Kaplakriki, heimavöllur, tímabundið, tillaga
Kaplakriki
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3596
17. febrúar, 2022
Annað
Fyrirspurn
Viðreisn leggur fram eftirfarandi tillögu: Í ljósi þess að loksins virðist vera kominn skriður á byggingu nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu, mun í framhaldinu koma til þess að finna landsliðum Íslands í knattspyrnu heimavöll á meðan niðurrifi Laugardalsvallar og byggingu nýs leikvallar stendur. Þar væri ráð fyrir okkur Hafnfirðinga að bjóða fram Kaplakrikavöll til verksins. Völlurinn hefur áður hýst mikilvæga leiki yngri landsliða og myndi í nýju hlutverki þjóna tímabundið öllum landsliðum Íslands í knattspyrnu. Til þess að svo megi verða þyrftu að fara fram framkvæmdir á vellinum til þess að hann standist þær kröfur sem gerðar eru til knattspyrnuleikja á hæsta stigi; t.a.m. að byggja yfir og stækka norðurstúku vallarins, tengja stúkurnar saman með tengibyggingu sem jafnframt myndi hýsa stærri fjölmiðlaaðstöðu, leggja nýjan grasvöll með svokölluðu blendingsgrasi (e. hybrid) og undirhita og að lokum reisa fljóðljós. Eftir að nýr þjóðarleikvangur verður tilbúinn, gæti Kaplakrikavöllur nýst vel til þess að spila landsleiki yngri landsliða Íslands, evrópuleiki og alþjóðlega leiki almennt yfir vetrartímann. Hér er um stórt tækifæri að ræða sem þyrfti vinnast í góðu samstarfi við Ríkið og á í raun heima innan áætlanagerðar nýs þjóðarleikvangs. Því vill Viðreisn leggja það til að bæjarstjóra verði falið að setja sig við fyrsta tækifæri í samband við íþróttamálaráðherra, með það að leiðarljósi að Kaplakriki verði tímabundinn heimavöllur Íslands í knattspyrnu á meðan byggingu nýs þjóðarleikvangs stendur.
Svar

Bæjarráð er tilbúið til samtals við stjórnvöld um tímabundin heimavöll landsliða á meðan niðurrifi Laugardalsvallar og byggingu nýs leikvallar stendur. Er bæjarstjóra falið að koma þeim skilaboðum áleiðis til fjármálaráðherra og ráðherra íþróttamála, að undangengnu samtali við forsvarsmenn FH.