Heklureitur, nýtt deilisskipulag
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 109
30. júní, 2021
Vísað til borgarráðs
2. fundarliður
3. fundarliður ›
Fyrirspurn
Lögð er fram tillaga Yrki arkitekta ehf. dags. 16. júní 2021 að deiliskipulagi fyrir Heklureit, nánar tiltekið lóðirnar við Laugaveg 168-174a. Í tillögunni eru settar fram skipulagslegar heimildir fyrir íbúðir, atvinnustarfsemi og gististarfsemi. Gert er ráð fyrir að allar byggingar á lóð Laugavegs 168 til 174a verði fjarlægðar að undanskyldu borholuhúsi. Byggðin er mótuð með tilliti til landslags, sólargangs og veðurfars. Byggðin rís hæst til norðurs við Laugaveg og er lægst til suðurs við Brautarholt. Um er að ræða íbúðarhús, 2ja til 7 hæða, með möguleika á 8. hæð á norðvesturhorni Laugavegs 168 á reit A skv. fyrirliggjandi skipulagstillögu. Byggingarnar skulu vera stallaðar með ríku tilliti til sólarátta og byggð skipulögð þannig að miðlægur inngarður sé í góðu skjóli fyrir veðri og vindum við allar byggingar. Gert er ráð fyrir sérafnotaflötum fyrir íbúðir á jarðhæðum og svölum á efri hæðum. Á skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir allt að 463 íbúðum með verslun og þjónustu á 1. hæð. Heildar flatarmál ofanjarðar á lóðunum er 46.474 m2. Þar af eru að hámarki 44.351 m2 undir íbúðir og lágmark 2.123 m2 undir verslanir og þjónustu. Einnig lögð fram Húsakönnun Borgarsögusafns dags. 2017 og umhverfismat áætlana dags. febrúar 2018.
Svar

Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Ásdís Helga Ágústsdóttir og Gunnar Ágústsson frá YRKI arkitektar og Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Með tillögunum er lagt til að stór opin bílastæði víki fyrir byggð. Skipulagið gerir ráð fyrir 463 íbúðum, atvinnu- og gististarfsemi og þjónustu á jarðhæðum. Í inngörðum verður lögð áhersla hlýlegt og vistvænt yfirbragð. Við fögnum þéttingu byggðar á Heklureit.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Það er jákvætt að hreyfing sé komin á uppbygginu við Heklureit. Í deiliskipulagstillögunni er borgarlínu sýnd í miðju vegarins sem er umdeild lega sem myndi takmarka möguleika umferðar, ljóst er að hún verður mun meiri með 463 nýjum íbúðum á svæðinu.
  • Miðflokkur
    Áætlað er að á Heklureitnum komi rúmar 460 íbúðir ásamt tveimur hótelum. Einungis er gert ráð fyrir 375 bílastæðum. Það er allt, allt og lítið. Viðskiptavinir hótelanna eru ferðamenn innlendir og erlendir sem koma á bílum á hótelin. Í uppsiglingu er umferðarsulta sem er alveg fyrirséð. Það er mikið ábyrðarleysi af borginni að skipuleggja reiti með þessum augljósu göllum. Varað er við að Laugavegsmegin virki byggðin eins og múr þar sem reiknað er með 7 hæðum og á einum stað 8 hæðir. Bent er á að ekki er búið að finna framtíðarstað fyrir bílaumboðið Heklu þrátt fyrir þessi stórkostlegu uppbyggingaráform.