Hverfisskipulag, Háaleiti-Bústaðir 5.2 Kringlan-Leiti-Gerði, kynning
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 ári síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 125
12. janúar, 2022
Annað
Fyrirspurn
Kynning á stöðu vinnutillögu Hverfisskipulags fyrir Háaleiti-Bústaði hverfi 5.2, Kringlan-Leiti-Gerði að loknum athugasemdafresti. Einnig er lögð fram könnun Gallups vegna nýs Hverfisskipulags Háaleitis- Bústaða, dags. í nóvember 2021.
Svar

Ævar Harðarson deildarstjóri hverfisskipulags tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti.

Bókanir og gagnbókanir
 • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
  Við fögnum þeirri miklu og blómlegu umræðu sem hefur átt sér stað um vinnutillögur að hverfisskipulagi Háaleitis og Bústaða. Opið hús var í Austurveri, sérstakur samráðsfundur haldinn, farið í þrjár göngur um hverfið, gerð var Gallup-könnun, þúsundir heimsóttu heimasíðu hverfisskipulagsins, íbúasamtök boðuðu til fundar um skipulagið og mörg hundruð manns tóku þátt í netsamráði. Næsta skref er að vinna úr þeim athugasemdum sem borist hafa. Ljóst er að tillögur að þéttingu byggðar meðfram Bústaðavegi við Grímsbæ hafa mætt andstöðu meðal margra íbúa í hverfinu. Mikilvægt er að hlusta á þessar raddir íbúa og réttast er að leggja þessar hugmyndir um þéttingu við Bústaðaveg til hliðar og leita annarra lausna sem byggja á breiðari sátt og draga úr umferðarhraða, bæta hljóðvist og tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á svæðinu eins og kallað hefur verið eftir.
 • Sjálfstæðisflokkur
  Meirihluti íbúa er á móti áherslum í skipulagi við Bústaðaveg hvort sem um er að ræða þéttingu byggðar, hverfiskjörnum eða samgöngur. Af þeim sem tóku afstöðu voru 2/3 íbúa á móti áherslum í tillögunni varðandi þéttingu byggðar við Bústaðaveg í grennd við Grímsbæ. Ljóst er að ítarlegt samráð hefur átt sér stað þó ekki hafi verið fallist á lengingu athugasemdafrests sem íbúar höfðu þó sérstaklega óskað eftir. Mikil andstaða er jafnframt við vinnutillögur um breytt skipulag við gatnamót Miklubraut og Háaleitisbrautar. Fullt tilefni er því til að endurskoða fyrirliggjandi tillögur enda eru þær vægast sagt mjög umdeildar meðal íbúa.
 • Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
  Mikil gagnrýni hefur komið fram á nýtt hverfaskipulag Háleiti-Bústaðir og ber líklega opinn fundur um málið þar sem hæst bar að embættismaður borgarinnar gaf þá yfirlýsingu að fólk á aldrinum 60 ára + væri ómarktækt í skoðunum í málinu. Nú er lögð fram skoðanakönnun sem tekin var 15.-30. nóvember sl. Skoðanakönnunin er borgaryfirvöldum ekki í hag því tæplega 45% svaranda leist illa á tillögurnar, hvorki vel né illa 24,5% og þeim sem leist vel á tillögurnar voru tæp 31%. Samt er haldið áfram af fullum þunga.
 • Flokkur fólksins
  Það kennir ýmissa grasa ef athugasemdir eru skoðaðar. Margir eru ánægðir og finnst þetta góðar tillögur. Hér er verið að breyta hverfi í borginni, manngerð framkvæmd. Spurt er engu að síður í athugasemdum af hverju svona framkvæmdir séu ekki settar í umhverfismat? Óskir koma fram um að fjölga frekar grænum svæðum milli húsa en að leggja þau undir íbúðabyggð. Einnig er ekki nægjanleg trú á þessa könnun og efasemdir um að hún sé „alvöru“. Gera þarf fleiri kannanir að mati fulltrúa Flokks fólksins. Fólk óttast miklar þrengingar og kallað er eftir bótum sem taka mið af þörfum allra en ekki bara sumra. Minnt er á að til að tryggja öryggi er hægt að gera undirgöng eða brú. Í tillögum er gert ráð fyrir að íbúðareigendur fjölbýlishúsa geti byggt við hús sín. Það er að mörgu leyti góð hugmynd en mikilvægt er að kanna sem fyrst hverjir myndu mögulega gera það. Fólkið sem mun búa í þeim íbúðum munu einnig þurfa sitt svigrúm sem gera þarf ráð fyrir. Hér er um vinnutillögur að  ræða, fyrstu drög, og gera má ráð fyrir að þær eigi eftir að breytast umtalsvert og vonandi taka breytingar mið af vilja þorra íbúa hverfisins.