Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 94
3. febrúar, 2021
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, ásamt umhverfisskýrslu sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 með megin áherslu á stefnu um íbúðarbyggð og tengsl húsnæðisuppbyggingar og fyrirhugaðrar Borgarlínu. Eftirfarandi gögn eru lögð fram:
Svar

a. Reykjavík 2040. Nýr viðauki við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, dags. í janúar 2021, þar sem lýst er megin forsendum  breytingartillagna og framlengingu skipulagstímabils og sett fram ný bindandi megin markmið, sem bætast við gildandi aðalskipulag.

Gestir
Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Aðalskipulagið 2010-2030 markaði tímamót í skipulagssögu borgarinnar. Horfið var frá bílmiðuðum hugmyndum seinustu aldar og stefnan sett á þétta, mannvæna, nútímalega borgarbyggð þar sem virkir samgöngumátar eru í fyrirrúmi. Með tillögunum nú er lagt til að aðalskipulagið sé framlengt og uppfært til ársins 2040. Ný viðmið eru sett um þéttleika, gæði og yfirbragð byggðar og skipulagið fléttað við húsnæðisáætlun og loftslagsstefnu borgarinnar. Rými er skapað fyrir Borgarlínu og stokka. Hér er áfram er haldið á braut sjálfbærar borgarþróunar og áhersla lögð á þéttingu byggðar innan vaxtarmarka. Við styðjum þessar tillögur heilshugar.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Nýr viðauki við aðalskipulag Reykjavíkur gildir til 2040, eða tíu árum lengur en núgildandi aðalskipulag. Aðalskipulagið er samtvinnað húsnæðisstefnu og því nauðsynlegt að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Ef spá varðandi kröftugan vöxt rætist er þörf borgarinnar metinn 1.210 íbúðir ári til 2040, eða 24.200 íbúðir. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug, hvorki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ reit sem þó er í hugmyndasamkeppni. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til húsnæðisuppbyggingar. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4.000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru nú. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar, bæði hvað varðar fjölda íbúða, en þó sérstaklega hvað varðar byggingu á hagkvæmum byggingarreitum. Tillagan gerir ekki ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar notkunarheimildir atvinnuhúsnæðis. Undanfarin ár hafa sýnt hversu mikið getur breyst á stuttum tíma. Sú leið að hafa starfsemiskvóta takmarkar notkunarmöguleika atvinnuhúsnæðis, ekki síst á jarðhæðum. Af þessum sökum öllum leggjumst við gegn þessum viðauka.
  • Miðflokkur
    Kynnt var á fundinum voru kynnar breytingar á aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040 og eru leiðarljós stefnunnar þessi: Íbúðarbyggð og blönduð byggð rísi innan vaxtarmarka til ársins 2040. 80% nýrra íbúða til 2040 verði innan áhrifasvæðis Borgarlínu og 80% nýrra íbúða verði í grennd við öflugan atvinnukjarna. Minnst 90% nýrra íbúða rísi á röskuðum eða þegar byggðum svæðum og ekki verði gengið á opin svæði með hátt náttúrufars- og /eða útivistargildi. Yfir 90% starfa í Reykjavík verði innan vaxtarmarka árið 2040 og 80% nýrra starfa til ársins 2040 verði við Borgarlínu. Hér er verið að boða massíva þrengingarstefnu sem flestir sjá að ekki gengur upp. Ljóst er að ef 80% nýrra íbúða verði á áhrifasvæði svokallaðrar borgarlínu þá þýðir það rosalega röskun í rótgrónum hverfum með tilheyrandi álagi á umhverfið og íbúana. Það er sláandi að ekki er gert ráð fyrir frekari úthlutun lóða í úthverfum Reykjavíkur þar sem möguleiki væri á stórkostlegri uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Mjög miklar líkur eru á að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er ekki á förum næstu áratugi en samt er gert ráð fyrir 4.000 íbúða byggð þar í þessum áformum. Því má segja að þessar breytingar byggi á mjög veikum grunni.
  • Flokkur fólksins
    Fram kemur í gögnum að reynt verði að  setja ,,fyrstu kaupendur"  -ungt fólk- í forgang við uppbyggingu húsnæðis við borgarlínuna. En þeir geta auðvitað selt eign sína. Ætlar borgin að skipta sér af því? Eru ekki allar íbúðir á opnum markaði? Í umhverfisskýrslu segir frá fjörufyllingum en fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á að friða fjörur í stað þess að notast við landfyllingu þegar eitthvað á að gera við ströndina. Hjólastígar: Lítið þýðir að tala um hjólastíga sem samgönguæð ef þeim er ekki haldið við og vetrarþjónustu sinnt. Hugtakið líffræðileg fjölbreytni er misnotað í skýrslunni.  Líf í einstökum beðum eða “grænum trefli”  hefur ekkert með líffræðilega fjölbreytni að gera. Í Skýrslunni er hins vegar gert lítið úr áhrifum af stórfelldum landfyllingum við ósa Elliðaánna. Kolefnisspor:   Í umhverfisskýrslunni segir:“Vistferilsgreiningar unnar hjá VSÓ Ráðgjöf sýna að kolefnisspor bygginga lækkar um 40% með því að velja timbur í stað steinsteypu” Er þetta ekki einföldun? Steinsteypa endist í áraraðir, en timburbyggingar endast ekki lengi í röku loftslagi nema að þær verði fúavarðar. Til þess þarf eiturefni og þau þarf að taka með í reikninginn. Ef á að kolefnisjafna er hægt að rækta skóg á óbyggðum austursvæðum. Planta mætti langleiðina upp í Bláfjöll og Hengil.