Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Sjómannaskólareitur og Veðurstofuhæð, breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur, breytt landnotkun og fjölgun íbúða
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 42
3. júlí, 2019
Annað
Fyrirspurn
Lögð er fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs dags. í júní 2019 fyrir breytingu á aðalskipulagi fyrir Sjómannaskólareit og Veðurstofuhæð. Í breytingunni felst breytt landnotkun og fjölgun íbúða á svæðinu.  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu samkvæmt 36. gr. sbr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fjórum atkvæðum Fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu erindisins. Vísað í borgarráðs.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylking, Viðreisn, Píratar
    Reykjavíkurborg og ríkið gerðu nýverið með sér samkomulag um endurskipulagningu svæða sem hafa verið á forsjá ríkisins með það að markmiði að fjölga íbúðum, þá sérstaklega fyrir ungt fólk, námsmenn, fyrstu kaupendur og aldraða. Sjómannaskólareiturinn er eitt þessara svæða. Við vinnslu deiliskipulags fyrir reitinn hefur verið tekið mið af þeim athugasemdum sem borist hafa. Breytingar fela m.a. í sér að vatnsgeymar og stakkstæði eru fest í sessi sem græn svæði sem njóta hverfisverndar. Haft hefur verið að leiðarljósi að nýbyggingar falli vel að núverandi byggð og hefur byggingamagn verið minnkað frá fyrri tillögu í samræmi við athugasemdir nágranna. Hæð húsa verður enn fremur einungis um 2-4 hæðir og mun Sjómannaskólinn því áfram njóta sín sem hæsta bygging svæðisins. Nýtingarhlutfall (byggingarmagn á flatarmál lands) á reitnum verður áfram talsvert lægra en á nálægum reitum, svosem reitir með íbúabyggð við Vatnsholt, Háteigsveg, Skipholt og Rauðarárholt. Lega svæðisins er hagstæð hvað varðar virka ferðamáta. Borgarlína verður í göngufjarlægð auk deilibílaþjónustu og þétts nets hjólastíga.
  • Flokkur fólksins
    Eins og segir á forsíðu Skipulagsstofnunar er mikilvægt að sjónarmið almennings komi fram þegar teknar eru ákvarðanir sem varða hagsmuni almennings og geta haft í för með sér miklar breytingar á umhverfinu. Í þessu máli hafa komið óvenju mikið af alvarlegum athugasemdum frá fólki á öllum aldri og þar með börnum sem er annt um umhverfi sitt. Þetta svæði er afar mikilvægt í borgarlandinu enda einstakt. Flokkur fólksins vill hvetja meirihlutann til að staldra við og ana ekki að neinu sem ekki verður aftur tekið. Hér er auðvelt að gera alvarleg mistök svo stórslys verði. Meirihlutinn í borgarstjórn verður að fara rækilega ofan í saumana á umsögnum og athugasemdum og kynna sér vandlega þau málefni er varða sjálfsprottnu grænu svæðin á Sjómannaskólareitnum í Reykjavík. Sérkenni þeirra og þýðingu fyrir Háteigshverfið og Reykjavíkurborg. Hefur meirihlutinn heimsótt Vatnshólinn sjálfan sem dæmi? sem er kennileiti hverfisins og griðarstaður íbúa. Umhverfi hans er uppspretta ævintýra, útivistar og samveru hverfisbúa. Útivist og leikur í náttúrunni er það sem hefur mótað Íslendinga frá örófi alda, á tímum tölvuleikja og nútímatækni er mikilvægt að börnin hafi eitthvað í sínu nær umhverfi sem hvetur þau til útiveru og ævintýrasköpunnar á þann hátt sem Sjómannakólareiturinn í heild sinni gerir.