Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Nýi Skerjafj. Breytt landnotkun,breyting á aðalskipulagi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 95
10. febrúar, 2021
Samþykkt
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs dags. í júní 2020, síðast uppfærð 11. desember 2020 að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Tillögunni fylgir umhverfisskýrsla. Breytingartillagan nær til landsvæðis vestan núverandi íbúðarbyggðar í Skerjafirði og varðar meðal annars breytta landnotkun, fjölgun íbúða, breytta legu stíga og breytt umfang fyrirhugaðrar landfyllingar. Einnig er lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 31. ágúst 2020. Tillagan var auglýst frá 16. september 2020 til og með 28. október 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Mosfellsbær dags. 28. september 2020, Kópavogsbær dags. 8. október 2020, Seltjarnarnesbær dags. 15. október 2020, Vegagerðin dags. 15. október 2020, Umhverfisstofnun dags. 16. október 2020, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dags. 21. október 2020, Eyjólfur Gunnarsson, Margrét Gunnarsdóttir, Gunnar Trausti Eyjólfsson, Atli Már Eyjólfsson og Magnús Daði Eyjólfsson dags. 27. október 2020, Anna S. Haraldsdóttir dags. 28. október 2020, Náttúrufræðistofnun Íslands dags. 28. október 2020, Hildur Hjartardóttir og Sigurður Jens Sæmundsson dags. 28. október 2020, Jens Pétur Jensen dags. 28. október 2020, Guðjón Haraldsson dags. 28. október 2020, Daníel B. Sigurgeirsson, Elín Björk Jónasdóttir, Sigurdís Björg Jónasdóttir og Birgir Arnór Birgisson dags. 28. október 2020, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir dags. 28. október 2020 og Sigríður Ragna Sigurðardóttir dags. 28. október 2020. Einnig er lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 21. desember 2020 ásamt ákvörðun um matsskyldu vegna Landfyllingar í Nýja Skerjafirði og umsögn umhverfis- og skipulagssviðs dags. 11. desember 2020.
Svar

Samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs dags. 11. desember 2020, sbr. 1. og 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds greiðir atkvæði gegn. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir sitja hjá.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Með aðalskipulagsbreytingu sem tekur til nýs Skerjafjarðar er útfært markmið um að skapa sjálfbæra, blandaða íbúðarbyggð í Skerjafirði með grænu yfirbragði. Breytingin er forsenda þess að öflugur hverfiskjarni og grunnskóli verði í hverfinu og með henni er núverandi byggð styrkt til muna. Tenging nýja Skerjafjarðar við atvinnukjarna, háskóla og vistvæna samgöngumáta gerir hann að eftirsóknarverðum stað til að búa á. Í breytingunni er dregið verulega úr umfangi landfyllingar og fyrirhugaðrar smábátahafnar og er landfyllingin færð út fyrir skilgreint hverfisverndarsvæði við Ægisíðu. Beðið verður með skipulagsvinnu við síðari áfanga uppbyggingar (þ.e. útfærslu deiliskipulags) í Skerjafirði þar til yfirstandandi umhverfismatsferli við landfyllingu er lokið en fyrri áfangi er óháður landfyllingu. Tekið er fram að niðurstaða umhverfismats geti haft þau áhrif að breytingu þurfi að gera á ný á aðalskipulagi vegna frekari minnkunar landfyllingar eða breyttrar afmörkunar hennar. Byggingarmagn breytist einnig óverulega miðað við gildandi aðalskipulag en heildar byggingarmagn íbúðarhúsnæðis eykst á kostnað atvinnuhúsnæðis.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ótímabært að tekin sé endanlega ákvörðun um nýja byggð í Skerjafirði þar sem ýmsum rannsóknum og álitamálum er ólokið. Í fyrsta lagi eru áformaðar landfyllingar komnar í umhverfismat sem er ólokið og því algerlega óvissa um stærð skipulagssvæðisins og þar með fjölda íbúða og íbúa. Þá er Náttúrufræðistofnun með það til skoðunar að strandlengjan við Skerjafjörð verði friðuð í samræmi við samþykkt Alþingis frá 2004. Í öðru lagi hefur Vegagerðin óskað eftir að fram fari heildrænt samgöngumat en því er enn ólokið, en gert er ráð fyrir þreföldun íbúa í hverfinu með tilheyrandi álagi á umferð.
  • Miðflokkur
    Hér er verið að breyta aðalskipulagi í hinum svokallaða „Nýja Skerjafirði“. Málið er keyrt áfram af fullum þunga þrátt fyrir fjöldamargar athugasemdir. Margt er enn á huldu um þetta svæði s.s. lögmætt gildi landfyllingar sem nú er í umhverfismati. Ekkert tillit er tekið til öryggishlutverks Flugvallarins í Vatnsmýrinni en ljóst er að hann er ekki á förum. Umferðarmál eru óleyst. Alþingi samþykkti árið 2004 að stefnt skuli að friðlýsingu fjöru og grunnsævis Skerjafjarðar og hefur Náttúrufræðistofnun áréttað þær hugmyndir. Hafrannsóknarstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafa allar í umsögnum til Reykjavíkurborgar undirstrikað verndargildi fjörunnar. Það er alveg ljóst að ef farið verður í þessar framkvæmdir eiga þær eftir að hafa mikinn umferðarþunga í för með sér sem hlýst af stórum vörubílum og steypubílum, bæði keyrslu í landfyllingu og ekki síður á uppbyggingartíma. Minnt er á að olíumengun er í jörð á þessu svæði og sú dælustöð sem nú er á svæðinu ræður ekki við hlutverk sitt og ljóst er að byggja þarf nýja. Engin áform hafa verið birt hvar ný dælustöð á að vera. Að auki er nú þegar búið að úthluta lóðum á þessu svæði og er það algjörlega fáheyrt.
  • Flokkur fólksins
    Í athugasemdum kemur fram andstaða við fyrirhugaða landfyllingu. Flokkur fólksins leggur til að hætt verði alfarið við landfyllingar í borginni þegar á að gera eitthvað á ströndinni. Hér á eftir eru dæmi úr umsögnum sem sýna að fjölmargir eru á sama máli: “ Fjaran er hvorki einkamál né einkaeign okkar mannanna, heldur er hún er búsvæði dýra um aldur og ævi”. ”Af hverju ætti þá að vera í lagi fyrir borgaryfirvöld að leggja út í framkvæmd af þessari stærðargráðu án þess að gefa íbúum tækifæri á að hafa um það að segja?” “Að mati Náttúrufræðistofnunar er það ekki ásættanlegt að landfylling í Skerjafirði sé eini valkosturinn fyrir þéttingu byggðar eða losun á efni. Það er því mat Náttúrufræðistofnunar að vel megi þétta byggð þó ekki sé um leið gengið enn frekar á fjörur og lífríki þeirra í Reykjavík“. Ef markmið með þéttingu byggðar, Nýja Skerjafjarðar, er eyðilegging núverandi Skerjafjarðar þá þarf að hugsa skipulagsmál á svæðinu upp á nýtt.  Að mati Náttúrufræðistofnunar er landfylling vestan við flugvöllinn óþörf með öllu þegar og ef flugvöllurinn verður lagður niður. “Umhverfisstofnun gerir verulegar athugasemdir við áformaða landfyllingu. Raska á sem minnst náttúrulegri strandlengju. Minnt er á að Skerjafjörður er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.”