Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, borgarlína, breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna borgarlínu milli Ártúnshöfða og Hamraborg
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 94
3. febrúar, 2021
Annað
Fyrirspurn
Að lokinni kynningu eru lögð fram að nýju drög að tillögu og umhverfisskýrsla ásamt verk- og matslýsingu Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar dags. í febrúar 2020 vegna breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna fyrstu lotu Borgarlínu, sem liggur á milli Ártúnshöfða í Reykjavík og Hamraborgar í Kópavogi. Kynning stóð yfir frá 7. apríl 2020 til og með 9. maí 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Þorsteinn Sæmundsson og Berglind Ásgeirsdóttir dags. 7. maí 2020, Samtök um betri byggð dags. 8. maí 2020, Háskóli Íslands dags. 27. maí 2020, Skipulagsstofnun dags. 4. júní 2020, Vísindagarðar Háskóla Íslands dags. 9. maí 2020, Skipulagsstofnun dags. 4. júní 2020, Réttur - Aðalsteinsson & Partners ehf. f.h. Barnavinafélagsins Sumargjöf ehf. dags. 9. júní 2020, Íbúasamtök Vesturbæjar dags. 10. júní 2020, Náttúrufræðistofnun Íslands dags. 10. júní 2020, Vegagerðin dags. 16. júní 2020, Minjastofnun Íslands dags. 14. júlí 2020. 
Svar

Samþykkt að drögin fari í forkynningu sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Gestir
Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags, Hrafnkell Á. Proppé verkefnastjóri Borgarlínunnar og Stefán Gunnar Thors frá VSÓ Ráðgjöf taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Borgarlínan er öflugt hraðvagnakerfi sem tengir byggð höfuðborgarsvæðisins saman með tíðum ferðum og háu þjónustustigi. Hún verður byggð upp í sérrými til að greiða fyrir umferð og lágmarka tafir. Hún er grundvöllur þess að sveitarfélögin geti þétt byggð í miðkjörnum og vaxið án þess að brjóta nýtt land undir byggð utan skilgreindra vaxtarmarka og skapa mikla umferð. Borgarlínan verður drifkraftur sem knýr höfuðborgarsvæðið í átt að sjálfbæru kolefnislausu borgarsamfélagi. Fyrsta lota borgarlínunnar liggur milli Ártúnshöfða í Reykjavík og Hamraborgar í Kópavogi. Fyrirhugaðar aðalskipulagsbreytingar fjalla um legu borgarlínunnar, staðsetningu kjarnastöðva og breytingar á Sæbraut og Miklubraut í Reykjavík.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Mikilvægt er að tryggja samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu og er samgöngusáttmálinn viðleitni til þess. Flestir eru sammála um að ráðast þurfi í fjárfestingar í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu, bæði efla vegakerfið og almenningssamgöngur. Útfærslan skiptir miklu máli, en enn hafa frumdrög að fyrsta áfanga borgarlínu ekki verið kynnt opinberlega. Vegagerðin bendir á í umsögn sinni við þessa kynningar- og samráðsáætlun að ekki megi skerða afkastagetu stofnvegakerfisins. Sömu ábendingar er að finna í meirihlutaáliti samgöngunefndar vegna samgönguáætlunar og eru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sammála þeim fyrirvara.
  • Miðflokkur
    Allt í sambandi við þessa svokölluðu borgarlínu er í þoku. Verkefnið er stefnulaust og áttavillt. Hér eru til umræðu breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna borgarlínu milli Ártúnshöfða og Hamraborgar. Eggið er komið á undan hænunni í þessu máli. Málið er í mikilli þoku og lýsir draumsýn á margra tugi milljarða fjárútlát sem búið er að sýna fram á að ekki eru þjóðhagslega hagkvæm. Framkvæmdirnar eiga eftir að valda gríðarlegu raski á þeim íbúðasvæðum sem áætlað er að borgarlínan liggi m.a. með stokkalausnum og fleiru.
  • Flokkur fólksins
    Ekki allir geta búið við borgarlínustöðvarnar þótt þétta eigi byggð þar hvað mest. Samt er, í  skýrslunni, sem lögð er fram hér gert ráð fyrir að helmingur ferða borgarbúa 2050 verði með almenningssamgöngum. Þessu er sennilega ómögulegt að spá fyrir um. Gera þarf ráð fyrir stæði við borgarlínustöðvar þar sem fólk getur geymt bíla sína og önnur farartæki ætli það sér að nota borgarlínu. Hagkvæmt kann að vera að gera gott brauta- og stígakerfi fyrir önnur samgöngutæki og samtengja við borgarlínukerfið og bjóða upp á að lítil einstaklingsfarartæki megi flytja með borgarlínuvögnum. Tryggja þarf að allir sem vilja geti komist auðveldlega að borgarlínustöðvum.  Af öðru, það hljómar sérkennilega þegar talað er um hágæðakerfi vs. gæðakerfi án þess að tíundaður sé hver munurinn er nákvæmlega. Hvað kostar hágæðakerfi í samanburði við gæðakerfi og hvað er fengið meira með hágæðakerfi sem réttlætir aukinn kostnað?  Við erum varla að byggja upp kerfi sem er t.d. sambærilegt við ,,metro” kerfi í Kaupmannahöfn? Borgarlína er b.s. (byggðasamlög) verkefni með öllum göllum þess kerfis og Reykjavík þarf að gæta sín í slíku kerfi. Ástæðan, hlutur borgarinnar er rýr í stjórnun en rík í fjárhagslegri ábyrgð. Sporin hræða.