Skerjafjörður Þ5, deiliskipulag
Síðast Vísað til borgarráðs á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 98
24. mars, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að nýju deiliskipulagi fyrir Nýja Skerjafjörð. Tillagan gerir ráð fyrir uppbyggingu um 700 íbúða, leikskóla, grunnskóla, bílageymsluhúsi, verslun, þjónustu og útivistarsvæðum. Tillagan gerir einnig ráð fyrir nýjum vegtengingum til austurs, suður fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem er eingöngu ætluð almenningssamgöngum, gangandi og hjólandi vegfarendum. Einnig eru lagðir fram deiliskipulags-, skýringar- og skuggavarpsuppdr. ASK Arkitekta, EFLU og Landslags dags. 26. júní 2020 br. 5. mars 2021, greinargerð og almennir skipulagsskilmálar dags. 26. júní 2020 br. 5. mars 2021, sérskilmálar dags. 26. júní 2020 br. 5. mars 2021, hönnunarleiðbeiningar dags. 26. júní 2020, skýrsla Minjasafns Reykjavíkur nr. 161 frá 2013 (byggðakönnun, fornleifaskrá og húsakönnun), fjórir undirritaðir samningar: samkomulag um skipulag og uppbygging á landi ríkisins við Skerjafjörð dags 1. mars 2013, samkomulag um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli dags. 19. apríl 2013, samkomulag um innanlandsflug dags. 25. október 2013, kaupsamningur og afsal í framhaldi af formlegri lokun ríkisins á norður/suður og austur/vestur flugbrautar (braut (06/24) á Reykjavíkurflugvelli dags. 11. ágúst 2016, skýrsla NLR dags. í ágúst 2020 varðandi vindrannsóknir í Nýja Skerjafirði og áhrif þéttingu byggðar á aðstæður á Reykjavíkurflugvelli og minnisblað Isavia dags. 16. september 2020 um vindáhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á Reykjavíkurflugvöll. Jafnframt eru lögð fram ítargögn: skýrsla Eflu um jarðkönnun og mengunarrannsóknir í jarðvegi skerjafjarðar dags. 29. janúar 2019, skýrsla Eflu um hljóðvist dags. 12. september 2019, samgöngumat Eflu dags. 26. júní 2020, skýrsla Eflu um vindgreiningu dags. 7. janúar 2020, minnisblað Eflu vindgreining - viðauki A dags. 16. júní 2020, minnisblað Eflu Vindgreining - viðauki B dags. 26. júní 2020 og minnisblað Eflu vegna færslu skipulagsmarka (áhrif færslu skipulagsmarka á umferð, hljóðvist og vindafar) dags. 26. júní 2020. Tillagan fellir úr gildi eldra deiliskipulag frá 16. janúar 1986, br. 1999. Tillagan var auglýst frá 16. september 2020 til og með 9. nóvember 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Siglingafélag Reykjavíkur Brokey dags. 31. ágúst 2020, Isavia dags. 21. október 2020, Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna dags. 26. október 2020, Eyjólfur Gunnarsson, Margrét Gunnarsdóttir, Gunnar Trausti Eyjólfsson, Atli Már Eyjólfsson og Magnús Daði Eyjólfsson dags. 27. október 2020, Ásta Logadóttir, Örn Þór Halldórsson, Hjördís Sóley Sigurðardóttir og Ólafur Hjálmarsson f.h. áhugafólks um gæði dagsljóss í byggðu umhverfi dags. 27. október 2020, Samgöngustofa dags. 28. október 2020, Flugfélagið Geirfugl ehf. dags. 28. október 2020, Hildur Hjartardóttir og Sigurður Jens Sæmundsson dags. 28. október 2020, Jens Pétur Jensen dags. 28. október 2020, Guðjón B. Haraldsson dags. 28. október 2020, Daníel B. Sigurgeirsson, Elín Björk Jónasdóttir, Sigurdís Björg Jónasdóttir og Birgir Arnór Birgisson dags. 28. október 2020, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir dags. 28. október 2020, Sigríður Ragna Sigurðardóttir dags. 28. október 2020, Prýðisfélagið Skjöldur dags. 28. október 2020, Ester Helgadóttir dags. 28. október 2020, Patricia Anna Þormar og Hannes Árdal dags. 28. október 2020, Kristján Ívar Ólafsson og Heba Helgadóttir dags. 28. október 2020, Guðrún Dóra Steindórsdóttir dags. 28. október 2020, Aðalheiður M. Steindórsdóttir, Helga Árnadóttir Ingvi Hrafn Óskarsson, Úlfur Eldjárn, Sara Skúladóttir og Stefán Halldórsson dags. 28. október 2020, Steinunn María dags. 28. október 2020, Páll Rafnar Þorsteinsson dags. 28. október 2020, Íbúasamtök Vesturbæjar dags. 9. nóvember 2020, Veitur dags. 19. nóvember 2020, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dags. 23. nóvember 2020, Veðurstofan dags. 23. nóvember 2020 og Vegagerðin ódags. mótt. 7. desember 2020. Einnig er lagt fram bréf íbúaráðs Vesturbæjar dags. 22. október 2020 þar sem óskað er eftir kynningu og tölvupóstur Minjastofnunar Íslands dags. 10. nóvember 2020 þar sem óskað er eftir framlengingu á athugasemdarfresti. Jafnframt er lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 21. desember 2020 ásamt ákvörðun um matsskyldu vegna landfyllingar í Nýja Skerjafirði og minnisblað Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 27. janúar 2021 um flutning á aðstöðu siglingaklúbbs og mögulega smábátahöfn í Skerjafirði, umsögn Skipulagsstofnunar dags. 8. febrúar 2021, skýrsla Borgarsögusafns Reykjavíkur nr. 204, fornleifaskrá og húsakönnun, dags. árið 2021, og umsögn Minjastofnunar Íslands dags 1. mars 2021. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. mars 2021.
Svar

Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 5. mars 2021 með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds og Marta Guðjónsdóttir, greiða atkvæði gegn. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Katrín Atladóttir, situr hjá.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri og Sigurður Örn Jónsson frá Eflu taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Deiliskipulag fyrir fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Skerjafjarðar felur í sér sjálfbæra, blandaða byggð með um 690 íbúðum, leik- og grunnskóla, verslun, þjónustu og útivistarsvæði. Áhersla er lögð á forgang gangandi og hjólandi, hæga umferð og öflugar tengingar við almenningssamgöngur. Öll bílastæði lóða verða í miðlægu bílastæðahúsi þar sem verður matvöruverslun og þjónusta á jarðhæð. Sérbýli og raðhús verða í nýja hverfinu og tengja þau nýja hverfið við gróna byggð í Skerjafirði. Innar í nýja hverfinu verða námsmannaíbúðir, hjúkrunarheimili og hagkvæmt húsnæði. Gert er ráð fyrir grænu neti opinna svæða og gönguleiðir í gegnum inngarða í anda Þingholtanna. Tenging Nýja Skerjafjarðar við atvinnukjarna, háskóla og vistvæna samgöngumáta gerir hann enn fremur að eftirsóknarverðum stað til að búa á. Fulltrúar meirihlutans fagna þeirri uppbyggingu sem áætluð er í fyrsta áfanga deiliskipulags fyrir svæðið og er tillagan samþykkt.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ótímabært að tekin sé endanleg ákvörðun um nýja byggð í Skerjafirði þar sem ýmsum rannsóknum og álitamálum er ólokið. Í fyrsta lagi eru áformaðar landfyllingar komnar í umhverfismat sem er ólokið og því algerlega óvissa um stærð skipulagssvæðisins og þar með fjölda íbúða og íbúa. Þá er Náttúrufræðistofnun með það til skoðunar að strandlengjan við Skerjafjörð verði friðuð í samræmi við samþykkt Alþingis frá 2004. Í öðru lagi hefur Vegagerðin óskað eftir að fram fari heildrænt samgöngumat en því er enn ólokið, en gert er ráð fyrir þreföldun íbúa í hverfinu með tilheyrandi álagi á umferð.
  • Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 
    Verið er að breyta deiliskipulagi í hinum svokallaða „Nýja Skerjafirði“. Málið er keyrt áfram af fullum þunga þrátt fyrir fjöldamargar vel rökstuddar og grafalvarlegar athugasemdir. Margt er enn á huldu um þetta svæði s.s. lögmætt gildi landfyllingar sem nú er í umhverfismati, olíumengun á svæðinu og ekkert tillit er tekið til öryggishlutverks Flugvallarins í Vatnsmýrinni en ljóst er að hann er ekki á förum miðað við umbrot á Reykjanesi undanfarnar vikur. Eldgos er hafið og þeir sem eru með skýra hugsun sjá að flugvöllur verður aldrei í Hvassahrauni. Hvað þarf til – til að borgarstjóri og meirihlutinn opni augun og viðurkenni staðreyndir. Hollenska loft- og geimferðarstofnunin hefur gert alvarlegar athugasemdir við framkvæmdina og lagði til að áhættumat yrði gert. Alþingi samþykkti árið 2004 að stefnt skuli að friðlýsingu fjöru og grunnsævis Skerjafjarðar og hefur Náttúrufræðistofnun áréttað þær hugmyndir. Hafrannsóknarstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafa allar í umsögnum til Reykjavíkurborgar undirstrikað verndargildi fjörunnar. Á fundinum er kynnt að fara eigi í nýja landfyllingu gegnt flugskýli Flugfélagsins Ernis. Það er alveg ljóst að ef farið verður í þessar framkvæmdir eiga þær eftir að hafa gríðarleg áhrif á umferðarþunga og skuggavarp á svæðinu eins og íbúar og umsagnaraðilar hafa bent á í umsögnum.
  • Flokkur fólksins
    Hér er verið að fara gegn áliti fjölda manna enda má segja að níðst sé á náttúrunni. T.d. er fjaran í Skerjafirði ein af örfáum ósnertu fjörum borgarinnar. Tilslakanir ná skammt. Fermetrum í byggingum hefur jú verið fækkað smávegi og örlítið dregið úr landfyllingu. Engu að síður gætu t.d. framkvæmdir vegna undirbúnings leitt til óafturkræfanlegra mistaka á náttúru og svæðinu öllu svo ekki sé minnst á kostnað. Skemmdar verða náttúrulegar fjörur. Bæta á fyllingu með fram flugvellinum, setja á landfyllingarkant. Fram kemur að endurbyggja á náttúrulega strönd sem verður þá ekki náttúruleg lengur? Hér er valin steypa á kostnað náttúru eins skipulagsyfirvöld hafa gert víða í Reykjavík. Líkur hafa aukist á að Hvassahraun verði ekki kostur fyrir flugvöllinn þar sem Hvassahraun stendur á hættusvæði nú þegar gos er hafið í Geldingadal. Í Skerjafirði er mengun í jörðu og hávaðamengun af flugvélum sem hefur áhrif á svæðið sem íbúðasvæði. Hvoru tveggja er raunveruleiki þótt reynt verði að milda áhrifin. Þess utan mun viðbót, um 1100 íbúðir væntanlega leiða til mikillar umferðir sem ekki er séð hvernig verður leyst. Kemur ekki til greina að hætta við að byggja í Skerjafirði og bíða eftir því að flugvöllurinn fari ef hann þá fer einhvern tíman?