Elliðaárvogur/Ártúnshöfði svæði 1, deiliskipulag, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 mánuðum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 123
8. desember, 2021
Vísað til borgarráðs
1. fundarliður
2. fundarliður ›
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða, svæði 1. - Krossamýrartorg á Ártúnshöfða. Svæðið er um það bil 16 ha að stærð. Tillagan gerir ráð fyrir uppbyggingu um 1570 íbúða, skóla, verslunar- og þjónustusvæði við Krossamýrartorg, almenningsrýmum, borgarlínu og borgarlínustöð. Samhliða skipulagsgerðinni er unnið að vistvottun skipulagsins samkvæmt forsendum vistvottunarkerfisins BREEAM Communities. Tillagan er lögð fram til afgreiðslu í samræmi við eftirfarandi gögn ráðgjafa frá Arkís arkitektum og ASK arkitektum: Almenn greinargerð fyrir svæði 1 (og svæði 2), Arkís arkitektar, dags. 4. júní 2021 og síðast uppfærð 3. desember 2021. Skilmálar fyrir húsbyggingar og mannvirki á lóð  fyrir svæði 1, ASK arkitektar, dags. 4. júní 2021 og síðast uppfærðir 3. desember 2021. Deiliskipulags- og skýringaruppdrættir, ASK arkitektar, dags. 4. júní 2021 og síðast uppfærðir 3. desember 2021. Einnig  er lögð fram Hönnunarhandbók fyrir opin svæði, inngarða og almenningsrými dags. 4. júní 2021, unnin af Landslagi, samgöngumat Verkís dags. júní 2021 og síðast uppfært 1. desember 2021, Húsakönnun fyrir Ártúnshöfða svæði 1-4 dags. apríl 2021, hljóðvistarskýrsla Verkís dags. maí 2021, umhverfisskýrsla Verkís dags. maí 2021 og mengunarrannsókn Verkís dags. maí 2020. Tillagan var auglýst frá 7. júlí 2021 til og með 31. ágúst 2021. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Veitur dags. 18. ágúst 2021, Stefán Auðólfsson f.h. Tak-Malbik ehf. dags. 31. ágúst 2021, Samtök um bíllausan lífsstíl dags. 31. ágúst 2021 og Árni Davíðsson dags. 31. ágúst 2021. Einnig er lögð fram fornleifaskráning Borgarsögusafns Reykjavíkur, skýrsla nr. 212, dags. september 2021 og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. desember 2021.
Svar

Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 3. desember 2021.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Verkefnastjórarnir Sólveig Sigurðardóttir, Ólafur Melsted og Birkir Ingibjartsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Komur og brottfarir
  • - Kl. 11:07 tók Eyþór Laxdal Arnalds sæti á fundinum.
Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Við samþykkjum í dag deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða, svæði 1. Á svæðinu verður til nýtt torg, Krossarmýrartorg, umkringt íbúðum, verslum, þjónustu og menningartengdri starfsemi. Skipulagið allt hvetur til fjölbreyttra ferðamáta. Við Krossarmýrartorg verður upphafsstöð fyrsta áfanga Borgarlínu, gert er ráð fyrir mikilli samnýtingu bílastæða í sameiginlegum bílastæðahúsum og kjöllurum, hjólastígar beggja vegna gatna í flestum götum og gönguleiðum gert hátt undir höfði. Við leggjum áherslu á að endanleg hönnun gatnamóta í húsagötum hvetji til hægaaksturs og setji öryggi og þægindi gangandi og hjólandi í forgang. Þá er mikilvægt að öll hönnun komi í veg fyrir hringsól bíla um hverfið. Jafnframt leggjum við áherslu á að samsíða stæði eru meginregla nema þegar aðgengisrök mæla með öðru. Mælst er til þess að tryggt verði að auðvelt verði að selja bílastæði frá íbúðum þar sem þau fylgja. Hér munu 1570 nýjar íbúðir rísa, í grænu, umhverfisvænu og nútímalegu hverfi. Við fögnum þessu skipulagi.
  • Miðflokkur
    Heimatilbúinn lóðaskortur er staðreynd í Reykjavík. Meirihlutinn notfærir sér það ástand til að þrengja að fjölskyldubílnum. Hér er verið að skipuleggja heilt hverfi án þess að gert sé ráð fyrir að hver fjölskylda notar a.m.k. einn bíl. Það er verið að búa til algjöra ringulreið. Gangandi og hjólandi njóta forgangs í hverfinu ásamt hinni svokölluðu borgarlínu. Borgarlína er bara lína niður í miðbæ. Ekki er hægt að sjá hvernig borgarlína komi þessu hverfi til góða. Boðað er að verslun- og þjónusta verði í hverfinu auk skóla á efri stigum. Hvað á að gera við þá bíla sem þeir aðilar nota sem ætla að sækja þjónustu eða nám í hverfið. Skipulagsmál í Reykjavík eru komin á sama stað og fjármál borgarinnar – það er allt í klessu sama hvert litið er.
  • Flokkur fólksins
    Byggja á allt að  8.000 íbúðir þegar allt er komið. Fram kemur að ,,Markmið deiliskipulagsins er að sjá til þess að uppbygging svæðisins hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki svæðisins” og: ,,Mikilvægt er að varðveita og vernda lífríki og lágmarka sjónmengun frá ofanvatnskerfinu í viðtaka, við árbakka Elliðaáa og strandlengju Elliðaárvogs. Hér er um öfugmæli að ræða. Uppbyggingin eins og hún er hér framsett mun hafa mikil áhrif á lífríkið. Rústa á dýrmætasta svæðinu sem eru fjörurnar. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Það á að vera hægt að skipuleggja án þess að þurfa alltaf að ganga á fjörur. Hætta ætti því við landfyllingar. Þétting byggðar tekur oft of mikinn toll af náttúru að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Alltof mikið er manngert, búin til gerviveröld. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Fáar ósnortnar fjörur eru eftir í Reykjavík. Árbakkarnir til sjávar meðfram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á Borgarlína að skera Geirsnef í tvennt og sá möguleiki því ekki lengur til.