Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2021 og fyrirtækja hans, síðari umræða.
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 ári síðan.
Bæjarstjórn nr. 1890
4. maí, 2022
Annað
‹ 10
11
Fyrirspurn
11.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 20.apríl sl. 1. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 12. apríl sl.
Bæjarráð vísar ársreikningi bæjarsjóðs Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2021 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.
Forseti ber þá upp tillögu um að ársreikningi Hafnarfjarðarkaupstaðar 2021 og fyrirtækja hans verði vísað til 2. umræðu sem fram fer í bæjarstjórn 4. maí nk. Er það samþykkt samhljóða.
Svar

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. Til andsvars kemur Adda María Jóhannsdóttir og Rósa svarar andsvari og Adda María kemur að andsvari öðru sinni og Rósa Guðbjartsdóttir svarar andsvari í annað sinn.
Næst til andsvars við ræðu Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra er Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir.
Til máls tekur Jón Ingi Hákonarson.
Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson og Adda María svarar andsvari og Ágúst Bjarni kemur að andsvari öðru sinni.
Til máls tekur Sigðurður Þ. Ragnarsson.
Til máls tekur Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir.

Bæjarstjórn samþykkir ársreikninginn samhljóða.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks: Nýframlagður ársreikningur bæjarins endurspeglar aukinn fjárhagslegan styrk Hafnarfjarðarbæjar þrátt fyrir miklar áskoranir í rekstrarumhverfi sveitarfélaga á síðasta ári. Það sést ekki síst í stórauknum fjárfestingum og verulegri uppgreiðslu langtímalána. Á kjörtímabilinu hefur verið tekið á skuldavanda sem er enn þungur klafi á sveitarfélaginu. Það var og er vitað að verkið mun taka talsverðan tíma enda hafði bæjarfélagið verið komið undir eftirlitsnefnd ráðuneytis með fjármálum sveitarfélaga.
Í ársreikningi Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2021 kemur fram að skuldaviðmiðið hélst óbreytt í 101% frá árinu áður. Það er vel undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Skuldahlutfall Hafnarfjarðar lækkar verulega milli ára, eða úr 161% í 149%. Þessir mikilvægu mælikvarðar um fjárhagslegt heilbrigði sveitarfélags hafa náðst hraðar niður en áætlanir og væntingar stóðu til.
Þennan árangur má fyrst og fremst þakka ábyrgri fjármálastjórnun sem hefur gengið út á að framkvæma sem mest fyrir eigið fé bæjarins samhliða því að greiða niður eldri lán. Alls námu afborganir lána, á tímabilinu 2014-2021, 3,3 milljörðum króna umfram nýjar lántökur. Til dæmis voru engin ný lán tekin á síðastliðnu ári. Hafnarfjarðarbær er þó enn mjög skuldsett sveitarfélag og má lítið út af bregða í rekstrinum til að ekki fari illa. Það sem hefur langmest áhrif á niðurstöðu ársreikningsins er gríðarleg hækkun lífeyrisskuldbindingar sveitarfélagsins á árinu þegar nýir útreikningar tryggingasérfræðinga hækkuðu skuldbindingar bæjarins um 900 milljónir króna. Lífeyrisskuldbindingarnar eru nú um þriðjungur allra skulda og skuldbindinga bæjarins. Þess vegna er afar mikilvægt að halda lántökum í lágmarki á komandi árum, greiða áfram niður skuldir og lækka þannig vaxtakostnað til að geta haldið áfram að bjóða bæjarbúum góða þjónustu.
Framtíðin er björt í Hafnarfirði og nú eru miklir uppgangstímar í bæjarfélaginu. Hin mikla lóðasala undir íbúða- og atvinnuhúsnæði hefur og mun skila bænum góðum tekjum, þar með talið varanlega auknum útsvarstekjum.
Til að bæjarfélagið haldi áfram að vaxa og dafna er mikilvægt að haldið sé áfram á braut ábyrgrar fjármálastjórnunar.


Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi Viðreisnar leggur fram eftirfarnadi bókun:
Undanfarin tvö ára hefur reksturinn skilað tapi upp á einn og hálfan milljarð á ári og það lítur út fyrir að taprekstur verði töluverður áfram næstu ár. Helsta skýring er aukinn launakostnaður.
Niðurgreiðsla á langtímalánum hefur verið greidd með sölu eigna og lánum, reksturinn stendur ekki undir greiðslu lána. Slík fjármálastjórn gengur ekki til lengdar. Handbært fé frá rekstri mun ekki verða jákvætt á næstu árum.
Þetta er í samræmi við það sem Viðreisn hefur varað við á kjörtímabilinu. Hér hefur ekki verið farið í neinar aðgerðir til að finna leiðir til að gera reksturinn hagkvæmari og skilvirkari. Það er ekki lengur hægt að fela sig á bak við söluna á HS Veitum.
Fjármálastjórn meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kjörtímabilið 2018 ? 2022 fær því miður falleinkunn.


Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir leggur fram eftirfarndi bókun fulltrúa Bæjarlistans: Niðurstaða síðustu 4 ára gefur alls ekki tilefni til að hér sé talað um góða fjárhagsstjórn af hálfu pólitíkurinnar, nema síður sé.
Niðurstaða rekstrarins hjá okkur hefur legið niður á við á þessu kjörtímabili. Nú er svo komið að það er tap á rekstrinum upp á rúmar 700 milljónir. Þessi halli væri enn meiri ef ekki væri fyrir kipp í lóðasölu í bænum undanfarin ár, hefði hún verið minni væri tapið gríðarlegt.
Veltufé ? sá peningur sem reksturinn á upp í skuldir ? er neikvæð stærð hér fyrir síðasta ár hvað varðar A hlutann, hinn eiginlega rekstur sveitarfélagsins. Það er grafalvarlegt mál. 2021 er neikvætt í Hafnarfirði upp á 14 milljónir. Fyrirtæki í svona stöðu væri ekki rekstrarhæft, hefði ekkert upp í skuldir sem er afar slæmt hvað varðar t.d. lánstraust.
Lífeyrisskuldbinding
Ég hef undanfarin ár tönnlast á því í fjárhags- og ársreikningaumræðum að Hafnarfjörður verður að fara að greiða inn á lífeyrisskuldbindinguna með forvirkum hætti.
Það má ekki ganga lengur að bæjarstjórn líti á lífeyrisskuldbindingu sem fjarlægt fyrirbæri sem ekkert verði við ráðið. Það er ekki rétt. Hér hefði til dæmis verið gott að verja einhverju af 2,7 milljörðunum frá sölu meirihlutans á HS Veitum í þetta skóflustungu- og myndatökulausa verkefni. Þar var tækifæri, sem ekki var nýtt.
Hafnarfjörður er að halda úti hlutfallslega of þungu kerfi
Hagræðing á íþyngjandi stærðum á borð við skuldir og lífeyrisskuldbindingar verður ekki að veruleika nema reksturinn léttist. Það verður annað hvort í kjölfar íbúafjölgunar eða aðhaldsaðgerða og mun framtíðin leiða í ljós hvort verður ofan á.
Um leið og ég þakka fyrir minn tíma á þessum vettvangi, óska ég nýrri bæjarstjórn á næsta kjörtímabili alls góðs og heilla í sínum störfum. Ég vona að sú bæjarstjórn verði fjölbreytt og skipuð allskonar fólki úr ólíkum áttum. Fjölbreytni er alltaf af hinu góða.
Ég vil sérstaklega hvetja til þess að hagsmunir flokka verði aldrei settir framar hagsmunum bæjarins heldur skynsemin látin ráða. Ég vona að fólki auðnist að vinna vel saman og halda opnum tengslum milli meiri- og minnihluta þannig að allir kraftar séu nýttir. Þegar allt kemur til alls þá felst nefnilega í orðanna hljóðan að verkefnið okkar er að stjórna bænum sem fulltrúar bæjar.


