Endurskoðaðar reglur um bílastæðakort íbúa í Reykjavík, tillaga - USK2021020020
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 97
10. mars, 2021
Annað
1. fundarliður
2. fundarliður ›
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 5. mars 2021, um uppfærðar reglur um bílastæðakort íbúa í Reykjavík. Einnig eru lögð fram drög að endurskoðuðum reglum um bílastæðakort íbúa í Reykjavík og minnisblað Eflu, samantekt um útfærslu íbúakorta erlendis, dags. 6. mars 2019. Samþykkt. Vísað til borgarráðs.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Með þessari endurskoðun er lögð til talsverð einföldun á reglunum um íbúakort. Tengsl íbúakorta og bílastæðagjalds húsbyggjenda eru rofin og miðað er við að sækja megi um eitt íbúakort fyrir hverja íbúð sem ekki fylgir bílastæði að uppfylltum öðrum skilyrðum. Þá taka reglurnar mið af því að af fjölbreyttari eignarformum og umráðum yfir ökutækjum. Ljóst er að þeim aðilum sem hafi rétt á íbúakortum mun fjölga. Það er okkar það okkar skoðun að rétt sé að hækka gjald íbúakorta og bjóða upp á fjölbreyttari greiðslumöguleika til að stýra aðgengi að þessum takmörkuðu gæðum enn betur.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Breyttar reglur um bílastæðakort innihalda engar ívilnanir fyrir rafmagnsbíla og gildir sama gjald fyrir alla óháð eldsneytisnotkunar. Þetta er þvert á þá stefnu stjórnvalda á Íslandi að stuðla að orkuskiptum í samgöngum, en engin þjóð er í betri færum en Íslendingar að nýta sér hreina raforku í samgöngum. Rétt væri að hafa lægra gjald fyrir rafbíla líkt og gert er í Noregi og í Danmörku.
  • Miðflokkur
    Hér er verið að breyta reglum um bílastæðakort í miðbænum. Rótin að þessu vandamáli eru gjörðir meirihlutans að fækka bílastæðum á svæðinu. Horfir sú fækkun til mikilla vandræða fyrir íbúa í miðbænum sem eiga rétt á a.m.k. einu bílastæði með hverri íbúð gegn vægu gjaldi. Þetta er mjög ósanngjörn þróun og má lýsa yfir fullkomnum forsendubresti að hálfu borgarinnar gagnvart íbúum. Yfirsvífandi í þessari tillögu er mikil gjaldskrárhækkun bílastæðakorta. Er það klárt brot á stöðuleikasáttmálanum um að hið opinbera hækki ekki gjaldskrár sínar. Að mati meirihlutans virðast gilda aðrar reglur og önnur lög um íbúa miðborgarinnar – en í öðrum hverfum borgarinnar. Sífellt er verið að þrengja að miðborginni með valdbeitingu sem á sér rót í andúð á fjölskyldubílnum. Það á m.ö.o. að verðleggja búsetu venjulegs fólk úr miðbænum og einungis gefa þeim efnameiri kost á að búa þar. Þetta er einn liður í því.
  • Flokkur fólksins
    Um er að ræða að íbúar (í miðbænum) fái aðgang að bílastæðum gegn gjaldi, sem getur verið mishátt, og á sérvöldum svæðum í stað þess að íbúar eigi sérbílastæði. Skorið er á milli íbúðar og bílastæðis. Þetta kann að falla í misgóðan farveg þar sem fólk hefur öllu jafna geta lagt bíl sínum fyrir utan heimili sitt án gjalds. Miðbærinn er orðið svæði sem er dýrt að búa á og stefnir í að það verði hverfi fyrir efnameira fólk í framtíðinni. Útgjöld munu sannarlega aukast og dýrt verður einnig að koma sem gestur. Í raun stefnir sennilega í það að þeir sem ætla að búa í miðbænum muni einfaldlega þurfa að hugsa sig tvisvar um hvort þeir geti leyft sér að eiga bíl og gestir verða helst bara að koma hjólandi. Þeir sem eru almennt sáttir við þessa þróun finnst þetta líklega til bóta frekar en að hvergi verði hægt að finna bíl sínum stað í miðbænum. Þessum kann að finnast það eðlilegt að erfiðara sé að vera með bíl í miðbænum en í úthverfum. Fyrir fjölskyldur er ekki ósennilegt að þetta hafi mikinn fælingarmátt að kaupa fasteign eða leigja á þessu svæði og mun fólk kannski í æ meira mæli berjast um hverja einustu eign í úthverfum.