Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 10 mánuðum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 116
6. október, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, endurskoðun stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og tæknileg uppfærsla Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040. Eftirfarandi eru gögn sem fylgja málinu og eru hér lögð fram; 1. Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Megin markmið um þróun byggðar og bindandi ákvæði um landnotkun, byggingarmagn, þéttleika og yfirbragð byggðar, grænt hefti, tillaga, dagsett maí 2021, uppfærð október 2021.  2. Þéttbýlisuppdráttur, 1:20.000, tillaga maí 2021, uppfærður október 2021. 3. Sveitarfélagsuppdráttur, 1: 50.000, tillaga, maí 2021, uppfærður október 2021. 4. Umhverfisskýrsla: Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Endurskoðuð stefna um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlenging skipulagstímabils til 2040 (B3), maí 2021, VSÓ-ráðgjöf, uppfærð september 2021. 5. Reykjavík 2040. Lýsing helstu breytinga og forsendur (B1), blátt hefti,  maí 2021. 6. Forsendur og áherslur sem samþykktar voru með AR2010-2030. Ítarefni og skýringargögn (B2). Kaflar merktir  B2. Borgin við Sundin, B2. Skapandi borg, B2. Græna borgin, B2. Vistvænni samgöngur, B2. Borg fyrir fólk og B2. Miðborgin.  7. Skipulagsstofnun, umsögn dagsett 20, maí 2021. 8. Athugasemdir sem bárust á kynningartíma 9. Yfirlit athugasemda og svör við þeim - umsögn Umhverfis- og skipulagssviðs, dagsett 4. október 2021.
Svar

Aðalskipulag Reykjavíkur, 2040, tillaga samþykkt sbr. 32. gr. skipulagslaga, ásamt umhverfisskýrslu ,  sbr.  lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana (sbr. einnig lög nr. 111/2021), umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dagsett 4. október 2021 og öðrum fylgiskjölum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 
Bókanir og gagnbókanir
 • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
  Með tillögunum nú er lagt til að hið sögulega Aðalskipulag 2010-2030 verði framlengt og uppfært til ársins 2040. Ný viðmið eru sett um þéttleika, gæði og yfirbragð byggðar og skipulagið fléttað við húsnæðisáætlun og loftslagsstefnu borgarinnar. Rými er skapað fyrir Borgarlínu og stokka. Frá auglýsingatíma hafa verið gerðar þær breytingar að hæð bygginga Mjódd er nú miðuð við 4-7 hæðir. Rétt er að árétta að í breyttum ákvæðum hæðastefnunnar er nú undirstrikað að aðeins stakar byggingar geti notið hámarksheimilda og sett eru ákveðnari kröfur um gæði við hönnun, m.t.t. sólríkra dvalarsvæða og almenningsrýma. Eðlilegt er að við mótun byggðar verði leitast við að skala byggðina niður næst hinni lágreistu íbúðarbyggð og lágmarka þannig skuggavarp. Hnykkt er á ákvæðum sem heimila endurnýjun starfsleyfis þegar gildistími starfsleyfis er innan tímamarka gildandi skipulagstímabils og uppbygging samkvæmt framtíðar landnotkun ekki hafin. Aðrar breytingar eru tæknilegs eðlis. Hér er áfram haldið á braut sjálfbærrar borgarþróunar og áhersla lögð á þéttingu byggðar innan vaxtarmarka.
 • Sjálfstæðisflokkur
  Aðalskipulag til 2040 er gallað. Ekki síst í húsnæðismálum. Nauðsynlegt er að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Árleg þörf er talin að lágmarki 1.200 íbúðir á ári til 2040. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram vera undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug. Ekki er gert ráð fyrir uppbyggingu á Geldinganesi og möguleikar lítið nýttir á Kjalarnesi. Ekki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ reit. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til fjölbreyttrar húsnæðisuppbyggingar og óvissa er um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4.000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á þúsundir íbúða. Gengið er á græn svæði og er gert ráð fyrir fjögurra hæða húsum efst í Laugardalnum upp á 30.000 m2 (á reit M2g). Tillagan gerir ekki ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar notkunarheimildir atvinnuhúsnæðis. Þá er þrengt verulega að þróunarmöguleikum Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Af þessum sökum og öðrum leggjumst við gegn aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040.
 • Miðflokkur
  Verið er að breyta aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040 og eru leiðarljós stefnunnar þessi: Íbúðarbyggð og blönduð byggð rísi innan vaxtarmarka til ársins 2040. 80% nýrra íbúða til 2040 verði innan áhrifasvæðis borgarlínu og 80% nýrra íbúða verði í grennd við öflugan atvinnukjarna. Minnst 90% nýrra íbúða rísi á röskuðum eða þegar byggðum svæðum. Með öðrum orðum – boðuð er róttæk óumhverfisvæn þrengingastefna. Flugvöllurinn er ekki á leiðinni úr Vatnsmýrinni næstu áratugina en samt er gert ráð fyrir 4.000 íbúða byggð þar. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar frá Vegagerðinni s.s. að ekki sé nægileg grein fyrir öllum nauðsynlegum breytingum á samgöngumannvirkjum sem tengjast samgöngusáttmálanum s.s. gatnamót Reykjanesbrautar við Bústaðaveg svo og útfærslur gatnamóta í tengslum við stokka sem merktir eru sem jarðgöng á aðalskipulagsuppdrætti við Sæbraut og Miklubraut. Vegagerðin bendir jafnframt á að í samgöngusáttmálanum komi jafnframt fram að sveitarfélögin skuli huga að greiðri tengingu Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðsins og að skipulag aðliggjandi svæða taki mið af legu Sundabrautar á skipulagstímabilinu.
 • Flokkur fólksins
  Hér er lagt fram Aðalskipulag Reykjavíkur, endurskoðuð stefna. Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir vanda því ekki er nóg byggt. Vandinn er að lóðir vantar. Ekki hafa verið færri íbúðir á markaði í Reykjavík frá 2017. Brjóta  þyrfti land í Reykjavík undir byggð segir Seðlabankastjóri. Áform um að koma húsaskjóli yfir alla þá sem vilja búa í Reykjavík hefur mistekist.  Vandamálið er það vantar ábyrgð og yfirsýn meirihlutans og embættismanna og er skipulagsmálum borgarinnar undir verkstjórn borgarstjóra kennt um. Borgarkerfið, umsóknarferlið er þess utan langt og óskilvirkt.  Árið 2019 voru um 5000 íbúðir í byggingu en nú eru aðeins 3400 íbúðir í byggingu. Ekki dugar bara að þétta á einum bletti.  Byggja þarf víðar, sjálfbær hverfi þar sem fólk vill byggja og búa.  Það er miður er að sjá að byggingar við strandlengju skyggja á heilu hverfin.  Áhyggjur eru af þéttingu byggðar í Vesturbæ og að borgarlína muni ekki þjóna hverfinu vel. Fyllt verður í flestar fjörur. Gleymt er að gera ráð fyrir innviðum, lóðum fyrir skóla. í Laugarnesi  liggur ekki fyrir þarfagreining um skólamál sem skoða átti í sumar. Framtíðarskólaúrræði þar eru í óvissu. Ekki er heldur hægt að sjá eins og lofað var að atvinnutækifæri væru í hverfum. Mikið skortir á sjálfbærni í hverfum sbr. í Úlfarsárdal.