Útgáfa skuldabréfa
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 34
14. apríl, 2021
Annað
Fyrirspurn
Lagt er til við bæjarstjórn að gefin verði út skuldabréf á markaði að fjárhæð allt að kr. 2,2 milljarðar til að fjármagna fjárfestingar samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2021. Landsbankanum verði falið að annast skuldabréfaútgáfuna og stefnt að því að um verði að ræða að mestu leyti svokölluð rauð og græn skuldabréf. Heimilt verði að stækka útgáfuna ef augljós tækifæri gefast til hagkvæmrar endurfjármögnunar.
Mikilvægt er að ljúka ákvörðun um skuldabréfaútgáfu svo fljótt sem kostur er þannig að sú fjármögnun nýtist sveitarfélaginu strax í júní, miðað við fyrirliggjandi fjárþörf. Ef ekki verður samþykkt að fara í skuldabréfaútgáfu liggja fyrir tilboð frá bönkum um verðtryggð lán á vaxtakjörum sem liggja á bilinu 2-3%, eftir útfærslum. Gert er ráð fyrir að vaxtakjör í skuldabréfaútgáfu verði talsvert betri eða á bilinu 1,5-2,0%. Meðalvaxtabyrði af langtímaskuldum Árborgar er í dag um 3,06%.
Svar

Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri tekur til máls og fylgir tillögunni úr hlaði.
Ari B. Thorarensen, D-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri og Sigurjón V. Guðmundsson, Á-lista taka til máls.
Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, 4 fulltrúar D-lista greiða atkvæði á móti.
Kjartan Björnsson, D-lista leggur fram eftirfarandi bókun f.h. bæjarfulltrúa D-lista:
Boðað er til enn meiri skuldsetningar Sveitarfélagsins Árborgar og rétt nýlega búið að taka risastórt lán. Hvert stefnum við? Er ekki tímabært að staldra við og fara yfir stöðuna og meta mikilvægi, nauðsyn og lagaskyldu þeirra verkefna sem framundan eru áður útgjaldalekinn sem svo var nefndur af meirihlutaflokkunum um síðustu kosningar verður að straumþungri á? Bæjarfulltrúar D listans hafa verulegar áhyggjur af því hvert stefnir í skuldamálum sveitarfélagsins. Við óskum svara við því hver nákvæm skuldastaða Sveitarfélagsins Árborgar verður í krónum eftir þetta skuldabréfaútboð?
Bæjarfulltrúar D-lista,
Gunnar Egilsson - Kjartan Björnsson - Brynhildur Jónsdóttir og Ari Björn Thorarensen

Tómas Ellert Tómasson, M-lista leggur fram eftirfarandi bókun f.h. bæjarfulltrúa meirihlutans:
Það vekur furðu að bæjarfulltrúar D-lista skuli bóka með þeim hætti sem gert er. Allar nauðsynlegar upplýsingar um hvers vegna farið er í skuldabréfa útgáfu koma fram í minnisblaði bæjarstjóra sem lagt er fram undir þessum lið og allt lítur út fyrir að bæjarfulltrúar D-lista hafi ekki kynnt sér. Þar kemur meðal annars fram að Sveitarfélagið hefur þegar fengið lánsloforð upp á um 3 milljarða frá Lánasjóði sveitarfélaga og að þau kjör sem talið er að muni bjóðast í fyrirhugaðri skuldabréfaútgáfu verði góð. Nú þegar liggja fyrir tilboð frá bönkum um verðtryggð lán á vaxtakjörum sem liggja á bilinu 2-3%, eftir útfærslum. Gert er ráð fyrir að vaxtakjör í skuldabréfaútgáfu verði talsvert betri eða á bilinu 1,5-2,0%. Meðalvaxtabyrði af langtímaskuldum Árborgar er í dag um 3,06%.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista
Helgi S. Haraldsson, B-lista
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista
Tómas Ellert Tómasson, M-lista