Sigrún Sverrisdótir leggur fram eftirfarandi bókun fyrir bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar: Í dag afgreiðir bæjarstjórn Hafnarfjarðar ársreikning fyrir árið 2021. Um leið skilar meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks af sér búi í hendur nýrrar bæjarstjórnar sem tekur við að loknum sveitarstjórnarkosningum þann 14. maí nk.
Rekstrarniðurstaða fyrir árið 2021 er neikvæð um 1.480 m.kr. Rekstrarniðurstaða B-hluta fyrirtækja (Vatnsveitu, Fráveitu, Hafnarsjóðs og Húsnæðisskrifstofu) er hins vegar jákvæð um 771 m.kr. Þrátt fyrir að þær tekjur séu teknar með í reikninginn er rekstrarniðurstaða ársins 2021 með því lægsta um margra ára skeið og er nánast á pari við útkomu ársins 2009 í kjölfar efnahagshruns.
Það er athyglisvert að fráfarandi meirihluti hafi ákveðið að halda útsvarsprósentu óbreyttri í slíku árferði enda hafa útsvarstekjur lækkað í hlutfalli við rekstrartekjur frá árinu 2018. Það skýrist þó einnig af því að íbúum í sveitarfélaginu hefur fjölgað mun hægar en víðast hvar annars staðar og í raun fækkaði þeim um 0,7% árið 2020 í fyrsta skipti í 80 ár, eða frá árinu 1939. Enn hefur Hafnarfjörður því ekki náð að fagna þrjátíu þúsund íbúum öðru sinni en því var fagnað með viðhöfn haustið 2019.
Kjörtímabilið sem nú rennur sitt skeið hefur um margt verið óvenjulegt. Heimsfaraldur setti mark sitt á seinni hluta tímabilsins og fara þurfti í ýmsar aðgerðir því tengdar. Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks nýtti það ástand til að selja hlut sveitarfélagsins í HS Veitum án samráðs við fulltrúa annarra flokka í bæjarstjórn eða hina raunverulegu eigendur, íbúa sveitarfélagsins. Þrátt fyrir hagnaðinn af sölunni hefur veltufé frá rekstri verið í sögulegu lágmarki síðustu tvö ár.
Einkavæðingarhugmyndir núverandi meirihlutaflokka eru þó ekki nýjar af nálinni. Nú þegar þessu kjörtímabili er að ljúka og eftir átta ára setu Sjálfstæðisflokksins í meirihluta er vert að rifja upp þær fjárhæðir sem bæjarsjóður hefur greitt vegna einkaframkvæmdasamninga sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkur stóðu fyrir á árunum í kringum 2000 þegar skólabyggingar voru settar í einkaframkvæmd. Sú aðgerð hefur verið bæjarfélaginu dýrkeypt. Á seinustu tuttugu árum hafa leigugreiðslur numið um 5,6 ma. króna. Samningarnir renna út á árunum 2024-2027 og á enn eftir að greiða 1,5 ma þar til yfir lýkur. Alls munu þessir samningar því hafa kostað bæjarfélagið um 7 ma króna þegar þeir renna út, flestir á næsta kjörtímabili. Samkvæmt svörum við fyrirspurnum fulltrúa Samfylkingarinnar hafa engar ákvarðanir verið teknar um framhaldið, heldur er ábyrgðinni velt yfir á þá bæjarstjórn sem tekur nú við. Það er því mikilvægt að á næsta kjörtímabili taki við stjórn félagshyggjuflokkar sem ekki aðhyllast hugmyndir frjálshyggjunnar um einkavæðingu mikilvægra innviða samfélagsins.

Sigurður Þ. Ragnarsson leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd Miðflokksins: Þessi ársreikningur fyrir 2021, sem hér er til samþykktar, sýnir það sem stefnt hefur í á þessu kjörtímabili nl. umtalsverður taprekstur á sveitarfélaginu. A hlutinn er neikvæður um 1,5 milljarð, en A og B samtals 709 mkr. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar gripu til þess ráðs að selja eigur bæjarbúa til að eiga fyrir reikningum sveitarfélagsins. Það hefur aldrei verið góð hagstjórn að selja frá sér eigur, í þessu tilviki ágæta mjólkurkú, til að greiða reikninga. Hér er ég auðvitað að tala um söluna á hlut bæjarins í HS-veitum (gömlu Rafveituna) á kjörtímabilinu.
Hjá því verður ekki litið að skuldir í krónum talið hafa hækkað frá 2017 um 10 milljarða króna. Það er ógnvænlegt í ljósi þess að bærinn skuldar nú yfir 50 milljarða króna og greiðir árlega um tæpa fjóra milljarða í afborganir og vexti þ.e. A hlutinn greiðir 1,5 milljarð í vexti og 1,5 milljarð í afborganir. A B hluti greiða 1,9 milljarða í vexti og 2 milljarða í afborganir eða samtals 3,9 milljarða í afborganir og vexti.
Þegar lán eru tekin er nauðsynlegt að leggja fram tekju- og greiðslumódel um hvernig eigi að greiða fjármagnið til baka. Hér er hins vegar siglt áfram eins og skuldaaukning sé ekkert nema sjálfsögð. Það er heldur dapurlegt því afleiðinguna höfum við séð raungerast hjá meirihlutanum með því að selja hlutinn í innviðafyrirtækinu, HS-veitum, sem fórnað var á altari markaðshyggjunnar á alltof lágu verði sbr. matsvirði á fyrirtækinu í dag. Þessari sölu gleyma góðir og gegnir Hafnfirðingar ekki svo auðveldlega.