18. Göngugötur Laugavegi, Skólavörðustíg og Vegamótastíg,
Síðast Samþykkt á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 69
29. apríl, 2020
Samþykkt
Fyrirspurn
Lagt fram erindi Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 24. apríl 2020 þar sem borin er fram tillaga að göngugötum Laugaveg frá Klapparstíg að Ingólfsstræti, Vegamótastíg frá Laugavegi að Grettisgötu, Skólavörðustíg frá Bergstaðastræti að Laugavegi.
Svar

Samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.Vísað til borgarráðs.

Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Í erindi sem nú er lagt fram af Skrifstofu- og samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 22. apríl 2020 er m.a. vitnað í nýsett umferðarlög frá Alþingin erindinu til stuðnings. En það eru fleiri greinar í þessum nýju lögum sem virðast hafa farið fram hjá viðkomandi. Í 10. gr. sömu laga stendur: Umferð vélknúinna ökutækja um göngugötu er óheimil. Þó er umferð vélknúinna ökutækja akstursþjónustu fatlaðra, handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutninga heimil. ....Síðar: Sveitarfélagi er heimilt að veita íbúum við göngugötu leyfi til aksturs um göngugötu vegna flutnings stærri hluta utan skilgreinds vörulosunartíma við sérstakar aðstæður. Flokkur fólksins hefur margoft bent á að borgarmeirihlutinn ætli sér að breyta rótgrónum verslunargötum borgarinnar í göngugötur allt árið um kring og þar með alfarið hunsa mótmæli rekstraraðila, íbúa ásamt samtökum fatlaðra og aldraðra. Skynsamlegra hefði verið að bíða með þessi mál, nú þegar komum fólks hefur snarfækkað í miðbæinn. Ferðamenn eru ekki á Íslandi núna og verða ekki á næstunni eftir því sem spáð er vegna Covid-19. Þessi tilaga hefði því vel mátt og bíða, hún er vanhugsuð og lögð fram í óþökk fjölda manns. Flokkur fólksins mótmælir að hún sé lögð fram nú.
  • Miðflokkur
    Það er öllum nóg boðið í lokunaráráttu borgarstjóra og meirihlutans. Allar tillögur um að hafa miðbæinn opinn fyrir bílaumferð er hafnað. Til að bíta hausinn af skömminni var akstursstefnu breytt á Laugarveginum. Mikið ákall er frá rekstraraðilum og íbúa að falla frá þeirri ákvörðun. Ekkert er hlustað. Meira að segja er ákall vegna COVID-19 að aðgengið sé gott fyrir fjölskyldubílinn að þessu svæði. Borgarstjóri varð sér algjörlega til skammar þegar hann tók upp á því að fara að blanda sér í ákvarðanir sóttvarnalæknis og landlæknis sem sýnir firringuna sem sá maður er að kljást við. Glerhúsið sem borgarstjóri og meirihlutinn býr í er orðið mjög stórt og bergmálið þar inni algjört.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Vinnubrögð borgaryfirvalda hafa verið ámælisverð þar sem ekkert hefur verið hlustað á sjónarmið hagsmunaaðila og mótmæli þeirra, heldur var þeim boðið upp á eftirásamráð, þegar búið var að taka ákvörðun um varanlega lokun Laugarvegarins. Það er ekki það samráð, sem meirihlutinn lofaði og borgarbúar óska, að haft yrði við þá í öllum lykilákvörðunum. Það kallast svikasamráð en ekki raunverulegt samráð. Rekstur verslana í miðborginni hefur verið þungur undanfarið og tugir rekstaraðila hafa hætt rekstri og nú bætast við neikvæðar efnahagslegar afleiðingar Covid -19 faraldursins. Sú einstrengingslega ákvörðun að loka Laugaveginum fyrir allri bílaumferð allan ársins hring og sú hringavitleysa að breyta akstursstefnu hluta Laugavegarins hafa kallað á enn meiri flótta rekstraraðila. Í stað þess að styðja rekstraraðila í miðbænum við erfiðar aðstæður sem nú eru í samfélaginu vegna Covid-19 hefur borgarstjóri nýtt sér þessa skæðu farsótt með að koma í gegn fyrirætlunum sínum um að fara í enn víðtækari lokanir í miðbænum. Slíkar fyrirætlanir geta gert útslagið um að þeir rekstraraðilar sem enn þreyja þorrann sjái sig nauðbeygða til að skella í lás og hætta rekstri. Án fjölbreytts framboðs verslana á Laugaveginum og götum sem honum tengjast á þessu svæði hefur gatan ekkert gildi og mun innan tíðar verða hráslagalegur minnisvarði um enn ein skipulagsmistök þessa meirihluta. 
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Reynsla síðustu 9 ára af Laugavegi sem göngugötu á sumrin hefur verið góð. Enda hefur það fyrirkomulag notið stuðnings mikils meirihluta borgarbúa ef marka má fjölda kannana sem gerðar hafa verið. Göngugötur er mjög algengar víða um heim. Það hefur nær alls staðar sýnt sig að þær efla mannlíf, minnka mengun og styrkja rekstraraðila. Tillagan er í takt við stefnu meirihlutans í borgarstjórn. Hún byggir á deiliskipulagi Laugavegs sem göngugötu, fyrsti áfangi, samþykkt 18. febrúar 2020. Göturnar verða opnar fyrir akstur vegna vöruafgreiðslu virka daga frá 7.00 til 11.00 og laugardaga frá kl 8.00 til 11.00. Í samræmi við 1.mgr 84. gr umferðarlaga nr. 077/2019 hefur tillagan þegar verið borin undir lögreglu höfuðborgarsvæðisins sem hefur samþykkt hana.