Áhrif hraða á mengun vegna umferðar, kynning
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 99
7. apríl, 2021
Annað
1. fundarliður
Fyrirspurn
Lögð fram skýrsla Háskóla Íslands til Vegagerðarinnar um niðurstöður rannsókna á áhrifum hraða á mengun vegna umferðar, dags. 2021.
Svar

(A)    Skipulagsmál

Gestir
Þröstur Þorsteinsson prófessor við Háskóla Íslands tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Við þökkum skýrslu sem Háskóli Íslands vann fyrir Vegagerðina um áhrif hraða á mengun. Þar kemur enn og aftur fram að nagladekkin eru langstærsti áhrifavaldurinn við myndun svifryks. Niðurstöður skýrslunnar sýna að með því að draga úr umferðarhraða mætti draga töluvert úr myndun svifryks og minnka um leið slit á götum.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Full ástæða er til að leita leiða til að minnka svifryksmengun í borginni, bæði lágmarkamyndun svifryks, en jafnframt að auka og bæta þrif í borginni.  Þungaflutningar og notkun nagladekkja hafa veruleg áhrif á uppruna svifryks. Rétt væri að nota þau úrræði sem borgin hefur yfir að ráða til að hvetja til minni notkunar nagladekkja.
  • Miðflokkur
    Borgarfulltrúi Miðflokksins fagnar öllum þeim sem nema umhverfis- og auðlindafræði. Það fag er framtíðarundirstaða í þróun mála í heiminum auk umhverfis- og auðlindaréttar. Á fundinum var kynnt skýrsla um: „Áhrif hraða á mengun vegna umferðar. Skýrsla til Vegagerðarinnar 2021.“ Fram kemur að höfundar skýrslunnar bera ábyrgð á innihaldi hennar og að niðurstöður hennar beri ekki að túlka sem yfirlýsta stefnu Vegagerðarinnar. Þess vegna er skrýtið að þessi skýrsla er til umfjöllunar í skipulags- og samgönguráði. Þessi gagnrýni beinist ekki að höfundi skýrslunnar. Inni á skipulagssviði er ósvöruð fyrirspurn frá borgarfulltrúa Miðflokksins sem var lögð fram á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 16. desember 2020 sem hljóðar svo: "Hvað hafa göturnar í Reykjavík verið þrifnar/þvegnar oft á árinu 2020 tæmandi talið eftir hverfum?" Hvers vegna er þeirri fyrirspurn ekki svarað. Þess í stað er dregin skýrsla upp úr hattinum. Innihald þessarar skýrslu er einhliða áróður sem felst í því að mengun minnki við lækkunar umferðarhraða. Stóru breytuna vantar. Áhrif lægri umferðarhraða og þar með tafa í umferð sem veldur því að útblástur verður langtum, langtum meiri af þeim völdum. Einnig vantar mengunina sem hlýst af galtómum strætódrekum sem í flestum tilfellum eru díselknúnir inn í skýrsluna.
  • Flokkur fólksins
    Fram kemur að svifryksmengun frá umferð hverfa ekki með aukinni rafbílavæðingu. Í sjálfu sér hefur kannski engin haldið því fram. En bílar sem knúnir eru á vistvænni orku hljóta nú engu að síður að vera framtíðin þótt það komi ekki mikið fram í þessari skýrslu. Varast skal að tala niður raf- vetni- og metanbíla. Sjálfsagt er að horfa hvað mest til nagladekkjanna en ekki síður til þess að malbik sé gott og götur séu hreinsaðar. Nagladekk hafa bjargað mörgum lífum. Lélegt malbik hefur kostað líf. Söltun og skolun hefur mikil áhrif til bóta. Umferðarteppur eru ekki til að hjálpa, bílar aka í hægagangi í langri röð eða eru sífellt að stoppa á ljósum þar sem jafnvel rautt ljós logar löngu eftir að búið er að þvera gangbraut. Stýring umferðarljósa þ.m.t. gangbrautarljósa er þekkt vandamál víða í borginni. Athyglisvert er hversu ökuhraði hefur mikil áhrif á svifryksmyndun ef marka má niðurstöður. Mestu skiptir að í venjulegum húsagötum sé ökuhraði lítill. Annar áhrifavaldur á svifryksmengun eru skítur og óhreinindi gatna. Götur í Reykjavík eru almennt séð taldar illa þrifnar. Ekki einu orði er minnst á hreinsun gatna í skýrslunni.