytingarnar séu.

Undirritaðir bæjarfulltrúar lýsa yfir furðu með þá tillögu meirihluta sjálfstæðismanna að hækka laun formanns bæjarráðs um hundruði prósenta. Þetta þrátt fyrir að í mars sl. voru gerðar breytingar á launakjörum bæjarfulltrúa sem unnar voru af allri bæjarstjórninni og samþykktar samhljóða á bæjarstjórnarfundi, m.a. af bæjarfulltrúunum Kjartani Björnssyni og Brynhildi Jónsdóttur.

Með þessari hækkun ásamt bæjarfulltrúalaunum og formennsku í tveimur nefndum er formaður bæjarráðs að tryggja sér rúmar 1,4 milljónir króna í laun á mánuði. Ekki liggur fyrir í hverju þessu auknu verkefni formanns bæjarráðs felast og hvað hefur breyst á þeim örfáu vikum sem liðnar eru frá því að síðasta kjörtímabili lauk. Þessi ráðstöfun nýs meirihluta lyktar af því ósætti sem virðist hafa orðið um hver ætti að verða bæjarstjóri og því hefur verið ákveðið að búa til embætti 2.bæjarstjóra. Það er grafalvarlegt að slík grímulaus sjálftaka skuli vera fyrsta verk nýs meirihluta.

Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi, S-lista
Björgvin G. Sigurðsson, varabæjarfulltrúi, S-lista
Álfheiður Eymarsdóttir, bæjarfulltrúi, Á-lista
Arnar Freyr Ólafsson, bæjarfulltrúi, B-lista
Ellý Tómasdóttir, bæjarfulltrúi, B-lista.