Athugasemdir íbúa Háaleitis og Bústaðahverfis, vegna Aðalskipulags Reykjavíkur
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 78
12. ágúst, 2020
Annað
Fyrirspurn
Lagt fram erindi starfsmanns íbúaráða, dags. 3. júlí 2020, f.h. íbúaráðs Háaleitis og Bústaða þar sem framsend er umsögn íbúaráðsins dags. 2. júlí 2020 og fylgiskjal með henni (bréf íbúa í Fururgerði til íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis, ódags.).
Bókanir og gagnbókanir
  • Sjálfstæðisflokkur
    Athygli vekur að íbúaráð Háaleitis og Bústaða beinir erindi sínu vegna uppbyggingu við Furugerði beint til Skipulagsráðs. Eðlilegt væri að halda fund með íbúum og taka fyrir erindi íbúaráðs áður en breyting á deiliskipulagi Furugerðis væri afgreitt úr ráðinu. 
  • Miðflokkur
    Fyrir fundinum liggur erindi frá íbúaráði Háaleitis- og Bústaðahverfis undir öðrum dagskrárlið og er mjög einkennilegt að þessi mál séu ekki rædd saman. Íbúaráðið lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þessa máls. Íbúar eru hræddir um skemmdir á húsum sínum þegar farið verður að sprengja fyrir bílakjallara því grunnt er niður á klöpp. Einnig hafa íbúar miklar áhyggjur af skorti á bílastæðum því nú þegar er takmarkað magn bílastæða og einnig eru áhyggjur af hljóðvist. Íbúaráðið bendir á fleiri þætti s.s að takmarkað pláss er fyrir gangstéttir og þröngt verði um bíla. Aðal áhyggjur íbúaráðsins eru þó þær að byggingamagnið á reitnum er allt of mikið og stendur til að margfalda það miðað við fyrirliggjandi aðalskipulag. Íbúaráðið bendir á að „í B-hluta aðalskipulags 2010-2030 kemur fram um þennan reit: „ÍB33 Gerði-vestur. Svæðið er að mestu fullbyggt og fastmótað. Möguleiki er á lítilsháttar þéttingu íbúðarbyggðar (4-6 íbúðir) við Furugerði, næst Bústaðavegi (Gróðrarstöðin Grænahlíð).“Núverandi aðalskipulag gerir ráð fyrir 4-6 íbúðum, en í breytingartillögun er því haldið fram að heimild sé fyrir 49 íbúðum og að stefnt sé að byggingu 32 íbúða.“Þessi tillaga kemur algjörlega aftan að íbúum á þessu svæði og vinnubrögð borgarinnar eru forkastanleg.
  • Flokkur fólksins
    Í athugasemdalista íbúaráðsins segir: „Íbúar hafa áhyggjur af skorti á bílastæðum. Á svæðinu er nú þegar takmarkað magn bílastæða og miðað við núverand fyrirætlanir er gert ráð fyrir bílakjallara en að þar séu aðeins stæði fyrir íbúa. Ekki sé gert ráð fyrir neinum stæðum við húsin sjálf, svo sem fyrir gesti og aðra og því ekki gert ráð fyrir að gestir komi akandi. „ Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir áhyggjur íbúa í þessu hverfi vegna skorts á bílastæðum samkvæmt þessari athugasemd.Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hér megi sjá í hnotskurn hvert skipulagsyfirvöld stefna leynt og ljóst í skipulagsmálum víða í borginni. Verið er að auka byggingarmagn gríðarlega en ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða Brátt mun það ekki standa Reykvíkingum sem hyggjast kaupa nýbyggingar til boða að geta lagt í námunda við heimili sín. Skipulagsyfirvöld bjóða sums staðar upp á miðlægan bílastæðakjallara í hverfi eða í besta falli deilistæði. Hafa borgarbúar verið spurðir hvort þeir séu sáttir við þetta? Sams konar má sjá í hugmyndum um hverfisskipulag í Breiðholti. Þar fá eigendur séreigna að bæta við íbúð en ekki skal fylgja bílastæði. Þar verður veitt heimild að byggja hæðir ofan á blokkir en ekki skal fjölga bílastæðum.