Rauðhólar, nýtt deiliskipulag
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 68
15. apríl, 2020
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Lögð er fram lýsing skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi fyrir Rauðhóla, dags. 30. mars 2020. Um er að ræða Rauðhóla sem hafa verið friðlýstir sem fólkvangur síðan 1974, ásamt aðliggjandi svæði í kringum Heiðmerkurveg yfir brúnna að Helluvatni. Helstu viðfangsefni og meginmarkmið fyrir deiliskipulagið koma fram í lýsingunni, en m.a. er lagt til að skilgreina aðalleiðir gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarenda um svæðið o.fl.
Svar

Samþykkt er að kynna lýsingu að deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Minjastofnun Íslands, Borgarsögusafni Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Framkvæmdastjórn um Vatnsvernd Höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðinni, Hestamannafélagi Fáks, Íbúðaráði Árbæjar og Norðlingaholts, OR/Veitum, Skóræktarfélagi Reykjavíkur og einnig kynna hana fyrir almenningi. Vísað til borgarráðs.

Gestir
Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Í tengslum við skipulagningu Rauðhólasvæðisins tekur Flokkur fólksins undir það mat og álit skipulagsfulltrúa að Rauðhólar eigi að tilheyra Reykjavíkurborg en ekki Orkuveitunni. Þar sem borgin er nú að skipuleggja svæðið um Rauðhóla þá ætti svæðið að heyra undir borgina en ekki Orkuveituna. Þegar Hólarnir voru friðaðir sem fólkvangur árið 1974 átti Reykjavíkurborg jörðina Elliðavatn og þar með Rauðhóla, en þegar Orkuveitan var stofnuð þá rann jörðin Elliðavatn inn í eignasamsteypu þess og sá hluti Heiðmerkur sem tilheyrði Elliðavatni ásamt Rauðhólum var því ekki lengur eign borgarinnar. Auðvitað eiga Rauðhólar frekar að vera eign borgarinnar en Orkuveitunnar. Borgin ber allan kostnað af rekstri og umsjón og því ekki eðlilegt að svæðið sé eign Orkuveitunnar. Flokkur fólksins styður jafnframt það samkomulag sem er á milli borgainnar og Skóræktarfélags Reykjavíkur vegna reglulegs eftirlits með Rauðhólasvæðinu.