Vogabyggð svæði 5, breyting á deiliskipulagi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 120
10. nóvember, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Vogabyggðar svæði 5. Breytingin felst í því að smábátahöfn Snarfara er stækkuð og dýpkuð. Hluti hafnargarðs, sem liggur í austur-vesturstefnu er fjarlægður og hafnargarður sem liggur í norður-suðurstefnu er lengdur til norðurs. Flotbryggjur lengjast og bátastæðum fjölgar úr 152 í 250. Lóð smábátahafnar á landi stækkar sem nemur láréttu svæði hafnargarðs, samkvæmt uppdr. Teiknistofu Traðar dags. 29. september 2021. Einnig er lögð fram greinargerð og skilmálar, útgáfa 03 dags. 29. september 2021, þar sem lagt er til að greinargerð og skilmálar fyrir allt skipulagssvæðið verði uppfærðir í heild samhliða breytingu á deiliskipulagi.
Svar

Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til borgarráðs.

Gestir
Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Sjálfstæðisflokkur
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Skipulags- og samgönguráði leggja ríka áherslu á að fullt samráð verði haft við Hafrannsóknarstofnun og Veiðimálastofnun vegna lengingar á hafnargarði við smábátahöfninni í Elliðaárvogi með tilliti til áhrifa á laxagengd í Elliðaánum.
  • Flokkur fólksins
    Skipulagsyfirvöld kynna breytingar sem felast m.a. í að stækka og dýpka smábátahöfn og ýmist fjarlægja, stækka eða lengja  hafnargarða. Ef horft er til náttúru og náttúrulegs umhverfis þá er verið að skerða þetta strandsvæði og umhverfi árósa smátt og smátt. Þessi svæði eru einna mikilvægustu hlutar af náttúru við Reykjavík. Ferill skipulagsyfirvalda er að skerða lítið í einu, einingar sem ekki er tekið eftir  en að lokum verður umhverfið allt annað en náttúrulegt. “Lítil” landfylling hér og þar, aðeins fleiri bryggjur o.s.frv. en að lokum er allt umhverfið manngert og þá  er vísast sagt að planta eigi í einhver beð og það stuðli að líffræðilegri fjölbreytni og náttúran megi vel við una. Fram kemur sem mótrök frá skipulagsyfirvöldum að þetta sé manngert fyrir og með þessu sé verið að auka og bæta aðgengi til útivistar.