Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík, greining á ferðavenjum
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 73
20. maí, 2020
Annað
1. fundarliður
2. fundarliður ›
Fyrirspurn
Lagt fram bréf skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 18. maí 2020 ásamt minnisblaði Eflu dags. 15. maí 2020 og minnisblaði sérfræðingahóps HR og HÍ dags.  5. apríl 2019 er varðar losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík
Bókanir og gagnbókanir
  • Miðflokkur
    Hér er kynntar niðurstöður um að hver íbúi þurfi að minnka bílaferðir sínar um 6,7 km á viku sem þýðir að hver og einn þarf að fækka ferðum sínum um eina eða tvær í hverri viku. Það er hreint með ólíkindum að úttektin nái bara yfir fjölskyldubílinn en ekki Strætó sem hendist galtómur um göturnar frá morgni til kvölds, knúinn áfram af díselolíu. Auðvitað eru vagnar Strætó mengunarvaldurinn í umferðinni í Reykjavík, ekki fjölskyldubíllinn sem er meira og minna að verða rafvæddur. Í bókun meirihlutans kemur fram að breyta þurfi bæði Aðalskipulagi Reykjavíkur og Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til þess skipulag og fjárfesting í innviðum taki mið af því nýja markmiði að minnka akstur um 15%. Við vitum hvað þetta þýðir. Frekari valdbeitingar til þrenginga gatna til að torvelda aðgengi fjölskyldubílsins.
  • Flokkur fólksins
    Reykjavíkurborg óskaði eftir að fá greiningu EFLU verkfræðistofu á gögnum úr ferðavenjukönnun meðal íbúa borgarinnar.  Efla nefnir reyndar orkuskiptin og rafmagnsbíla í sinni skýrslu en segir að þrátt fyrir að hlutfall rafmagnsbíla eykst þá muni það taka langan tíma að breyta samsetningu bifreiðaflotans og skýrist það af löngum líftíma bíla. Ekkert er minnst á metan bíla. Hraða má  orkuskiptum enn meira ef borgaryfirvöld myndu t.d. liðka enn meira um reglur og bjóða frekari ívilnanir. Því fleiri metan- og rafmagnsbílar sem koma á götuna því minni losun og hvað varðar metani, því meira sem það er nýtt því minna er sóað af því. Beinn eða óbeinn stuðningur frá borgaryfirvöldum til að hvetja fólk til að skipta yfir í rafmagn og metan myndi flýta skiptunum. Fólk væri frekar tilbúið til að skipta ef t.d. það gæti verið visst um að metanverðið haldist óbreytt sem nemur líftíma bíls. Bílum er að fjölga og nú eftir að slakað hefur verið á samkomubanni er umferðin orðin jafn þung og fyrir Covid-19. Allir streyma niður í bæ að morgni og úr bænum síðla dags. Engin umferð er á móti. Starfsstöðvar eru flestar miðsvæðis og á meðan ekki næst jafnvægi milli búsetu og vinnustaða þá leysist umferðarvandinn aldrei fyrir alvöru. 
  • Sósíalistaflokkur, Ísland
    Loftslagsbreytingar eru stærsta vandamálið sem mannkynið þarf að takast á við og mikilvægt er að lönd heimsins taki höndum saman. Það er ljóst að orkuskipti á bílum duga ekki til að ná markmiðum parísarsáttmálans enda er það ljóst að aðeins lítill hluti Reykvíkinga hefur efni á nýjum rafmagnsbílum. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur áherslu á að mestu skiptir að byggja upp góðar, rafvæddar almenningssamgöngur sem mæta þörfum borgarbúa.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Ein veigamesta aðgerðin svo minnka megi losun gróðurhúsaloftegunda í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu verður rafbílavæðing. Þróunin hefur verið jákvæð en henni mætti flýta enn frekar með því að gera borgarbúum auðveldara að nálgast innlenda hreina orkugjafa með heimahleðslu. Almenningssamgöngur verða að vera samkeppnishæfur kostur og áfram þarf að styðja við fjölgun þeirra sem kjósa hjólreiðar sem fararmáta. Mikilvægt verður að jafna borgarskipulag og fjölga stórum vinnustöðum austarlega í borginni, svo fleiri borgarbúar geti sótt vinnu nærri heimili sínu. Jafnframt mætti stuðla að aðgengi fyrir fleiri borgarhverfi að rafskutlum, leiguhjólum og öðrum umhverfisvænum fararmátum. Ekki síður gæti aukin fjarvinna og fjarkennsla dregið talsvert úr eknum kílómetrum og fært okkur nær markmiðum Parísarsamkomulagsins. Ávallt þarf að tryggja frelsi og val um fjölbreytta vistvæna samgöngumáta.
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Loftslagsbreytingar af mannavöldum er eitt af stærstu málum samtímans. Til þess að Ísland geti staðið við alþjóðaskuldbindingar sínar líkt og Parísarsamkomulagið er ljóst að setja þarf metnaðarfyllri markmið um breyttar ferðavenjur þar sem hlutdeild einkabílsins getur ekki vaxið lengur. Fyrir liggur greining á gögnum úr ferðavenjukönnun meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins um hvaða breytingar á ferðavenjum þurfi að koma til ef minnka á losun gróðurhúslofttegunda frá umferð bifreiða um 5% á ári. Niðurstöðurnar sýna að draga þarf úr akstri á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 190 þús. km. á hverjum virkum degi. Það jafngildir um 6,7 km akstri á hvern íbúa á viku. Meðallengd hverrar bílferðar skv. ferðavenjukönnun er 5,4 km og því má álykta að hver íbúi þyrfti að jafnaði að fækka bílferðum um eina til tvær í hverri viku og ferðast þess í stað með vistvænni samgöngumátum. Ljóst er að rafbílavæðing og aukin sparneytni bifreiða er langt frá því að vera nægjanleg til að mæta markmiðum Parísarsamkomulagsins. Þörf er á öðrum aðgerðum sem draga úr akstri til að ná settum markmiðum. Breyta þarf bæði Aðalskipulagi Reykjavíkur og Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til þess skipulag og fjárfesting í innviðum taki mið af því nýja markmiði að minnka akstur um 15%.