Hringbraut 116, Bykoreitur, breyting á deiliskipulagi
Hringbraut (01.138.2)
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 65
4. mars, 2020
Annað
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Plúsarkitekta ehf. dags 27. júní 2019 varðandi breytingu á deiliskipulagi Byko reitar á lóðinni nr. 77 við Sólvallagötu og nr. 116 við Hringbraut. Breytingin felst í hækkun hámarksfjölda íbúða úr 70 íbúðum í 84, inn- og útkeyrsla í bílakjallara heimiluð frá Hringbraut en engin útkeyrsla við Sólvallagötu, svalir megi ná út fyrir lóðarmörk byggingu sem stendur við Hringbraut, samkvæmt uppdráttum Plúsarkitekta ehf. dags 27. júní 2019, br. 26. febrúar 2020. Einnig er lögð fram hljóðsvistarskýrsla Eflu dags. 17. apríl 2019 og minnisblað EFLU dags. 7. ágúst 2019 um áhrif á samgöngur. Tillagan var auglýst frá 10. september 2019 til og með 31. október 2019. Eftirtaldir aðilar sendu athugasemdir: Ólafur Hauksson dags. 22. september 2019, Sigríður Erla Jóhönnudóttir dags. 22. október 2019, Erla Björk Baldursdóttir dags. 22. október 2019, Margrét Einarsdóttir skólastjóri f.h. skólaráðs Vesturbæjarskóla dags. 29. október 2019 og Íbúasamtök Vesturbæjar dags. 31. október 2019. Einnig er lögð fram umsögn Vegagerðarinnar dags. 2. desember 2019 og umsögn skipulagsfulltrúa dags. 10. janúar 2020.  Samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 10. janúar 2020. Vísað til borgarráðs.
Gestir
Birkir Ingibjartsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Miðflokkur
    Lýst er yfir miklum áhyggjum að þessari uppbyggingu hvað varðar umferðarmál. Nú þegar er hættulegt ástand á Hringbraut hvað varðar þverun og nákvæmlega enginn vilji til að breyta því. Minnt er á að Hringbrautin er þjóðvegur fyrir íbúa Seltjarnarness út úr bæjarfélaginu. Á þessum reit var áætlað að byggja upp hótel en frá þeim áformum hefur nú verið fallið og þess í stað á að fjölga íbúðum á reitnum um 20% - úr 70 í 84. Það þýðir að bílum fjölgar mjög á þessu svæði og eykst þá umferðin á Hringbraut enn frekar. Andvaraleysi borgarinnar og Vegagerðarinnar vegna Hringbrautar er fordæmalaus en fram hefur komið viljaleysi borgarinnar til að bæta úr umferðarmálum á þessu svæði.
  • Flokkur fólksins
    Fram kemur í kynningu að ekki sé verið að auka byggingarmagn og ekki eigi að hækka byggingar á Byko reitnum. Þær athugasemdir sem hafa borist eru margar mjög verðugar að skoða og snúa m.a. að öryggi og vindmælingum. Flokkur fólksins fagnar því að skoða á nánar áhrif af formi húsa við endurgerð þessa svæðis með tilliti til vindsveipa. Mikilvægt er að prófa mismunandi gerðir bygginga í líkantilraunum í vindgöngum enda skipta form húsa miklu máli þegar spurning er hversu mikinn vind þau draga niður að jörðu. Öll vitum við að ekki tókst nógu vel til með Höfðatorgið en þar eru vindsveipir stundum hættulega sterkir líklega vegna þess að lögun bygginga dregur vind niður að jörðu. Hvað varðar öryggisþáttinn þá hefur Hringbrautin mjög lengi verið ein af þeim götum þar sem gangandi og hjólandi vegfarendum er hætta búinn. Flokkur fólksins vonar að öryggisþátturinn á þessu svæði verði skoðaður ofan í smæstu öreindir.
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Breytingin felur í sér óverulegar breytingar á gildandi deiliskipulagi. Uppbygging á reitnum fellur vel að stefnu Aðalskipulagsis Reykjavíkur um þéttingu byggðar. Heimild til hóteluppbyggingar er tekin út og í staðinn gert ráð fyrir fleiri íbúðum. Varðandi umræðu um umferðarflæði á hringtorginu sem liggur að reitnum þá er stefnt á að hefja greiningavinnu á svæðinu og hvaða rými þarf undir þær samgöngur. Er stefnt að því að sú greiningarvinna verði í samvinnu við Vegagerðina og fari fram strax á fyrri hluta þessa árs.