Hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 100
14. apríl, 2021
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 22. mars 2021, ásamt fylgigögnum:
Svar

Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki meðfylgjandi tillögu að hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar.

Gestir
Stefán Agnar Finnsson verkfræðingur, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir deildarstjóri og Höskuldur Rúnar Guðjónsson verkfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Markmið hámarkshraðaáætlunarinnar er að stuðla að bættu umferðaröryggi. Það er yfirlýst markmið Reykjavíkurborgar, sem áréttað er í umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur, að enginn slasist alvarlega eða látist í umferðarslysum innan borgarinnar. Til að koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki í umferðinni, þar sem ólíkir ferðamátar mætast, er nauðsynlegt að taka mið af gangandi og hjólandi vegfarendum. Stórt skref í þá átt er að stuðla að lágum umferðarhraða.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að miðstýrð aðferðarfræði henti ekki til að tryggja umferðaröryggi og umferðarflæði. Tafatími í umferð er mjög mikill í borginni og mun aukast við þessa framkvæmd. Hætta er á að auknar umferðartafir verði til þess að umferðarflæði fari inn í íbúðagötur og skapi þannig óþarfa hættu. Í þessari áætlun borgarinnar er gert ráð fyrir að fjárfesta fyrir milljarða í auknum þrengingum á götum borgarinnar. Dæmi um áhrif inngripa er frá árinu 2014 þegar þrengt var að Hofsvallargötunni. Samkvæmt umferðartalningu borgarinnar jókst umferð í nærliggjandi götum um 1.000 bíla á sólarhring. Í ákveðnum tilfellum er nauðsynlegt að lækka hámarkshraða vegna öryggissjónarmiða en það á ekki við alls staðar. Árangursríkara er að hvetja fólk til að nota nagladekk minna og að borgin gæti að þrifum gatna sinna, fremur en að beita yfirgripsmiklum hraðatakmörkunum til að stemma stigu við svifryksmengun. Ljóst er að sjónarmið fjölmargra íbúa eru neikvæð í garð tillögunnar. Þá er rétt að benda á að umsögn Strætó bs. er neikvæð enda muni breytingin lengja ferðatíma Strætó. Gert er ráð að Suðurlandsbraut fari úr 60km hraða í 40km Bústaðavegur og Grensásvegur fari í 40km hraða. Auk þess er stefnt að hraðalækkun mikilvægra umferðargatna í Breiðholti og í Grafarvogi.
  • Sósíalistaflokkur
    Undirrituð, fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands styður lækkun umferðarhraða innan íbúðahverfa Reykjavíkurborgar en vill leggja fram bókun um nauðsyn þess að halda stofnbrautum áfram með hærri umferðarhraða til að tryggja að ekki myndist meiri umferðartafir en þegar eru á álagstímum þegar fólk mætir til og frá vinnu/skóla. Fjöldi fólks býr utan Reykjavíkur bæði á höfuðborgarsvæðinu sjálfu sem og utan þess, en sækir vinnu/skóla og/eða þjónustu inn í borgina og því einkar brýnt að stofnbrautir geti flutt fólk hratt og vel á milli borgarhluta og þurfi ekki að sitja langar stundir í umferðarhnútum með tilheyrandi töfum og mengun en þekkt er sú mengun sem gangsettur bíll í kyrrstöðu skapar og mun auka mengun í andrúmslofti borgarinnar ef hraði er of lágur á stofnbrautum – sér í lagi á annatímum. Reykjavík á að vera okkar allra og má því ekki verða bílfjandsamleg borg þó að við viljum vera eins umhverfisvæn og hægt er.
  • Miðflokkur
    Aðgerðir vegna lækkunar hámarkshraða í 30 km. á borgargötum eru áætlaður 1,5 milljarður. Er borgarstjóri og meirihlutinn ekki með öllum mjalla? Finnst fólki í lagi að þessir aðilar sem stjórna Reykjavíkurborg á minnihluta atkvæðum getir tekið svona einhliða ákvörðun að lækka umferðarhraða í 30 km. sísvona. Ekki stóð á áróðursdeild ráðhússins í gær þegar þjófstartað var í fréttum RÚV bæði kl. 19:00 og 22:00 þar sem delerað var um þessar hugmyndir og borgarstjóri var tekinn í viðtal áður en málið er kynnt í skipulags- og samgönguráði. Öll áhersla var lögð á að þessi tillaga myndi minnka svifryk á fundinum er hins vegar öll áhersla lögð á slysahættu. Einmitt – hvers vegna er þá ekki farið í samgöngubætur á slysamestu gatnamótum Reykjavíkur. Uppreiknuð arðsemi er talin vera 70% og er þá átt við samfélagslegan sparnað. Einungis ein breyta er tekin inn en ekki tekin inn í myndina tafakostnaður fjölskyldnanna, fyrirtækjanna og Strætó. Ekki er búið að keyra þessa breytingu í gegnum nýtt umferðarmódel og er skýrt brot á samgöngusáttmálanum.
  • Flokkur fólksins
    Mikilvægt er að hafa 30 km/klst. hraða á svæðum þar sem börn fara um s.s. í nágrenni við skóla. Víða hefur hraði í íbúðagötum verið lækkaður og er það mjög af hinu góða.  Þegar horft er til hraðalækkunar og hraðahindrana almennt séð togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma, annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir og mengun eins og sjá má víða í borginni. Umferðartafir og teppur í borginni er stórt vandamál sem ekki hefur tekist að leysa þrátt fyrir að framlagðar hafi verið magar nothæfar tillögur. Þessi mál eru ekki einföld. Það dugar því skammt að segja að þeir sem benda á að lækkun hraða þýði verra umferðarflæði og skapi tafir sé byggt á einhverjum misskilningi. Enginn er að halda því fram að hærri hraði leiði ALLTAF til meiri afkastagetu götu. Margt annað í aðstæðum hverju sinni þarf að taka inn í myndina. Hér þarf því að finna einhvern milliveg og reyna að mæta þörfum sem flestra til að komast sem öruggast og best á milli staða í borginni.