Málefnasamningur meirihluta bæjarstjórnar
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 ári síðan.
Bæjarstjórn nr. 1891
8. júní, 2022
Annað
Fyrirspurn
Lagður fram málefnasamningur meirihluta bæjarstjórnar
Svar

Til máls tekur Valdimar Víðisson, Árni Rúnar Þorvaldsson og Jón Ingi Hákonarson.

Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun:

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lýsa vonbrigðum með að ekki hafi reynst vilji hjá Framsóknarflokknum að mynda félagshyggjumeirihluta. Eðlilegt hefði verið að láta reyna á myndun slíks meirihluta þar sem Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn voru sigurvegarar kosninganna. Framsóknarflokkurinn missti einfaldlega kjarkinn og niðurstaðan er því áframhaldandi meirihlutasamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þar sem fá af aðalkosningamálum Framsóknarflokksins hafa ratað í málefnasamning flokkanna. Ekkert er minnst á óhagnaðardrifin leigufélög eða fjölgun félagslegs húsnæðis í málefnasamningnum. Ekki er þar heldur að finna neitt um gjaldfrjálsan leikskóla eins og Framsóknarflokkurinn ræddi í kosningabaráttunni.

Við okkur blasir hins vegar mjög almennt orðaður málefnasamningur og fátt í honum sem hönd er á festandi og ekki í nokkru samræmi við hin fjölmörgu loforð flokkanna í kosningabaráttunni. Þessi meirihluti er því fyrst og fremst samkomulag um skiptingu bæjarstjórastólsins í eitt kjörtímabil en ekki um málefnin. Orkan sem fór í að komast að samkomulagi um bæjarstjórastólinn virðist hafa valdið því að ekki einu orði er vikið að stærstu áskorunum og verkefnum stjórnvalda í dag, loftslagsmálum og almenningssamgöngum. Umhverfis- og náttúruvernd eru að sama skapi lítt sýnileg málefnasamningnum. Þessi stóru og brýnu mál sem varða framtíð okkar allra hafa ekkert vægi hjá nýmynduðum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði.

Samfylkingin mun hér eftir sem hingað til styðja öll góð mál sem frá meirihlutanum koma og berjast fyrir þeim málum sem jafnaðarmenn lögðu á oddinn í kosningabaráttunni. Á sama tíma munum við veita meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kröfutgt og málefnalegt aðhald á kjörtímabilinu og berjast þannig fyrir hagsmunum bæjarbúa með jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi.