Hverfisskipulag, Breiðholt 6.2 Seljahverfi, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 ári síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 122
1. desember, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.2 Seljahverfi, dags. 30. apríl 2021, ásamt almennri greinargerð og stefnu, dags. 30. apríl 2021, og skipulagsskilmálum, dags. 30. apríl 2021. Einnig er lögð fram verklýsing fyrir hverfisskipulag dags. 25. mars 2015, lagf. 4. maí 2015, skýrsla um íbúaþátttöku og samráð dags. 7. desember 2020, athugasemdir, ábendingar og spurningar sem bárust á kynningartíma vinnslutillagna hverfisskipulags fyrir Breiðholt á tímabilinu 16. júlí til 18. september 2020, samantekt á úrvinnslu athugasemda og ábendinga frá íbúum og hagsmunaaðilum dags. 26. maí 2021 og byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur fyrir borgarhluta 6, Breiðholt, skýrsla 216 frá árinu 2021. Tillagan var auglýst frá 29. júní 2021 til og með 31. ágúst 2021. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Heiðdís Schell Traustadóttir dags. 26. júní 2021, Jóhanna Björk Gísladóttir dags. 8. júlí 2021, Svava Björg Hjaltalín Jónsdóttir f.h. eigenda við Akrasel 6 dags. 18. ágúst 2021, bókun fulltrúa í íbúaráði Breiðholts dags. 20. ágúst 2021, Helga Kristín Gunnarsdóttir f.h. Vina Vatnsendahvarfs dags. 20. ágúst 2021, Vegagerðin dags. 24. ágúst 2021 og svarbréf frá skipulagsdeild Kópavogs 26. ágúst 2021 ásamt umsögn umhverfissviðs Kópavogsbæjar 13. ágúst 2021. Einnig eru lögð fram svör við athugasemdum dags. 26. nóvember 2021.
Svar

Samþykkt sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. nóvember 2021.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Ævar Harðarson deildarstjóri hverfisskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 
Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Með hverfiskipulaginu er mótuð heildstæð sýn fyrir Breiðholtið. Reykjavíkurborg er að vinna hverfisskipulag fyrir öll hverfi til þess meðal annars að auka gagnsæi og jafnræði í kringum skipulagsheimildir og auðvelda fólki að gera breytingar á eigin húsnæði. Hverfisskipulagið skapar þannig skýra umgjörð um breytingar og viðbyggingar við núverandi húsnæði og einfaldar líf íbúa sem ætla að standa í framkvæmdum. Niðurstaðan er afrakstur víðtæks og metnaðarfulls samráðsferlis sem staðið hefur yfir frá árinu 2016. Komið er til móts við ákall íbúa um öflugri hverfiskjarna með þróun Arnarbakka og Völvufells og fleiri þróunarreita sem unnir hafa verið samhliða gerð hverfisskipulagsins. Vetrargarðurinn fær sinn sess í skipulagi Seljahverfis sem og fyrirhuguð dansmiðstöð í Efra-Breiðholti. Við þökkum starfsfólki hverfisskipulags mikla og góða vinnu og fögnum því að það sé að verða að veruleika.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Hér er verið að rýmka almennar heimildir húseigenda í hverfinu og er margt af því til bóta. Athugasemdir vegna samgangna ber að virða og er mikilvægt að bætt verði úr sem allra fyrst til þeim til að létta á umferð. Þá skortir á að Mjóddin sé skipulögð í heild eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til. Rétt er að benda á að Elliðaárdalurinn er ekki heldur hluti þessa hverfisskipulags.
  • Flokkur fólksins
    Nú blasir við að Arnarnesvegurinn verði umferðaræð með miklum umferðarþunga sem er líkleg til að hindra að nokkur útivist verði á svæðinu. Þessi framkvæmd eyðileggur náttúru í Vatnsendahvarfinu og efsta hluta Elliðaárdals. Fulltrúi Flokks fólksins er slegin yfir að sjá bréf frá Vegagerðinni og Kópavogsbæ sem við kemur Arnarnesveginum. Kópavogur vill stýra hvernig svæðum umhverfis Arnarnesveg verði ráðstafað í skipulagi „svo áframhaldandi afkastageta vegarins verði tryggð“ eins og segir í þeirra umsögn. Áhersla Vegagerðarinnar er að Arnarnesvegurinn geti stækkað og beri fleiri bíla í framtíðinni. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að ef veghelgunarsvæði verði stórt og það svæði verði að fullu nýtt, mun það hafa slæm áhrif á íbúa og hindra þróunarmöguleika Vetrargarðsins. Kópavogur vill hafa áhrif á skipulagið og virðist hugsa einungis um eigin hagsmuni. Reykjavík leyfir hagsmunum þeirra að vera í fyrirrúmi. Engin virðing er borin fyrir umhverfinu þarna í upphæðum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst slæmt að Reykjavíkurborg skuli ekki taka þetta fastari tökum, ekki síst vegna Vetrargarðsins sem Kópavogsbúar munu eflaust nota líka. Eru skipulagsyfirvöld virkilega sátt með það í allri sinni umræðu um grænar áherslur? Af hverju er ekki hægt að skoða að leggja veginn í göng eða stokk til að vernda umhverfi, náttúru og útivistarmöguleika svæðisins?