Hlemmur, reitur 1.240.0, nýtt deiliskipulag
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Aðilar sem vísað er í
Málsaðilar
Skipulags- og samgönguráð nr. 66
11. mars, 2020
Annað
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að nýju deiliskipulagi fyrir reit 1.240.0, Hlemmur. Skipulagið felur í sér endurskipulagningu svæðisins fyrir forgangsakreinar hágæða almenningssamgangna, ný gatnamót við Snorrabraut/Bríetartún, nýtt torg og göngugötur, afmörkun byggingarreits fyrir flutningshúsið Norðurpól og ný létt mannvirki fyrir verslun og þjónustu og ný afmörkun deiliskipulagsreita á svæðinu, samkvæmt uppdr. Yrki arkitekta ehf. dags. 27. nóvember 2019 br. 5. mars 2020. Einnig er lagður fram skuggavarpsuppdr. dags. 27. nóvember 2019, greinargerð Yrki arkitekta ehf. dags. 27. nóvember 2019 br. 5. mars 2020 og umferðarskýrsla Eflu dags. 29. nóvember 2019. Tillagan var auglýst frá 16. desember 2019 til og með 29. janúar 2020. Eftirtaldir aðilar sendu athugasemdir/umsögn: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dags. 15. janúar 2020, Jón Rúnar Pálsson dags. 15. janúar 2020, Minjavernd dags. 20. janúar 2020, Ingólfur Kristjánsson dags. 27. janúar 2020, Ólafía Einarsdóttir dags. 27. janúar 2020, Samúel Torfi Pétursson dags. 29. janúar 2020, Íbúaráð Miðborgar og Hlíða dags. 29. janúar 2020, Landssamtök hjólreiðamanna dags. 29. janúar 2020, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu dags. 29. janúar 2020, skrifstofa umhverfisgæða dags. 29. janúar 2020, Bifreiðafélagið Frami dags. 29. janúar 2020, Jón Rúnar Pálsson dags. 29. janúar 2020 og Mörkin lögmannsstofa hf. f.h. Hreyfils dags. 29. janúar 2020. Einnig eru lögð fram minnisblöð Veitna annars vegnar um Stofnlögn fráveitu dags. 30. janúar 2020 og hins vegar um athugasemdir Veitna við tillögu að deiliskipulagi fyrir Hlemm dags. 31. janúar 2020. Jafnframt er lagt fram minnisblað Veitna dags. 3. mars 2020 með athugasemdum og fundargerð umhverfis- og skipulagssviðs dags. 26 febrúar 2020 vegna fundar 19. febrúar 2020 með fulltrúum frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, LRH. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 6. mars 2020. Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 6. mars 2020. Vísað til borgarráðs.
Gestir
Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Vegna nýs deiliskipulags fyrir Hlemm, Snorrabraut og nærliggjandi umhverfi lýsir Flokkur fólksins yfir áhyggjum þegar skipulagsyfirvöld borgarinnar vinna að deiliskipulagi og senda án samráðs við fólk í auglýsingu. Hlemmur er okkar allra, eitt af þeim svæðum sem flestir borgarbúa þekkja, því er ánægjulegt að það hafi verið skoðað í heild sinni. Það vekur athygli að gengið er út frá drauminum um borgarlínu, þannig að nýja skipulagið gerir aðeins ráð fyrir að borgalínan fari um svæði. Ekki er fullljóst með stoppistöðvar Strætó, en bent á Snorrabraut. Það er varhugavert því stöðvar við þá götu hefðu veruleg áhrif á umferð sem þegar verður illa teppt vegna lokunnar Rauðarárstígs. Aldar gamalli hefð leigubílastands á Hlemmi verður fórnað og óljóst hvar verður, frekar á að flytja til baka Norðurpólinn. Sumt úr sögunni á að undirstrika, en annað sem enn lifir þarf að hverfa eins og leigubílastaurinn, sem þjónar þó fólkinu í nánasta umhverfi. Útiloka á öll ökutæki af svæðinu og þar með aðgengi fatlaðra og eldri borgara. Engin aðkoma bíla leyfð, ekki einu sinni P merkt stæði? Ljóst að borgarbúar munu hafa lítið um skipulagið að segja. Flokki fólksins finnst að borgarbúar eigi að koma meira að hönnun og skipulagi á fyrstu stigum skipulags. Forðumst vondar endurtekningar.
  • Miðflokkur
    Þó að meirihlutinn hafi ekki á neinu stigi tekið tillit til athugasemda almennings eða hagsmunaaðila t.d. á Laugaveginum í ákvörðunum sínum, þá er það skylda þeirra að hlusta á athugasemdir lögreglunnar hvað varðar öryggissjónarmið í breytingu deiliskipulags. Í umsögn frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglustarfsemin geti ekki nýtt borgarlínu – að mati borgarfulltrúa Miðflokksins er þarna um mikla kaldhæðni að ræða – og því skapi tillagan í núverandi mynd vandkvæði fyrir þjónustu lögreglu og fyrir neyðarakstur til og frá lögreglustöð. Einnig bendir lögreglan á að slysahætta geti skapast við útakstur af athafnasvæði lögreglustöðvarinnar inn á Snorrabraut vegna sérreinar fyrir hjólandi þvert á neyðarakstur lögreglu. Bendir lögreglan á að þetta valdi vandkvæðum þar sem fangageymsla LHR er á Hverfisgötu og aðgengi sjúkrabíla þangað þarf að vera mjög greitt. Leysa á það mál með því að koma fyrir blikkljósum við hjólreiðastíg sem yrðu virkjuð við neyðarútkall – það er brandari. Svarið er alltaf eitt: „Tekið verður tillit til útfærslu við fullnaðarhönnun verkefnisins.“. Upphaflega stóð til að fækka bílastæðum í kringum lögreglustöðina um rúm 30 stæði. Nú standa eftir 11 bílastæði. Samtals hverfa 85 bílastæði af Hlemmsvæðinu. Lögreglan er þjónustustofnun og er þetta bein aðför að aðgengi að henni. 
  • Sjálfstæðisflokkur
    Mikilvægt er að aðstaða fyrir leigubíla verði tryggð áfram og merkingar þeirra verði skýrar og sjáanlegar á torginu. Unnið verði að útfærslu fyrir leigubíla í góðu samráði við hagaðila. Þá er rétt að endurskoða framtíðarstaðsetningu lögreglustöðvarinnar í tengslum við þessar breytingar. Mögulega með öðrum öryggis- og viðbragðsaðilum. 
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Hugmyndin um endurskipulag Hlemmtorgs á sér nokkuð langa sögu. Reykjavíkurborg bauð fyrir þremur árum nokkrum arkitektastofum að taka þátt í hugmyndaleit með það markmiði að gera nýtt heildarskipulag sem gerði Hlemm að miðpunkti mannlífs, samgangna og samskipta í austurborginni. Nýtt deiliskipulag, byggt á tillögum hugmyndaleitarinnar, gerir Hlemmtorg að aðlaðandi og öruggara umhverfi fyrir gangandi vegfarendur og um leið að kjörstað fyrir iðandi mannlíf. Það stuðlar að bættum aðstæðum fyrir skilvirkar almenningssamgöngur og tryggir samhangandi kerfi hjólastíga. Tekið var tillit til athugasemda lögreglunnar við endanlega útfærslu tillögunnar. Við tökum undir jákvæða umsögn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða og leggjum áherslu á aðgengi fyrir alla og að það verði gaman fyrir krakka að koma á Hlemm.