Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um átak gegn hættulegu húsnæði í borginni, umsagnir - USK2020080048, R20080089
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 88
11. nóvember, 2020
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu ásamt minnisblaði, dags. 5. október 2020 og umsögn fjölmenningarráðs, dags. 15. október 2020.
Svar

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Rannsókn húsnæðis og mannvirkjastofnunar á brunanum á Bræðraborgarstíg stendur yfir og felur sú rannsókn m.a. annars í sér yfirferð á núgildandi regluverki. Í frumvarpi að breytingu á húsaleigulögum sem lagt hefur verið fram á Alþingi koma fram ýmsar tillögur sem gagnast gætu við víðtækara eftirlit með húsaleigumarkaðnum. Þá er ljóst að endurskoða gæti þurft heimildir byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlits. Ekki þykir rétt að samþykkja tillöguna en Reykjavíkurborg mun starfa með Alþingi og öðrum stjórnvöldum með það að markmiði að bæta lagaumhverfið. Jafnframt þyrfti að líta til umsagnar fjölmenningarráðs og koma á framfæri upplýsingum um brunavarnir og réttindi leigjenda til Reykvíkinga með ólík móðurmál.
  • Flokkur fólksins
    Flokkur fólksins lagði til að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Tillögunni hefur verið vísað frá. Í svörum hefur komið fram að lagaheimildir skorti til að borgin geti farið í slíkt átak. Það er mjög alvarlegt. Í umsögn sem birt hefur verið með málinu er sökinni að mestu komið á löggjafann og húseiganda, en eftirlitskerfi borgarinnar er sagt máttlaust. Fulltrúi Flokks fólksins spyr þá hvort borgaryfirvöld hyggist ekki biðja um betri lagaheimildir? Að eftirlitið sé alfarið á könnu ríkisins er varla raunhæft. Svona mál vinnast best hjá þeim sem næst standa og fulltrúi Flokks fólksins telur að borgin geti ekki varpað frá sér ábyrgðinni eins og mál af þessu tagi komi borgaryfirvöldum ekki við. Að borginni snýr ákveðinn veruleiki, vitneskja og meðvitund um að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði. Vonandi munu borgaryfirvöld ekki bara sitja með hendur í skauti og vona að það verði ekki annar skaðlegur bruni í eldra húsnæði borgarinnar.