Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi innkaupamál
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 108
23. júní, 2021
Annað
Fyrirspurn
Innkaupamál á þessu og síðasta kjörtímabili hafa verið ein samfelld hneisa. Borgaryfirvöld hafa ítrekað virt lög og reglur um opinber innkaup að vettugi og gengið til samninga án þess að útboð fari fram. Þá er rétt að minna á það að þótt útboðsskylda verði aðeins virk fari samningur yfir ákveðin fjárhæðarmörk þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að borgin bjóði út minni verk. Útboð eru til þess fallin að auka traust almennings á stjórnvöld og leiða gjarnan til sparnaðar fyrir borgina. Engu að síður hefur sitjandi meirihluti ítrekað farið á svig við lög um opinber innkaup og gengið beint til samninga við einkaaðila. Þetta sáum við þegar borgin keypti ljósastýringu án undangengins útboðs og orka er keypt án útboðs. Við munum vel hversu lítið eftirlit var með endurgerð Braggans í Nauthólsvík. Verkið fór langt umfram kostnaðaráætlanir. Þar voru meira og minna öll verk og öll þjónusta keypt án undangengins útboðs. Sitjandi meirihluti virðist ekki nýta útboð við að leita að hagstæðu verði. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvers vegna?
Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Fyrirspurnir eru mikilvæg tæki fyrir kjörna fulltrúa til að kalla eftir upplýsingum úr stjórnkerfinu. Fyrirspurnin sem um ræðir inniheldur hins vegar fyrst og fremst fullyrðingar um illan ásetning sem ekki fást staðist en engar beinar óskir um upplýsingar sem stjórnsýsla Reykjavíkurborgar gæti brugðist við. Eðlilegt er ræða árangur, sýn og ábyrgð í innkaupa og útboðsmálum réttast er að gera það á vettvangi borgarstjórnar þar sem kjörnir fulltrúar geta skipst á skoðunum á opnum vettvangi.
  • Flokkur fólksins
    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram spurningu um hvernig stæði á því að endrum og sinnum kæmu mál upp á yfirborðið þar sem borgin hefur ekki virt lög og reglur um opinber innkaup. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta með ólíkindum vegna sögunnar og er skemmst að minnast braggamálsins og fleiri mál. Fyrirspurninni er svarað með bókun sem felur í sér snuprur til fulltrúa Flokks fólksins fyrir að spyrja með þessum hætti. Haldi þetta áfram að endurtaka sig hvað þá? Eiga fulltrúar minnihlutans bara að láta það eiga sig, minnast ekki á neitt eða láta sem ekkert sé? Fátt virðist hafa dugað, oft er búið að ræða þessi mál og sagt er að skerpt hafi verið á reglum en engu að síður eru reglur brotnar. Aftur er minnt á að þótt útboðsskylda verði aðeins virk fari samningur yfir ákveðin fjárhæðarmörk þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að borgin bjóði út minni verk.