Landfylling í Nýja Skerjafirði, frummatsskýrsla, kynning
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 10 mánuðum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 122
1. desember, 2021
Annað
1. fundarliður
2. fundarliður ›
Fyrirspurn
Lögð fram til kynningar frummatsskýrsla um mögulega landfyllingu í Nýja Skerjafirði, dags. 3. nóvember 2021, ásamt viðaukahefti.
Svar

Kynnt.

Gestir
Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði Ragnhildur Gunnarsdóttir, Sigurður Örn Jónsson og Anna Rut Arnardóttir frá EFLU, Páll Gunnlaugsson frá ASK arkitektum, Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri, Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri og Hannes Bjartmar Jónsson, ráðgjafaverkfræðingur. Eftirtaldir fulltrúar í umhverfis- og skipulagsráði taka sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir, Sabine Leskopf, Björn Gíslason, Jórunn Pála Jónasdóttir og Baldur Borgþórsson.
Bókanir og gagnbókanir
 • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
  Í tengslum við nýja byggð í Skerjafirði er fyrirhugað að gera 4,3 ha landfyllingu á um 700 metra kafla, um 100 metra út í sjó. Landfyllingin mun nýtast undir nálæga byggð, undir samgöngutengingar og til útivistar. Framkvæmdin er ekki matsskyld en ákveðið var að ráðast í mat á umhverfisáhrifum að frumkvæði borgarinnar. Fyrir liggja tillögur að mótvægisaðgerðum eins og að strandlengjan verði mótuð þannig að hún líki eftir náttúrulegri strönd og leitast við að þar geti myndast leirur á ný í stað þeirra sem raskast. Við þökkum vandaða vinnu við gerð frummatsskýrslu sem er nú komin í opið umsagnarferli. Í framhaldi verður unnið úr þessum gögnum og lagður grunnur að næstu skrefum.
 • Sjálfstæðisflokkur
  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við landfyllingu við Skerjafjörð sem mun raska náttúrulegri fjöru sem hefur hátt verndargildi og til stendur að friða. Opinberir fagaðilar hafa bent á að landfyllingin muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif á leirur, fjörulíf og líffræðilegan fjölbreytni. Umhverfisstofnun hefur bent á að landfyllingin muni auk þess hafa neikvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda að því leyti að þangbreiður sem binda koldíoxíð munu skerðast. Þá bendir stofnunin á að skv. lögum um náttúruvernd beri að forðast röskun þeirra náttúrufyrirbæra sem falla undir, 61. gr. laga nr. 60/2013 nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Ennfremur leggur Náttúrufræðistofnun Íslands til að Skerjafjörður sé eitt þeirra svæða sem verði sett á B- hluta náttúruminjaskrár. Þá segir í áliti Náttúrufræðistofnunar: „Náttúra Skerjafjarðar, ef svo má að orði komast, á ekki að gjalda fyrir að ástæða þyki til þess að skipuleggja byggð við fjörðinn eða á flugvallarsvæðinu.“ Ljóst er að áform um landfyllingu er í ósamræmi við yfirlýsta stefnu meirihlutans í borgarstjórn um að hlúa eigi að grænum svæðum og vernda eigi líffræðilegan fjölbreytileika. Til að koma í veg fyrir alvarleg umhverfisspjöll ætti að fara að faglegum tilmælum og falla frá áformum um landfyllingu þannig að náttúran fái notið vafans.
 • Miðflokkur
  Reykjavíkurborg áformar að gera 4,3 ha landfyllingu í Skerjafirði og er áætluð efnisþörf um 245.000 m3, sem nemur rúmlega 14.400 trailera/12 metra langra vörubíla. Í fyrri áfanga er gert ráð fyrir 0,5 hektara landfyllingu og í seinni áfanga 3,8 hektara. Mikið umhverfisslys er í uppsiglingu og mikið inngrip í náttúruna. Shellvík er með síðustu náttúrulegu og óröskuðu fjörunum í Reykjavík fyrir utan Kjalarnes. Áætlað er að fullbyggður Nýi Skerjafjörður hýsi 2.300–2.500 íbúa í 1.400 íbúðum og þar af eiga 300 íbúðir verði á fullbyggðri landfyllingu. Áhrif á gróður, strand- og sjávarlífríki, fuglalíf og verndarsvæði – samkvæmt skýrslunni eru metin í hæsta neikvæða flokki. Á svæðinu eru minjar um fyrstu sjóflugvélasögu Reykjavíkur sem var upphafið af flugi í Vatnsmýrinni og þessari sögu á að fórna. Innviðir Skerjafjarðar þola ekki það álag sem af þessari uppbyggingu hlýst. Umferðarálagið er nægt fyrir og nýlega var boðað að þrengja að Suðurgötu og breyta henni í borgargötu. Efnisflutningar verða gríðarlegir í gegnum Skerjafjörð og á Menntavegi framhjá HR og á ólögðum vegi við enda flugbrautarinnar í Vatnsmýrinni. Þá er ótalin áhrifin af eknum kílómetrum, eyðslu bíla, slit gatna og losun CO2 af verkinu.
 • Flokkur fólksins
  Þetta viðaukahefti styður það sem fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að segja undanfarin ár sem er að það á alls ekki að fylla upp í fjörur þegar eitthvað á að gera við ströndina. Þrátt fyrir hagstæð skilyrði fyrir landfyllingu á þessum stað kemur í ljós að tjónið fyrir lífríki fjörunnar er mikið og óvissa um árangur mikil. Í rammaskipulagi Skerjafjarðar er lögð áhersla á að leitast verði við að líkja eftir náttúrulegri strönd með notkun grjóts af sömu stærðargráðu og fjölbreytileika eins og er nú í fjörunni. Þetta er augljóslega ekki hægt samkvæmt þessari skýrslu: Um 2,7 ha af 3,7 ha núverandi fjöru sem geymir fínefni munu hverfa undir landfyllinguna og fláa hennar. Niðurstöður greininga sýna að varnargarðar munu aðeins veita staðbundið skjól fyrir öldu. Verulega stóran varnargarð þyrfti því til að skapa almennar skjólaðstæður við landfyllinguna. Þessi ,,tilbúna” þyrfti að vera í gjörgæslu um aldur og ævi. Hafa mætti í huga að núverandi fjörur hafa myndast á löngum tíma og þróast við staðbundnar aðstæður. Verkfræðingar geta engu við það bætt. Engar mótvægisaðgerðir mun duga til hér. Skaðinn er óafturkræfur. Miklu er fórnað fyrir lítið þegar heildarmyndin er skoðuð.